fbpx
Miðvikudagur 01.janúar 2025
Eyjan

Sr. Davíð Þór Jónsson: Myndi vilja heimsóknir skólabarna í kirkjur fyrir jól og í moskur á ramadan

Eyjan
Sunnudaginn 29. desember 2024 13:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í skólaheimsóknum í kirkjur var ekkert um trúboð. Rætt var um vináttu og kærleika og starf kirkjunnar kynnt en ekki minnst á guð og Jesú. Eina trúboðið sem átti sér stað í þessum heimsóknum var þegar börnin sungu jólasálma sem þau höfðu æft í skólanum. Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugardalsprestakalli, segir helstu breytinguna þau tíu ár sem hann hefur starfað sem prestur vera þá að skólaheimsóknirnar voru aflagðar. Hann segist sjá eftir þeim, hann líti á þær sem vettvangsferðir á samfélagsfræðslu og myndi vilja heimsóknir skólabarna í moskur á ramadan. Davíð Þór er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar á jólum.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify

„Það sem hefur breyst, sem mér finnst nokkur sjónarsviptir að, eru kirkjuheimsóknir skólabarna sem mér finnst fallegur siður og þótti alltaf svo vænt um og mjög mikilvægt að þessar heimsóknir eru á vegum skólans, á forsendum skólans, að frumkvæði skólans og eru ekki annað en vettvangsferðir í samfélagsfræðslu,“ segir Davíð Þór.

„Ég vil að svona heimsóknir séu farnar í mosku á ramadan til að krakkar upplifi að þau búi í fjöltrúarsamfélagi, að múslimar eru ekki menn með vefjarhetti í sjónvarpinu að veifa hríðskotabyssum og formæla Ísrael, heldur hann Hassan í gluggaröðinni er múslimi líka. Það er raunveruleikinn sem íslensk börn upplifa. Þetta er ekki raunveruleikinn sem við ólumst upp við þannig að við verðum að átta okkur á því að okkar viðmið eru orðin úrelt, okkar reynsla er úrelt.“

Hann segir hafa orðið vart við það að á hverju hausti hafi kviknað raddir í foreldrafélaginu sem voru á móti kirkjuheimsóknum skólabarna. Þetta hafi alltaf verið minnihluti og þetta hafi verið slagur sem hafi verið tekinn á hverju ári. „Svo fréttum við af því, enn eitt árið, að það voru í uppsiglingu einhver átök um þetta þannig að við sögðum bara: Ókei, hvað eigum við að halda þessu áfram lengi? Við getum alveg tekið þennan slag á hverju hausti, en á það að vera partur af starfi okkar að vera í slag við nærumhverfi okkar á hverju hausti? Viljum við ekki að um starf okkar ríki sátt og friður?

Þannig að ég tók þá umdeildu ákvörðun að afþakka skólaheimsóknir. Ég held að foreldrafélagið hafi annað við tíma sinn að gera en að rífast um það hvort börnin eigi að fara í kirkju eða ekki. Á móti kemur að kirkjan er opin fyrir börn, það vantar ekki, en við viljum að þau komi með foreldrum sínum, ekki með kennara. Þetta er það sem hefur breyst. Ég er óánægður með þessa breytingu og svona í og með sé eftir að hafa tekið þessa ákvörðun, en ég bar hana undir sóknarnefnd og þetta var sameiginleg niðurstaða okkar; bara ekki vera í brennidepli illinda. Við stigum til baka.“

Davíð Þór segist sakna skólaheimsóknanna. „Ég talaði við börnin. Þau komu og fluttu einhverja dagskrá. Það var ekkert kristilegt annað en bara um kærleikann og vináttuna, jú, jú, kristilegt en það var hvergi minnst á guð eða Jesú í þeirra dagskrá. Svo kom ég og sagði aðeins frá kirkjunni og starfi hennar, gætti þess vandlega að það væri ekkert trúboð og börnin ekki knúin til bæna eða neins. Svo enduðu heimsóknirnar á því að börnin sungu lög sem þau höfðu verið að æfa í skólanum. Og hvaða lög voru það? Bjart er yfir Betlehem, Nóttin var sú ágæt ein – þá byrjaði trúboðið, þegar börnin byrjuðu að syngja lögin sem þau voru að æfa í skólanum. Það var það eina sem gerðist í þessum skólaheimsóknum sem hægt hefði verið að flokka sem trúboð og það kom úr skólanum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jesús gerði engin kraftaverk

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jesús gerði engin kraftaverk
Eyjan
Fyrir 1 viku

Nýir ráðherrar hafa tekið við embættum – Myndir frá ríkisráðsfundi

Nýir ráðherrar hafa tekið við embættum – Myndir frá ríkisráðsfundi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir stjórnarsáttmálann rýran og Flokkur fólksins hafi gefið mikið eftir

Segir stjórnarsáttmálann rýran og Flokkur fólksins hafi gefið mikið eftir