Framsóknarþingmaðurinn Stefán Vagn Stefánsson skrifaði fyrir nokkru grein á Vísi. Þeir, sem kunna nokkur skil á EES-samningnum og ESB-aðildarmálum, geta ekki látið þessi skrif Framsóknarmannsins standa athugasemdalaus, og er brýnt, að dreifa þeim athugasemdum til að vinna gegn rangfærslum og ranghugmyndum þingmannsins:
Titillinn var „Fær ESB Ísland í jólagjöf?“
Skrif Stefáns Vagns eru full af yfirkeyrðri þjóðernishyggju og popúlisma og, það sem verra er, þá veit Stefán greinilega sáralítið um efnið, ESB, tengsl okkar nú við ríkjasambandið í gegnum EES-samninginn frá 1994 og hverju full ESB-aðild myndi breyta.
Menn verða að kynna sér mál vel og skilja þau nokkuð áður en þeir fara að skrifa fjálglegar og hástemmdar greinar um þau í víðlesna miðla. Ábyrgð þingmanna og formanna þingnefnda er þar mikil.
Fyrir hverju stendur Fjórfrelsið?
Fjórfrelsið er veigamikill þáttur í EES-samningnum sem við gerðum við ESB 1994.
Fjórfrelsið tryggir öllum þegnum 30 landa, nú 27-ESB-ríkja og svo Noregi, Liechtenstein og Íslandi, (1) frelsi til að ferðast, setjast að, stunda nám, stunda vinnu, setja upp fyrirtæki, taka sér búfestu, kaupa íbúð eða fasteign og athafna sig á nánast allan hátt eins og heimamenn í hverju þessara 30 landa.
Hinir þættirnir þrír eru viðskiptalegs eðlis: (2) Einstaklingar og fyrirtæki allra landanna 30 geta óhindrað og frjálst stundað viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki allra hinna ríkjanna, að mestu án nokkurra tolla eða skatta.
Þáttur (3) nær til frelsis með hvers konar þjónustu og þáttur (4) til bankaviðskipta. Þáttur 4 nýtist okkur ekki því það hefur enginn evrópskur banki áhuga á bankaviðskiptum hér meðan krónuhagkerfið er hér við líði.
Þegar menn rugla saman EES-samningnum og fullri ESB-aðild
Það virðist vera að Stefán Vagn hafi ekki hugmynd um að Fjórfrelsið, þættir nr. 1 og 2, og það viðskipta-, athafna- og fjárfestingarfrelsi, sem þeir tryggja, bæði íbúum 27 ESB-landa, auk Noregs og Lichtenstein, hér, og okkur Íslendingum í 29 öðrum löndum, hefur verið í gildi í 30 ár, frá því 1994.
Stefán Vagn virðist halda að þetta viðskipta- og fjárfestingarfrelsi útlendinga hér, og okkar sams konar frelsi erlendis, kæmi fyrst með fullri ESB-aðild. Það rétta er hins vegar að það er nú þegar til staðar, og hefur verið það í 30 ár!!
Stefáni Vagni verður tíðrætt um þann mikla fjársjóð, auðlindir, sem íslenzk orka á að vera. Hann skrifar:
„Við eigum miklu frekar að tryggja eign þjóðarinnar á auðlindum hafsins, orkunni í iðrum jarðar, vindorkunni, fjörðunum og heilnæmu vatni og nýta allt þetta til innlendrar verðmætasköpunar. Innganga í ESB gengur þvert gegn þessu markmiði. Við viljum hvorki selja Landsvirkjun eða selja raforku úr landi, getum við ekki öll verið sammála um það? Við viljum að vindmyllur framtíðar séu í eigu þjóðarinnar og nýtist til orkuskipta og verðmætasköpunar“.
Um þetta uppblásna snakk skal þetta sagt:
Ekkert af þessu þarf að sækja til Íslands. ESB/Evrópa/útlönd hafa enga þörf fyrir né þá áhuga á íslenzkri orku, enda vantar Íslendinga sjálfa nú orku.
Síðast, þegar ég skoðaði það, var raforkuframleiðsla Íslendinga 0,6% af raforkuframleiðslu ESB. Stærð, sem engu breytir og enginn eltist við.
Hvað vantar upp á fulla ESB-aðild?
Það, sem vantar upp á fulla ESB-aðild Íslands, sem ESB-umræðan ætti að snúast um, er aðallega tvennt:
Engin ný ESB-aðildarríki í 12 ár
Að lokum skal á það bent, að ESB hefur ekki tekið inn neitt nýtt aðildarríki frá því 2013, þá var Króatía tekin inn þrátt fyrir að 10 aðildarumsóknir liggi fyrir, sú elzta, umsókn Tyrklands frá 1987, þar sem ýmis aðildarríki vilja tryggja betri samstöðu og samvinnu þeirra ríkja sem fyrir eru um ýmis grundvallarmál, eins og flóttamannamálin, skiptingu flóttamanna og allt það flókna regluverk, svo og um fyrirkomulag varna ytri landamæra ESB, áður en lengra er haldið með stækkun ríkjasambandsins, upptöku nýrra aðildarríkja.
Þannig, að hugmyndir um að ESB hafi áhuga á Íslandi í jólagjöf, áhuga á aðild Íslands að bandalaginu yfir höfuð, er alls ekki sjálfgefin. Auk þess liggur ekkert fyrir um, að Ísland geti fullnægt inntökuskilyrðum ESB nú, eftir m.a. margra ára hallarekstur ríkisins og stórfellda nýja skuldasöfnun.