fbpx
Föstudagur 10.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Eyjan
Sunnudaginn 8. desember 2024 15:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég sá í vikunni sem leið að einhverjir ömuðust við því að tilvonandi ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins yrði kennd við valkyrjur, en þær ríða yfir blóðugan vígvöllinn og ráða hverjir skuli falla. Við svo búið halda þær til Valhallar með feng sinn. Valkyrjan hefur því eðlilega ekki þótt hentugt nafn á félögum sjálfstæðiskvenna. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætti að hafa öll tromp á hendi. Formaður Samfylkingarinnar og einkaeigandi Flokks fólksins (sem ekki hefur haldið aðalfund í fimm ár) vita sem er að Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur eru tilbúnir til samstarfs við Viðreisn hvenær sem kallið kemur. 

Við sjáum hvað setur en fyrst rætt er um kvenleiðtoga þá komu endurminningar Angelu Merkel, fyrrverandi kanslara, út á dögunum. Hún hafði til að bera einstaka forystuhæfileika, og náði að tryggja pólitískan stöðugleika í þau 16 ár sem hún ríkti en stjórn arftaka hennar á kanslarastóli, Olav Scholz, er fallin eftir aðeins þriggja ára setu. Þar réð ekki síst hversu illa gekk að miðla málum milli Frjálslyndra demókrata og hinna flokkanna í stjórninni Sósíaldemókrata og Græningja. Þetta voru vandræði keimlík þeim sem við kynntumst hér, þar sem hvorki gekk né við landsstjórnina þar sem Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir stefndu í öndverða átt. Framsóknarráðherrarnir gátu svo hagað seglum eftir vindi (og vísast hugsuðu þeir sér gott til glóðarinnar að komast í samstarf með Viðreisn og Samfylkingunni nú en kjósendur voru á öðru máli). 

Valkyrja í túlkun belgíska málarans Servais Joseph Detilleux.

Pólitískir erfingjar 

Ágæti stjórnmálaleiðtoga verður ekki mælt í þaulsætni. Ég sá í Economist á dögunum að arfleifð Merkel væri að mati blaðsins „increasingly terrible“ eins og það var orðað. Dorothea Siems, viðskiptaritstjóri Welt, vitnaði til þessara orða í pistli í liðinni viku og kvað Merkel að hluta til ábyrga fyrir mörgum erfiðustu úrlausnarefnum Þjóðverja um þessar mundir. Undir hennar stjórn hefði ekki verið ráðist í fjárfestingar til að búa þjóðina undir breytta aldurssamsetningu. Þess í stað hefði skattpeningum verið eytt í gæluverkefni til að viðhalda stundarvinsældum. Þá hefði Merkel grafið undan eigin flokki með áætlun um lokun kjarnorkuvera 2011, lægri eftirlaunaaldri og innleiðingu lágmarkslauna árið 2014 að ekki sé minnst á aðgerðir hennar til lausnar flóttamannavandanum 2015. Um væri að ráða ákvarðanir sem hefðu hugmyndafræðilega verið í andstöðu við stefnu Kristilegra demókrata. 

Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz lítur aftur á móti á sig sem pólitískan erfingja Merkel eða „Mutti“ eins og hún var iðulega kölluð. Dorothea Siems telur þó Robert Habeck, kanslaraefni Græningja, verðskulda enn frekar að vera útnefndur pólitískur arftaki Merkel þar sem það kom í hlut fráfarandi stjórnar að loka síðustu kjarnorkuverunum samkvæmt áætlun Merkel og það í miðri orkukreppu. Ekki að undra að við verðum um þessar mundir vitni að geipilegri hnignun þessa mest iðnveldis álfunnar. 

Stefna Merkel beið skipbrot 

Friedrich Merz, kanslaraefni kristilegu flokkanna, hefur leitað í hugmyndafræðilegar rætur síns flokks og leggur ofuráherslu á efnahagsmálin í aðdraganda kosninganna það er án efa rétt mat nú þegar svo til daglega berast fregnir af fjöldauppsögnum og verðbólgan er aftur farin að láta á sér kræla. En innflytjendamálin brenna ekki síður á kjósendum og þar hefur Merz tekið allt aðra stefnu en forveri sinn. Kristilegu flokkarnir vilja ekki taka við fleiri hælisleitendum. Merkel var einmitt spurð út í þessa stefnumörkun í viðtali við Der Spiegel fáeinum dögum áður en endurminningarnar komu út. Hún kvaðst henni alfarið andvíg, Þjóðverjar ættu í þessum efnum að fylgja stefnumörkun Evrópusambandsins, ekki viðhafa sjálfstæða stefnu. 

Blaðamaður spurði þá Merkel að bragði um hin fleygu ummæli er hún lét falla þegar landamæri Þýskalands voru opnuð upp á gátt fyrir flóttafólki: „Wir schaffen das,“ sem myndi útleggjast sem „við getum þetta“, eða „við reddum þessu“ eins og margir Íslendingar kynnu að orða það og blaðamaðurinn bætti við: „Litið til baka, teljið þér yður hafa verið slegna blindu? Um fjölda þeirra sem kynnu að koma? Um erfiðið og kostnaðinn sem fylgdi?“ Kanslarinn fyrrverandi svaraði því til að fjöldinn hefði reynst meiri en hana hefði órað fyrir og þess vegna hefði hún haft um það forgöngu að Evrópusambandið semdi við Tyrki um að koma böndum á straum flóttafólks til álfunnar en sagði svo: „Og að sjálfsögðu fylgdu vandkvæði innflytjendastraumnum, en við sýndum hvers land okkar er megnugt.“ 

Merkel ver því ákvörðunina og við blasir að kristilegu flokkarnir munu ekki sækja mikinn stuðning til síns gamla forystumanns í komandi kosningum en þeir virðast vera að ná vopnum sínum með skýrari stefnu sem stendur nær grunngildunum. Í könnun Forschungsgruppe Wahlen sem gerð var 3.–5. desember sl. mælast kristilegu flokkarnir með 33% atkvæða á landsvísu, næstur á eftir er þjóðernisflokkurinn AfD með 17%, þá koma Sósíaldemókratar með 15% og Græningjar með 14%. 

Valkyrjur og örlaganornir 

Viðtalið við Merkel í Spiegel er um margt fróðlegt en hún hefur látið lítið fyrir sér fara frá því hún lét af embætti 2021. Ég minnist þess þó að hafa hlýtt á viðtal við hana um jólin 2022 þar sem hún ræddi við spyrla þýska ríkisútvarpsins, ARD, um Niflungahring Richard Wagners sem hún er mjög fróð um. En eins og Íslendingar þekkja sótti Wagner sitthvað til íslenskra fornbókmennta. Síðasti hluti hringsins, Ragnarrök eða Götterdämmerung, hefst með spuna örlaganornanna Urðar, Verðandi og Skuldar. Í frásögn af Brjánsbardaga í Njáls sögu er skeytt inn hinum ævafornu Darraðarljóðum. Þar segir frá valkyrjum sem ríða yfir orrustuvöll og kjósa hverjir skulu falla. En þær eru líka örlaganornir og orrustan blóðugur vefur sem þær vefa úr spjótum og líkamsleifum. Nei, ég veit hreint ekki hversu vel á við að líkja konum við valkyrjur. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg