fbpx
Laugardagur 28.desember 2024
Eyjan

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs

Eyjan
Föstudaginn 27. desember 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýjum Dagfarapistli á Hringbraut veltir Ólafur Arnarson því fyrir sér hvort stjórnarandstöðuflokkarnir þrír muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Nú blasi við Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Miðflokki að sitja næstu fjögur til átta ár í valdalausri stjórnarandstöðu. Miðflokkurinn hafi að sönnu unnið kosningasigur, ólíkt flokkunum tveimur sem sátu í síðustu ríkisstjórn, en afgerandi afstaða flokksins gegn því að þjóðin fái að ráða því hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið hafi tryggt að flokkurinn komst ekki í ríkisstjórn.

Ólafur bendir á að niðurstaða kosninganna varð afhroð fyrir stjórnarflokka fráfarandi vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur og síðar Bjarna Benediktssonar. Vinstri græn fengu einungis 2,3 prósent greiddra atkvæða í kosningunum og engan þingmann kjörinn. Framsókn tapaði miklu fylgi, fór úr 17,1 prósenti í 7,8 prósent og missti átta þingmenn. Flokkurinn endaði einungis með fimm þingmenn. Þá hafi þrír af fjórum ráðherrum flokksins fallið af þingi, einmitt helsta framtíðarfólk flokksins. „Eftir það er vandséð hver getur tekið við formennsku af Sigurði Inga velji hann að axla ábyrgð á verstu kosningu flokksins í meira en hundrað ára sögu hans. Sigurður Ingi hlýtur að íhuga alvarlega afsögn sína en hver ætti þá að taka við formennsku í Framsókn? Við höfum engar góðar tillögur um það fram að færa. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins minnkar úr 17 þingmönnum í 14 þingmenn. Samtals hafa gömlu stjórnarþingflokkarnir nú einungis 19 fulltrúa á Alþingi Íslendinga en voru með 38 þingmenn á bak við sig í upphafi síðasta kjörtímabils.“

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut í kosningunum minnsta fylgi sitt frá því hann var stofnaður, einungis 19,4 prósent. „Bjarni Benediktsson hefur nú leitt flokkinn sex sinnum í kosningum. Í fimm af þeim kosningum hefur fylgi hans verið í neðstu röð frá upphafi. Frá því að Bjarni tók við formennsku árið 2009 hefur fylgið lækkað úr 36,6 prósent eða um nær helming. Ekki er lengra síðan en í kosningunum 1999 að Sjálfstæðisflokkurinn fékk yfir 40 prósent greiddra atkvæða. Því er ekki ofsögum sagt að fullyrða að flokkurinn hafi gengið í gegnum fylgishrun í formannstíð Bjarna.“

Ólafur segir það því skiljanlegt að mikil óánægja kraumi í flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn kunni ekki að vera í stjórnarandstöðu svo sem sjá megi í borgarstjórn Reykjavíkur. Flokkurinn hafi verið samfellt í ríkisstjórn frá vorinu 1991, að undanskildum árunum 2009 til 2013 en þá hafi flokksmenn tekið út miklar þjáningar.

Ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur boðar að sögn Ólafs verulegar stefnubreytingar í mikilvægum málum sem fyrrum stjórnarflokkar muni leggjast gegn. Það eigi ekki hvað síst við breytta stefnu varðandi greiðslu leigugjalda fyrir afnot af eignum ríkisins eins og fiskimiðunum. „Flokkarnir hafa gætt sérhagsmuna sægreifanna í þessum efnum en nú verður hugað að almannahagsmunum. Þá má ætla að allir þrír stjórnarandstöðuflokkarnir verði mótfallnir því að þjóðin fái að greiða atkvæði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið eins og boðað er. Margt fleira mætti nefna sem mun ekki gleðja stjórnarandstöðuna.“

Hann segir það svo bæta gráu ofan á svart að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn verði nú af miklum tekjum frá ríkinu vegna stórminnkaðs fylgis. Komi þetta einkar illa við Framsóknarflokkinn sem hefur haft ríkisstyrk að fjárhæð 115 milljónir króna á ári er fer nú niður í 50 milljónir á ári vegna fylgishrunsins. Sjálfstæðisflokkurinn standi betur, sé eignarlega sterkur, ekki síst eftir að meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur leyfði flokknum að þétta byggð á lóð flokksins við Valhöll sem væntanlega bæti eignastöðuna um heilan milljarð króna. Peningar breyti Samt ekki öllu eins og útkoma Katrínar Jakobsdóttur í forsetakosningunum í sumar hafi sýnt. Hún hafi rekið langíburðarmestu kosningabaráttuna, studd af Sjálfstæðisflokki, Framsókn og sægreifum en það hafi ekki dugað til.

„Hvað er til ráða fyrir laskaða og tætta stjórnarandstöðu? Fyrir liggur að margir flokksmenn bæði í Sjálfstæðisflokki og Framsókn vilja að formenn þeirra axli ábyrgð á fylgishruni og víki. Hjá hvorugum flokknum er þó sýnilegur sjálfsagður arftaki. Bent er á að stefna flokkanna þriggja er býsna lík. Þeir aðhyllast allir einangrunarhyggju og vilja ekki ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þeir hafa ofurtrú á íslensku örkrónunni sem blaktir eins og strá í vindi, minnsta myntkerfi í heimi. Þeir vilja leyfa sægreifum að nýta fiskimiðin án þess að greiða ríkinu eðlilegt afgjald fyrir afnot af þessari dýrmætu eign þjóðarinnar. Þeir eru allir hlynntir ofurstyrkjum til landbúnaðar og enginn þeirra hefur miklar áhyggjur af misvægi atkvæða milli þéttbýlis og dreifbýlis. Hvers vegna sameinast þessir flokkar ekki? Fylgi þeirra í síðustu kosningum nam samtals 39,3 prósentum og þeir hlytu að halda alla vega 30 prósenta fylgi í kosningum, ef vel tekst til um sameiningu. Þingmannafjöldi stjórnarandstöðuflokkanna er nú 27 sem yrði langstærsti þingflokkurinn og fengi aukinn slagkraft þannig.“

Ólafur segir stefnu flokkanna þriggja mjög áþekka og varpar fram þeirri spurningu hvort sameining DBM – MIÐSJÁLFSTÆÐISFRAMSÓKN – verði ein af bombum næsta árs og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði formaður hins sameinaða íhaldsmannaflokks?

Dagfara í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Erfitt fyrir innlenda verslun að keppa við erlenda aðila sem lúta ekki sömu reglum og kröfum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Erfitt fyrir innlenda verslun að keppa við erlenda aðila sem lúta ekki sömu reglum og kröfum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK