fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hömlulaust bruðl

Eyjan
Sunnudaginn 11. febrúar 2024 13:00

Kostnaður við byggingu nýs skrifstofuhúss Alþingis hefur farið langt fram úr áætlunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum bárust af því fregnir að fyrirhuguð brú yfir Fossvog eigi að kosta nærri níu milljarða króna en hún er aðeins 270 metra löng. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, benti á það á fésbókinni í fyrradag að þetta jafngilti 32,5 milljónum á lengdarmetrann. Til samanburðar hefði lengdarmetrinn kostað 2,2 milljónir króna í nýjum Dýrafjarðargöngum. Lengdarmetrinn á fyrirhugaðri brú yfir Fossvog yrði með öðrum orðum fimmtán sinnum dýrari en lengdarmetrinn í göngunum — og höfum hugfast að gangagröftur er jafnan mun kostnaðarsamari en brúarsmíði.  

Fertram bætti því við að þessar tölur gæfu raunar skakka mynd því tæplega níu kílómetra vegur hefði verið lagður sitt hvorum megin gangamunanna. Kostnaðurinn deildist því í reynd á 14,3 kílómetra. Þá væri lengdarmetrinn kominn niður í 940 þúsund krónur og metrinn á Fossvogsbrúnni 35 sinnum dýrari en á umræddri samgöngubót fyrir vestan. 

Þar með er ekki öll sagan sögð því hin ofsa dýra smábrú yfir Fossvog breytir sáralitlu — enda er hún ekki ætluð þorra fólks sem fer ferða sinna akandi — heldur aðeins þeim sem fara um hjólandi og gangandi, auk þess sem strætisvögnum verður ekið eftir henni. Þegar fyrstu áætlanir voru kynntar var gert ráð fyrir því að kostnaðurinn yrði 1,9 milljarðar króna. Áætlanir hafa því fjór- til fimmfaldast og reynslan kennir að kostnaður við framkvæmdir fer enn fram úr áætlunum eftir að þær hefjast. 

Sjaldan er ein báran stök 

Ef til vill er það til marks um firringuna þegar kemur að meðferð almannafjár að umræður um nýtt skrifstofuhús Alþingis á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis hafa nær eingöngu snúist um útlit þess og meintan skort á þægindum þingmanna. Afar lítið hefur farið fyrir umfjöllun um kostnaðinn. Upphaflega var gert ráð fyrir því að húsið myndi kosta 3,6 milljarða en sú tala var komin upp í 4,4 milljarða þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, tók fyrstu skóflustunguna. Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir en Óðinn Viðskiptablaðsins vísaði í vikunni sem leið til sögusagna þess efnis að kostnaðurinn sé kominn í sjö milljarða króna. Þær tölur eru óstaðfestar en nýjasta talan sem nefnd hefur verið birtist í frétt Ríkisútvarpsins og hljóðaði upp á 5,6 milljarða króna. 

Sá sem hér heldur á penna hefur áður gagnrýnt fjáraustur í umrædda byggingu og fékk þá yfir sig skammir frá fólki úr ýmsum flokkum sem sagði augljósan sparnað með byggingunni — en sparnaðurinn var sagður nema 100 milljónum króna á ári. Óðinn bendir á að húsið sé tekið að láni því ríkissjóður hafi verið rekinn með halla allan byggingartímann. Vaxtakostnaður ríkissjóðs af húsinu sé mögulega á bilinu 450 til 500 milljónir króna. Fasteignagjöld, fráveitugjöld, rekstrar- og viðhaldskostnaður verði án efa hærri en 100 milljónir og þá sé viðhaldi ríkiseigna svo illa sinnt að sum hús þurfi að endurbyggja innan fárra áratuga eins og dæmin sanna. Allt tal um sparnað eigi sér enga stoð. 

Eftir höfðinu dansa limirnir og lítil von um að sparnaðarandi ríki hjá lægra settum stjórnvöldum þegar hinir æðstu valdhafar fara jafnilla með almannafé og raun ber vitni. 

Óútfylltur tékki 

Enn ein fréttin af óskiljanlegum fjáraustri birtist í Morgunblaðinu sl. miðvikudag. Þar kom fram að kostnaður við útlendingamál hefði numið meira en tuttugu milljörðum króna á síðasta ári og hækkað um 65,5% frá árinu áður. Fréttina skrifaði ungur efnilegur blaðamaður, Hermann Nökkvi Gunnarsson, en hann spurði dómsmálaráðherra beinskeyttra spurninga af þessu tilefni. Ráðherrann hafði uppi stór orð um að breyta yrði regluverki til að stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um hæli. En þannig hafa dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins talað árum saman. Samt breytist ekkert og þessi óþarfa útgjaldaliður bólgnar sífellt út. 

Annars hef ég séð allnokkra vísa til sögunnar af miskunnsama Samverjanum í þessu sambandi og þeir hinir sömu segja að ríkissjóður Íslands eigi að verja mun hærri fjárhæðum til þessa málaflokks en ríkissjóðir annarra landa. Þegar menn nota líkingar af þessu tagi er ágætt að vera sæmilega lesinn. Samverjinn í sögunni gerði ekki góðverk sitt á kostnað annarra, hann var efnamaður og aflögufær. Raunverulegur náungakærleikur verður ekki sýndur með meintri góðvild á kostnað annarra — skattgreiðenda í þessu tilfelli. Öllum er frjálst sem einstaklingar að leggja sitt af mörkum til hvers kyns mannúðarstarfs, hvort sem það er í formi vinnu eða fjármuna (og göfugast að halda því fyrir sjálfan sig í stað þess að auglýsa eigin manngæsku). 

Allir gengnir í bruðlflokkinn? 

Hér eru bara nefnd þrjú nýleg dæmi um óheyrilegt bruðl í opinberum rekstri. Hægt væri að nefna mun fleiri þar sem um miklu hærri upphæðir er að tefla. 

Það sem helst greinir milli hugmyndafræðilegra andstæðna í pólitíkinni er afstaðan til hlutverks ríkisvaldsins, hversu háir skattar eigi að vera og þar með umfang rekstrar ríkis og bæjarfélaga. Það er eitt. Aftur á móti getur ekki verið um það pólitískur ágreiningur í grunninn að sýna eigi ráðdeild við meðferð fjármuna skattgreiðenda. Engin pólitísk hugmyndafræði boðar beinlínis bruðl og óráðsíu. Þess vegna ætti ekki að þurfa að deila um það að rétt sé að gæta aðhalds við ráðstöfun almannafjár. Samt er enginn stjórnmálamaður tilbúinn að tala af einurð fyrir ráðdeild í opinberum rekstri og gerast þar með málsvari skattgreiðandans sem vill nú raunar til að er hinn almenni borgari sem stritar alla daga í sveita síns andlits. Það er ekki nema von að menn spyrji sig hvort firringin sé að verða alger.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Það versta í 17 ár
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
19.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu