fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Kosning um framhaldviðræður við ESB verði vorið 2025!

Eyjan
Sunnudaginn 22. desember 2024 18:30

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ný ríkisstjórn er mikið gleðiefni. Heilsteyptar konur, frjálsar og með góðar hugmyndir og vilja til framfara og breytinga, taka við. Gömlu íhaldsflokkarnir sem hafa drottnað í 100 ár með þeim klíkuskap og þeirri spillingu, sem þar hefur myndast, kvaddir.

Grunnmál að „sanera“, sem er langtímaverkefni

Þar þarf fyrst að leggja áherzlu á að „sanera“ íslenzka ríkið. Það er grunnmál.

Líta má á íslenzka ríkið sem stærsta fyrirtæki landsins. Vaxandi tölvuvæðing, hin stafræna umbreyting, gervigreind og margvíslegar aðrar framfarir síðustu ára og áratuga, hafa gjörbreytt þörf á starfsmannahaldi, húsnæði og annarri rekstursaðstöðu og kostnaði.

Öll helztu fyrirtæki heims, bílaiðnaðurinn, bankarnir og öll önnur stærri fyrirtæki staldra reglulega við, gera úttekt á sínum rekstri og sanera svo. Líka stærri íslenzk fyrirtæki og bankar. Þannig sparast mikil útgjöld, yfirleitt án þess að framleiðni, afkastageta eða þjónusta minnki.

Í þetta sérstaka verkefni hefði mátt endurreisa 12. ráðuneytið, gera það að virkri og framsækinni miðstöð saneringar, uppstokkunar og tiltektar, hjá íslenzka ríkinu. Auðvitað má þetta líka vera deild í forsætisráðuneyti, verkefni forsætisráðherra sjálfs. Vel færi á því.

Þetta verður viðvarandi langtímaverkefni.

Kosning um ESB framhaldsviðræður brýn skylda

Það sem hins vegar má alls ekki verða langtímaverkefni er kosning um framhaldsviðræður við ESB. Fara verður í það strax næsta vor.

Hér er um einfalt viðfangsefni, einfalda spurningu, að ræða. Vilja menn að samningaumleitunum við ESB sé framhaldið þannig að í ljós komi hverjir kostir Íslands væru ef til fullrar aðildar kæmi.

Flestir vilja væntanlega láta á þetta reyna. Í því felst engin áhætta og engin skuldbinding. Í öllu falli er þessi spurning einföld og engin þörf á „þróaðri umræðu“ – full háfleygt orðalag hjá forsætisráðherra – hér.

Tafarlaus handhöfn brýn og boðin

Punkturinn er þessi: Þá aðeins ef kosið er um framhald viðræðna vorið 2025 og ef „já“ fæst, framhald viðræðna hefst haustið 2025, fæst niðurstaða 2027 um það hverjir beztu aðildarkostir Íslands gæru verið. Með þeim hætti mætti svo kjósa um það vorið 2028, hvort þjóðin vildi fulla ESB-aðild eða ekki. Þannig væri hægt að afgreiða þetta mál frá, með aðild eða án, á valdatímabili þessarar ríkisstjórnar.

Mitt mat er, að hún hafi einmitt verið til þess kosin. Mikið fylgi C og S í síðustu kosningum þar sem þyngdin var vaxandi á C, sem helzt hélt uppi fána ESB og evru, var fyrir mér merki þess að verulegur hluti þjóðarinnar vilji nú láta reyna á það hvort ekki væri kominn tími á alvarlega skoðun ESB og evru, en evra fæst ekki án fullrar ESB-aðildar, fremur en að púkkað sé upp á krónuhagkerfið með þeim okurvöxtum, sem því fylgja og brunnið hafa á mörgum fjölskyldum hér, áfram.

Ég tel að minnst helmingur fylgis C, kannske meira, sé ESB/evru fylgi. Þess vegna er það bæði brýnt og boðið að á þessu máli sé tekið án tafar.

2027 kosning tilgangslaust ábyrgðarleysi

Ef C og ríkisstjórnin skyldi haga þessum málum, eins og nú hefur verið gefið til kynna, að ekki verði kosið um framhaldsviðræður fyrr en 2027, þá er hún búin að spila þessu máli og þeirri ábyrgð á því sem hún var kosin til að hafa algjörlega út úr höndunum á sér.

Hugsanlegar framhaldsviðræður haust 2027 þýða bókstaflega ekki neitt fyrir þessa ríkisstjórn eða þá sem kusu hana. Þeim yrði engan veginn lokið 2028, í væntanlegri valdatíð þessarar ríkisstjórnar, og enginn veit nú, hvað tekur þá við eða hver ríkisstjórn landsins verður eftir 2028.

Þetta ESB plan ríkisstjórnarinnar er eins og að ætla að bera vatn í botnlausri fötu.

Gjaldmiðlaúttekt hlutlausra erlendra sérfræðinga góð hugmynd – skýr mynd í lok kjörtímabils

Hugmyndin um úttekt hlutlausra erlendra aðila á gjaldmiðlamöguleikum landsmanna er góð. Til hennar ætti að stofna strax. Jafnhliða ætti að framhalda samningaumleitunum um ESB-aðild, sé það vilji landsmanna, sem ég er sannfærður um – því þar er engu að tapa, allt að vinna – og þegar á liði kjörtímabilið og til kosningar um aðild kæmi lægi hvort tveggja fyrir: Mat sérfræðinga á bezta gjaldmiðlinum og þau ESB aðildarkjör sem byðust.

Með þessum hætti gengi ríkisstjórnin í verkið af þeirri ábyrgð og með þeim afgerandi hætti, sem hún var kjörin til. 2027 væri fúsk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra