Á Íslandi er aldrei skortur á neinu, ekki einu sinni jarðarberjum eða bláberjum, sem eru árstíðabundnar vörur og frændum okkar Dönum og Svíum dettur ekki í hug að gera kröfu um að séu í verslunum yfir veturinn. Við Íslendingar framleiðum heilnæmustu kjötafurðir í heimi og Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, spyr hvort ekki sé eðlilegt að gera sömu kröfur um heilnæmi innflutts kjöts. Hér á landi séu ekki notaðir hormónar eða sýklalyf, sem notað er í ómældu magni í ríkjum sem framleiði ódýrari landbúnaðarafurðir en við. Það sé hins vegar kostnaðarsamt að halda landinu í byggð. Gunnar er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Við sem þjóð gortum okkur af því að hafa landið í byggð en það er ansi kostnaðarsamt að hafa landið í byggð og þá er spurningin hvernig nálgumst við það að hafa landið í byggð,“ segir Gunnar.
En mun ekki aukin krafa um gott aðgengi að matvælum úr héraði styrkja íslenskan landbúnað?
„Heilnæmustu kjötvörur sem framleiddar eru í heiminum eru framleiddar á Íslandi og í Noregi. Við erum ekki að nota hormóna eða sýklalyf eða neitt. Það er nánast núll. Svo þegar við berum okkur saman við þessi ríki sem framleiða þetta talsvert ódýrara en við erum að gera. Í þetta er dælt hormónum og sýklalyfjum alveg ómælt. Ég segi líka: Ef innlend framleiðsla á að uppfylla einhver ákveðin skilyrði, verðum við þá ekki að gera sömu kröfur á innfluttu afurðirnar? Er okkur bara alveg sama hvað kemur inn af því að það er ódýrt?
Þurfum við ekki alla vega að gera kröfu um að það komi skýrt fram á umbúðum, eða á sölustað, hvers konar framleiðsla þetta er? Neytendur hafa verið að kvarta undan því hér að þeir séu að kaupa eitthvað sem þeir halda að sé íslenskt. Svo kemur í ljós að það er bara íslenskt af því að það var flutt hingað óskorið og skorið eða sett í einhverja maríneringu hér á Íslandi og pakkað hér.
„Þessi löggjöf, eða innleiðing á regluverki, kemur náttúrlega frá þessu frábæra fyrirbæri, Evrópusambandinu, sem þú nefndir, af því að það mega ekki vera neinar viðskiptahindranir þannig að það er nóg bara að marínera kótilettur og þá geta þær verið allra þjóða kvikindi. Þetta er svo víðáttugalið,“ segir Gunnar og bætir því við að bændur hafi talað fyrir því og séu að vinna að upptöku merkis eins og Svíar, Norðmenn og Finnar séu með; Från Sverige og Nyt Norge. „Svo er finnska merkið sem ég get bara ekki sagt því það er svo erfitt.“
Hann segir Dani nokkuð sér á parti í þessum efnum. „Þeir setja bara danska fánann á sína vöru. Punktur. Og það eru allir Danir sem treysta því að ef það er danskur fáni á vörunni þá er hún dönsk. Það er bara eitthvað í hugarfarinu. En þarna vantar okkur eitthvað, bæði neytenda megin og framleiðenda megin, virðingu fyrir innlendri framleiðslu og hugarfari gagnvart innlendri framleiðslu. Ég veit ekki hvort við séum orðin of góðu háð. Það er aldrei skortur á neinu á Íslandi, ekki einu sinni á árstíðabundinni vöru. Þú getur keypt jarðarber 365 daga á ári. Þú getur keypt bláber 365 daga á ári og ef þú segir þetta við Dani hlæja þeir bara að okkur og segja: Í alvörunni? Þetta eru árstíðabundnar vörur,“ segir -Gunnar og skellir upp úr. „Það er alveg sama með Svía. Þeir segja: Við borðum ekki bláber á veturna, þau eru ekki til.“