fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Bæjarstjórn Vestmannaeyja skilur ekkert í kröfu Þórdísar – Tilgangslaust ófriðarbál

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 12. febrúar 2024 20:47

Páll Magnússon og Íris Róbertsdóttir skilja ekkert í Þórdísi Kolbrúnu fjármálaráðherra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fulltrúar bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar hafa skrifað Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fjármálaráðherra opið bréf vegna kröfu um að sveitarfélagið afhendi ríkinu stóran hluta Heimaeyjar og allar úteyjarnar.

Vísað er til bréfs sem birt var þann 2. febrúar síðastliðnum á vef Óbyggðanefndar þar sem áðurnefnd krafa var gerð. Nefnir bæjarstjórn að þessi krafa hafi enn ekki verið send til hennar.

„Þessa nefnd hafa Eyjamenn hingað til látið afskiptalausa, og hún okkur, enda fremur langsótt að telja 13 ferkílómetra eyju með 4,600 íbúum til óbyggða; jafnvel þótt úteyjarnar séu taldar með enda eru þær flestar byggðar reisulegum veiðihúsum,“ segir í opna bréfinu sem var birt nú síðdegis.

Komist lögmaður Óbyggðanefndar að því, með sögulegri vísun aftur til Landnámu, að ríkið eigi heimtingu á öllum úteyjum og skerjum, fjöll á Heimaey svo sem Blátind og Heimaklett, hlíðar Herjólfsdals, Eldfell sem myndaðist í gosinu árið 1973 og hraunið sem myndaðist úr því (sem reyndar er búið að byggja á og úthluta lóðum).

„Hér er fátt eitt upp talið af því sem ríkið vill nú sölsa undir sig í Vestmannaeyjum – sem er þeim mun undarlegra þegar haft er í huga að sama ríki afsalaði til Vestmannaeyjabæjar öllu þessu landi á grundvelli sérstakrar lagasetningar þar um 1960, fyrir 63 árum,“ segir bæjarstjórn.

Vandræðalaus sátt og samlyndi

Farið er þess á leit að ráðherra beiti almennri skynsemi og dragi kröfuna til baka.

„Það hefur aldrei komið upp sá ágreiningur, álitamál eða vafamál um eignarhald á landi í Vestmannaeyjum að það kalli á inngrip ríkisins af þessu tagi. Um þessi mál ríkir fullkomin og vandræðalaus sátt og samlyndi allra aðila og furðulegt að ríkisvaldið sé nú með ærnum tilkostnaði að efna til ófriðar þar sem enginn ágreiningur er fyrir. Fjármunum og kröftum ríkisins er væntanlega betur varið þessa dagana í annað en tilraunir til að sölsa undir sig land í Vestmannaeyjum,“ segir í bréfinu og spurt er „Hver er eiginlega tilgangurinn með þessu?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt