fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Eyjan
Mánudaginn 9. desember 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar rúm vika er liðin frá því að úrslit kosninganna lágu fyrir virðast Mogginn og sjálfstæðismenn smám saman vera að gera sér ljóst að þeir eru að missa völdin eftir órofa valdatíð Sjálfstæðisflokksins frá vorinu 2013. Reyndar hefur flokkurinn verið samfellt við völd frá árinu 1991 ef undan eru skilin fjögur ár vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009 til 2013, það er í 29 af 33 síðustu árunum. Það er því vissulega kominn tími til þess að þjóðin hvíli sig á Sjálfstæðisflokknum og kynnist því hvernig lífið er án þess að Sjálfstæðisflokkurinn ráði mestu um landsstjórnina á Íslandi. Það er svo annað mál að flokkurinn verður trúlega hvíldinni feginn og getur snúið sér að því að endurskipuleggja störf sín og stefnu. Flokkurinn gæti einnig reynt að finna sinn gamla flokk sem var og hét allt til loka síðustu aldar, undir kjörorðinu stétt með stétt. Það kjörorð er nú týnt – eða jafnvel afskræmt í stétt á stétt ofan þar sem almannahagsmunir hafa vikið fyrir sérhagsmunum hinna fáu og ríku, einkum í sjávarútvegi.

Orðið á götunni er að grátbroslegt hafi verið að lesa Morgunblaðið um helgina. Eytt var talsverðu rými í að reyna að réttlæta ósvífna ákvörðun Bjarna Benediktssonar, matvælaráðherra í umboðslausri starfsstjórn, um að veita Hval hf. fimm ára leyfi til hvaladráps með framlengingarrétti. Ekkert lá á afgreiðslu umsóknarinnar en beðið er niðurstöðu nefndar sem hefur haft hvalveiðimálin til umfjöllunar í marga mánuði og hennar er að vænta innan skamms. Ætla má að ný ríkisstjórn afturkalli og ógildi þessa óboðlegu ákvörðun fráfarandi ráðherra. Þá birti blaðið einkennilega útlistun á skiptingu ráðuneyta og úthlutaði ýmsum þingmönnum ráðherrasætum. Ljóst er að blaðið veit ekkert um það sem nú gerist fyrir luktum dyrum í stjórnarmyndunarviðræðum þriggja flokka. Nú eru fallnir af Alþingi eða horfnir af vettvangi þeir þingmenn sem láku jafnan upplýsingum til blaðsins. Nú eru engir flugumenn tiltækir og því berast engar mikilvægar upplýsingar. Loks var raunalegt að lesa Reykjavíkurbréf helgarinnar. Gamli maðurinn sem semur það minnist ekki orði á úrslit kosninga á Íslandi, enda eru þær honum ekkert gleðiefni. Þess í stað birtir hann enn eina langlokuna um Biden, Trump og Harris þar sem ekkert merkilegt kemur fram fremur en fyrri daginn úr þeirri átt.

Orðið á götunni er að sá veruleiki sem smám saman sé að skýrast betur fyrir sjálfstæðismönnum sé sá að ríkisstjórnarflokkunum var hafnað í kosningunum og stefnu og starfi fráfarandi ríkisstjórnar var vísað út í hafsauga. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins megi því vita að þeim verður ekki boðin aðild að næstu ríkisstjórn. Samfylkingin og Viðreisn munu annað hvort semja við Flokk fólksins um nýja ríkisstjórn eða þá Miðflokkinn náist ekki saman með Flokki fólksins. Núna bendir raunar fátt til annars en að stjórnarmyndun valkyrjanna þriggja muni takast. Mönnum er ljóst að úrslit kosninganna voru ákall um breytt vinnubrögð, breyttar áherslur og samhenta ríkisstjórn, andstætt því sem blasað hefur við hjá fráfarandi ráðherrum. Kjósendur vísuðu Vinstri grænum alfarið á dyr og kröfðust þess að þjóðin fengi frí frá Sjálfstæðisflokki og Framsókn.

Morgunblaðið og sjálfstæðismenn hafa þegar byrjað tuð um „vinstri stjórn“ og vara við hættu af slíkum stjórnum. Þeir reyna nú að gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarás í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og síðar vinstri stjórn Bjarna Benediktssonar, sem fallin er, síðustu sjö árin. Ríkisstjórn sem leidd var af formanni sósíalista, Katrínu Jakobsdóttur, með Steingrím J. Sigfússon í stafni sem forseta Alþingis er ekkert annað en vinstri stjórn. Það er staðreynd sem menn sitja uppi með. Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins yrði miðjustjórn. Komi til þess að Samfylking og Viðreisn myndi ríkisstjórn með Miðflokknum yrði slík stjórn ótvírætt miðju-hægri stjórn. Ekki er unnt að snúa út úr þessu.

Orðið á götunni er að sigurvegarar kosninganna hljóti að koma sér saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar á næstu vikum. Flokkarnir sem töpuðu kosningunum verða ekki kallaðir til enda engin þörf á því. Nú er komið að því að þeir horfist í augu við breyttar aðstæður. Það verður erfitt. Beinlínis í líkingu við sorgarferli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar