Í byrjun árs var umræðan um mögulegan eftirmann Guðna Th. Jóhannessonar í forsetaembætti í algleymingi eftir óvænta tilkynningu forsetans í nýársávarpi sínu um að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.
Strax 2. janúar var orðið á götunni að þrjú nöfn kæmu sterklega til greina. Þetta væru Dagur B. Eggertsson, þá fráfarandi borgarstjóri, Ólafur Jóhann Ólafsson, fyrrum forstjóri í alþjóðlegum fyrirtækjum og rithöfundur, og Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.
Því var spáð að frambjóðendur til forseta gætu orðið margir það þessu sinni. Rifjuð voru upp delluframboð fyrri ára og til sögunnar nefnd framboð Ástþórs Magnússonar, Elísabetar Jökulsdóttur, Davíðs Oddssonar, Guðmundar Franklín og Sturlu Jónssonar.
Í febrúar var orðrómur orðinn hávær um að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra íhugaði alvarlega framboð til forseta Íslands. Orðið á götunni var að formaður í flokki, sem væri við það að falla af þingi, ætti óhægt um að yfirgefa sökkvandi skip til að þjóna eigin metnaðargirnd. Við þetta bættist að vænlegasti arftaki Katrínar innan flokksins, Svandís Svavarsdóttir, glímdi við veikindi og myndi að óbreyttu ekki geta tekið við flokknum að svo stöddu.
Rifjað var upp að undir lok vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2013, þegar VG voru við það að þurrkast út af þingi, steig Steingrímur J. Sigfússon upp úr formannsstóli og vék fyrir varaformanninum, Katrínu Jakobsdóttur. Morgunblaðið var svo smekklegt að uppnefna breytinguna sem „gluggaskraut“ og þóttust margir kannast þar við hnignandi skopskyn Davíðs Oddssonar ritstjóra.
Orðið á götunni var að ólíklegt væri að breytingin frá 2013 gengi nú til baka þannig að Steingrímur J. stigi aftur inn sem formaður og tæki við forsætisráðuneytinu.
Síðar í febrúar var orðið á götunni að Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri, og Þórður Snær Júlíusson, þá á Heimildinni, væru farnir að gæla við framboð til Alþingis. Ekki var þó talið líklegt að þeim yrði að óskum sínum í þeim efnum. Nefnt var til sögunnar leynilegt samstarf Ríkisútvarpsins og Heimildarinnar sem tengdist m.a. aðför að Samherja.
Talið var að Þórður Snær, sem hafði verið harður sósíalisti, liti nú hýru auga til Samfylkingarinnar, sem var á miklu flugi í skoðanakönnunum. Stefán Eiríksson var sagður sjálfstæðismaður og hafði m.a. verið í forystusveit ungra hægri manna í Háskóla Íslands.
Mánudaginn 26. febrúar var orðið á götunni að brátt myndi stíga fram þungavigtarframbjóðandi til forseta Íslands. Þetta væri engin önnur en Halla Tómasdóttir, sem varð í öðru sæti á eftir Guðna Th. Jóhannessyni í forsetakosningunum 2016.
Einnig var nefnt að talið væri ólíklegt að Ólafur Jóhann Ólafsson myndi fást til að bjóða sig fram.
Forsetakosningarnar voru áfram á vörum fólks og 10. mars er orðið á götunni að nú styttist í yfirlýsingar um framboð fleiri en eins frambjóðanda. Baldur Þórhallsson er sagður liggja undir feldi og talið næsta víst að Halla Tómasdóttir tilkynni fljótlega um framboð.
Jón Gnarr var nefndur til sögunnar sem mögulegur frambjóðandi og greint frá því að Salvör Nordal væri að þreifa fyrir sér. Þá var vikið að því að Katrín Jakobsdóttir virtist vera að reima á sig hlaupaskóna fyrir framboð. Til marks um það mætti nefna að hún beitti sér mjög fyrir því bak við tjöldin að ríkið kæmi að kjarasamningum hinna vinnandi stétta og að kostnaðurinn af því fyrir skattgreiðendur stefndi í 80 milljarða, eða 20 milljörðum meira en kostaði að kaupa öll hús í Grindavík. Það stefndi því í dýrasta forsetaframboð sögunnar í Evrópu.
Áfram var orðið á götunni tvístígandi gagnvart mögulegu forsetaframboði Katrínar Jakobsdóttur. Hún yrði vissulega sigurstranglegur frambjóðandi að óbreyttu en það væri ábyrgðarhluti hjá henni að hlaupa frá ríkisstjórn og flokki, sem þá var farinn að mælast undir fimmprósentum og þar með út af þingi.
Orðið á götunni um miðjan mars var að færi Katrín fram ætti hún ekki afturkvæmt í stjórnmálin og tilrauninni um Vinstri græna myndi endanlega ljúka.
Um tíma virtist sem Baldur Þórhallsson myndi tryggja sér forsetaembættið. Alltaf var þó óvissan tengd mögulegu framboði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þann 1. apríl var orðið á götunni það að andstæðingar VG ýttu undir framboð Katrínar vegna þess að færi hún í framboð væru líkur á að VG liði undir lok. Sem og gerðist þegar upp var staðið.
Loks fór Katrín í forsetaframboð og framan af leit all mjög vel út fyrir hana. Vinstri stjórnin hélt áfram, en nú undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Orðið á götunni í byrjun apríl var að bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hefðu reynt allt til að henda VG út úr stjórninni og fá einhvern stjórnarandstöðuflokkanna inn í staðinn en enginn áhugi hefði verið á því að stíga inn í lifandi dauða ríkisstjórn. Því fór svo að óbreytt stjórnarmynstur var endurnýjað og mikið talað um heilindi og fulla samstöðu meðal ríkisstjórnarflokkanna.
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, mætti í Vikuna hjá Gísla Marteini í apríl, ásamt Jóni Gnarr. Jafnvel hafði verið búist við yfirlýsingu frá Jóni um forsetaframboð í þættinum en svo varð ekki. Halla Hrund sló hins vegar í gegn, spilað á nikkuna og heillaði þjóðina með mikilli og hlýrri útgeislun. Ekki leið á löngu þar til bæði hún og Jón Gnarr voru komin í framboð og fljótlega náði Halla Hrund afgerandi forystu á aðra frambjóðendur.
Valdaöflin í landinu brugðust þá harkalega við. Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins, með Stefán Einar Stefánsson í broddi fylkingar, tók h0öndum saman við Ríkisútvarpið um að koma höggi á Höllu Hrund til að tryggja fulltrúa valdsins, Katrínu Jakobsdóttur, forsetaembættið. Grímulaus misnotkun fjölmiðlavaldsins fór ekki fram hjá mörgum, en engu að síður tókst Morgunblaðinu og RÚV að bregða fæti fyrir Höllu Hrund. Það var þó ekki Katrín Jakobsdóttir sem naut góðs af því heldur var það Halla Tómasdóttir sem vann afgerandi sigur í kosningunum. Orðið á götunni er að hver sá frambjóðandi sem síðasta skoðanakönnun fyrir kosningar sýndi að ætti mesta möguleika á að leggja Katrínu að velli hefði orðið fyrir valinu. Enda er það þjóðin sem kýs forsetann en ekki valdastéttin í landinu. Halla Tómasdóttir varð forseti og valdastéttin er varla enn búin að ná sér eftir það áfall.
Í sumar var orðið á götunni það að vaxandi vandræði væru innan ríkisstjórnarflokkanna. Því var spáð að Framsókn yrði grimmilega refsað fyrir breytinguna á búvörulögum sem tóku kjötvinnslu undan samkeppnislögum og greiddu leiðina fyrir kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði norðlenska. Vandræðaástandið í Valhöll blasti við öllum og ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn stefndi markvisst niður á við. Ítrekað varaði orðið á götunni við því að VG væru í útrýmingarhættu. Allt gekk þetta eftir.
Orðið á götunni var að ríkisstjórnin væri liðið lík, eina spurningin væri hvenær dánarvottorð yrði gefið út. Þjóðin fylgdist með vandræðagangi ríkisstjórnarinnar, hvalveiðimál, hælisleitendamál og fleira, og þar kom að VG kusu sér nýjan formann á landsfundi í haust. Á sama landsfundi samþykkti flokkurinn að ríkisstjórnarsamstarfið væri búið og mynda þyrfti vinstri stjórn en rétt væri að það gerðist eftir kosningar sem fram færu hálfu ári síðar, vorið 2025. Svandís Svavarsdóttir tilkynnti landslýð og samstarfsflokkum í ríkisstjórn að flokkurinn ætlaði að sitja í ríkisstjórninni í hálft ár til viðbótar en myndi í engu virða samkomulag um framgang mála sem gert var þegar Bjarni Benediktsson tók við af Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra í apríl.
Orðið á götunni var að engum hefði þurft að koma á óvart þegar Bjarni Benediktsson ákvað að úr því að stjórnarsamstarfinu væri lokið væri rétt að slíta því strax en ekki bíða til vors. Einhverra hluta vegna kom þessi sjálfsagða ákvörðun formanns Sjálfstæðisflokksins formönnum VG og Framsóknar í opna skjöldu. Orðið á götunni var að glámskyggni þeirra væri eftirtektarverð.
Boðað var til vetrarkosninga 30. nóvember ogí fyrsta sinn í lýðveldissögunni neitaði ríkisstjórnarflokkur að sitja í starfsstjórn þegar forseti Íslands bað fráfarandi ríkisstjórn að sitja sem sem slík. VG fór í fýlu og rauk úr stjórninni. Orðið á götunni var að það hefi verið misráðið, enda kom það á daginn að Bjarni Benediktsson nýtti tækifærið og gaf út nánast ótímabundið hvalveiðileyfi til handa Hval hf. eftir að ríkisstjórnarflokkunum hafði verið hafnað með öllu í kosningunum. Þetta gat Bjarni gert vegna þess að með því að neita að sitja í starfsstjórn undir forsæti hans gáfu VG matvælaráðuneytið eftir til Sjálfstæðisflokksins.
Átök urðu innan Sjálfstæðisflokksins þegar varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, flúði úr sínu gamla kjördæmi og ruddi Jóni Gunnarssyni úr öðru sæti á lista flokksins í Kraganum. Jón féllst á að taka sæti neðar á listanum eftir að Bjarni Benediktsson gerði hann að sérstökum amtmanni sínum í matvælaráðuneytinu. Upp úr því varð nokkurt hneyksli eftir að sonur Jóns blaðraði því út úr sér við ímyndaða auðkýfinga að Jón væri besti vinur aðal, þ.e. ekki Bjarna Ben heldur Kristjáns Loftssonar í Hval hf., og gæti sem hægast gerst forstjóri fyrirtækisins þegar hann væri búinn að reka erindi þess í matvælaráðuneytinu.
Samfylkingin, sem verið hafði á miklu flugi, lenti í vandræðum vegna þess að rifjuð voru upp gömul og ítrekuð skrif frambjóðanda flokksins í þriðja sætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þórður Snær Júlíusson reyndist eiga sér mikla dólgsfortíð og hafa farið mikinn gegn konum í nafnlausum skrifum á opinberum vettvangi. Eftir að gamlar kempur í Samfylkingunni stigu fram og sögðu að slíkt gengi einfaldlega ekki neyddist Þórður Snær til að lýsa því yfir að hann tæki ekki sæti á þingi næði hann kjöri. Fyrir vikið verður fjórði maður á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður en ekki sá sem sat í þriðja sætinu.
Strax á kosninganótt varð ljóst að kjósendur kölluðu eftir hreinum og beinum ríkisstjórnarskiptum. Valkyrjurnar gripu boltann sem þjóðin sendi þeim og hlupu með hann vandræðalaust í mark og stýra nú ríkisstjórn hér á landi. Orðið á götunni er að þjóðinni sé mjög létt og horfi bjartsýn til nýs árs.