Ásælni tilvonandi Bandaríkjaforseta í Grænland var ein helsta frétt danskra miðla í aðdraganda jóla. Fyrri yfirlýsingar Donalds Trump í þessa veru fyrir fimm árum voru rifjaðar upp og þótti ýmsum sem orðin hefðu meiri þunga þá en nú — enda fyrri ummælin álitin lítið annað en frumhlaup.
Dönsk yfirráð á Grænlandi eiga sér ævafornar rætur en þegar Noregur rann Danakonungi úr greipum með Kílarsáttmálanum 1814 fékk hann þó haldið Norður-Atlantshafseyjunum, þar með talið Grænlandi, en líka Íslandi og Færeyjum sem skilgreindar voru sem hjálendur (þ.e. biland, ekki koloni). En Danir réðu á þeim tíma líka nýlendunum Trankebar á Indlandi, hluta Gíneu í Afríku og eyjunum Sankti Jan, Sankti Croix og Sankti Thomas í Vestur-Indíum, sem nefndar voru Dönsku Jómfrúareyjar eða Dönsku Vestur-Indíur. Bretar keyptu nýlendur Dana á Indlandi og í Afríku á árunum 1845–1850. Bandaríkjamenn keyptu aftur á móti Dönsku Vestur-Indíur árið 1917 þar sem Danir höfðu ráðið ríkjum frá árinu 1672. Frá Sankti Croix, einni Dönsku Jómfrúareyja, var Hans Jónatan sem settist að á Djúpavogi árið 1802 og mikið hefur verið fjallað um á seinustu árum.
Fyrir Vestur-Indíur fengu Danir greiddar sem samvaraði hálfum árstekjum ríkissjóðs þeirra, sem munaði um á erfiðleikaárum ófriðarins mikla. En þetta var á tímum þegar stærstur hluti vanþróaðra ríkja var undir yfirráðum evrópskra stórvelda og mér varð hugsað til alls þessa þegar ég las nú fyrir jólin nýútkomna bók James C. Hunter sem ber heitið Churchill — Stjórnvitringurinn framsýni. Hún fjallar um óvenjulega getu Winstons Churchill til að sjá langt fram en höfundurinn var ræðuskrifari fjögurra Bandaríkjaforseta. Bókina þýddi Magnús Þór Hafsteinsson sem verið hefur mikilvirkur við þýðingar síðustu árin og meðal annars íslenskað hinar miklu stríðssögubækur Max Hastings.
David Eisenhower, sonarsonur forsetans Dwight D. Eisenhower (og tengdasonur Richards Nixon forseta), ritar inngang bókarinnar og vitnar til afa síns sem orðaði það svo að Churchill hefði ekki sagt landsmönnum sínum hvað þeir vildu heyra — heldur það sem væri rétt að þeir heyrðu. Ítrekað hefði hann tjáð hug sinn þrátt fyrir að tefla þar með stjórnmálaferli sínum í tvísýnu. Churchill gat tekið áhættu því hann sá langt fram í krafti óvenju yfirgripsmikillar söguþekkingar.
Sem nýlendumálaráðherra hafði Churchill yfirumsjón með samningu sáttmálans um skiptingu Ottómanaveldisins sem undirritður var í Kaíró árið 1922. Hann gerði sér þá þegar glögga grein fyrir því að fátækt fólk í Arabalöndum yrði ginnkeypt fyrir harðstjórum sem kynnu að færa sér í nyt eitthvað af þessu þrennu: marxisma, arabískri þjóðernisstefnu og íslamska öfgahyggju. Þá myndu einræðisherrar þessa heimshluta í framtíðinni færa sér í nyt þörf Vesturlanda fyrir olíu. Illt væri að vera háður slíkum öflum. Allt átti þetta eftir að koma fram.
Snemma gerði Churchill sér grein fyrir hættunni sem stafaði af herskáum múhameðstrúarmönnum. Hann sá fyrir að íslömsk öfgahyggja kynni að breiðast út og verða að heilögu stríði, svokölluðu jihad, gegn hinu kristna vestri. Sjálfur hafði Churchill orðið vitni að þessu þegar hann barðist með herliði Breta gegn Dervisum við Omdúrman árið 1898. Framganga hinna íslömsku stríðsmanna bar þess augljós merki að þeir litu á dauða í orrustunni sem aðgöngumiða í himnaríki.
Churchill gekk raunar lengra í skrifum sínum og sagði múhameðstrú beinlínis leggja „bölvun“ á iðkendur sína. Sér í lagi ætti þetta við um konur sem yrðu samkvæmt íslömskum kennisetningum að vera eign karlmanna.
Og um leið og hann varaði við íslömskum ofstækisöflum líkti hann kommúnismanum við farsótt, sem brytist mjög hratt út, væri afar smitandi og dreifðist með ógnarhraða. En ólíkt öfgahreyfingum múhameðstrúarmanna sá Churchill fyrir endalok kommúnismans. Hann myndi að lokum bresta því hann stríddi gegn mannlegri náttúru.
Snemma gerði Churchill sér grein fyrir ógninni af nasismanum svo sem frægt er og lagði áherslu mikilvægi þess að Bretar og Frakkar viðhéldu hernaðarlegu forskoti sem gæti mætt rísandi einræðisríkjum. Hann sagði með hreinum ólíkindum hversu oft vestrænir leiðtogar litu fram hjá yfirlýstum markmiðum öfgamanna, hvort heldur um var að ræða nasista, kommúnista eða íslamista. Stefnumið Adolfs Hitlers hefði öll mátt lesa meira og minna í Mein Kampf sem fyrst var gefin út árið 1925.
Eftir að Churchill var orðinn forsætisráðherra öðru sinni lét hann eitt svo um mælt að kæmi til styrjaldar í Evrópu á nýjan leik yrði það vegna þess að Bandaríkin teldu sig ekki lengur fús til að standa undir kostnaði við efnahagslega uppbyggingu í Evrópu og halda þar úti herafla. Samstaða vestrænna ríkja væri lykillinn að friði og farsæld — og vitaskuld undir forystu Bandaríkjanna. Hann mælti eftir sem áður fyrir friðsamlegri sambúð við Sovétmenn en grundvöllur þess yrði að vera „góður skilningur á öllu því sem að Rússlandi lýtur“.
Churchill var ákafur stuðningsmaður Sameinuðu þjóðanna og þess að komið yrði á sameiginlegu herliði þeirra en benti snemma á hættuna sem því fylgdi að einræðisríki og aðrir andstæðingar vestræns lýðræðis næðu þar yfirhöndinni. Við sjáum óhugnanleg merki þessa á okkar dögum.
Churchill var ódeigur að minna á gildi söguþekkingar og komst svo að orði við bókarhöfund, James C. Hunter, að lykillinn að stjórnvisku væri að „læra sagnfræði, læra sögu“ því þeim „mun lengra aftur sem maður lítur, þeim mun lengra getur maður séð til framtíðar“. Söguþekking gerir mönnum nefnilega kleift að horfa fram á veginn þó svo að umhverfið breytist með örlagaþrungnum hætti.