Ágætur vinur minn er sjómaður á fengsælu aflaskipi. Áhöfnin er vel skipuð, valinn maður í hverju rúmi, margreyndir togarajaxlar. Allur starfsandi um borð er einstakur, líkt og vinur minn hefur oft sagt mér sögur af. Fyrir nokkrum árum kom maður nokkur á fund útgerðarmanns togarans og óskaði eftir skipsrúmi. Viðkomandi hafði glímt við mikið mótlæti í lífinu og vantaði vel launaða vinnu til að ná endum saman og greiða niður miklar uppsafnaðar skuldir. Hann kveinkaði sér svo mjög að útgerðarmaðurinn aumkaði sig yfir hann og réð hann á umræddan togara. Hinn nýráðni tók þó fram að áhöfnin yrði að sýna sér sérlega nærgætni, enda væri hann alvarlega þjakaður af langvinnum þrautum. Áður en nýi hásetinn kom til starfa settist því útgerðarmaðurinn niður með skipstjóranum og öðrum í áhöfn og brýndi fyrir mönnum að fara sérlega gætilega að hinum nýráðna, hann þyldi lítið áreiti í ljósi þeirra erfiðleika sem hann hefði glímt við, þeir yrðu að sýna honum fyllstu tillitssemi.
Hinir þrautreyndu togarajaxlar fylgdu þessu allir sem einn og tipluðu á tánum í kringum hásetann nýja, enda einstök ljúfmenni í umræddri áhöfn sem ekki vildu fyrir nokkurn mun auka á vandræði þess nýráðna, nóg hefði hann þurft að þola.
Þetta var nokkuð langur túr en eftir því sem dagarnar liðu breyttist hegðun hásetans nýja, hann fór að gerast æði afskiptasamur um hagi annarra um borð, sýndi ítrekað af sér ruddaskap, var í meira lagi sérhlífinn og reyndist í ofanálag húðlatur og hyskinn til vinnu. Hann var einfaldlega öllum til ama og leiðinda. Brátt var horfinn hinn góði andi sem alltaf hafði ríkt um borð. Samt kom engum til hugar að veita hásetanum nýja tiltal, enda átti hann svo ósköp bágt eins og áður sagði.
Eftir því sem leið á túrinn var ástandið um borð orðið óbærilegt enda fór það svo að þetta varð hinn fyrsti og um leið seinasti túr hásetans nýja. Vitaskuld kom ekki til álita að þessi ónytjungur og oflátungur héldi áfram degi lengur.
Sagan af hásetanum hér að ofan er ekki tilbúningur minn, þetta gerðist í raun og veru en sagan hefur orðið mér hugstæð seinustu misseri og þá sem táknmynd fyrir þjóðfélagsástand. Ástand þar sem lítill minnihluti heldur því fram að hann sé undirokaður eða kúgaður en þegar hann loks fær áheyrn gengur hann á lagið og tekur sjálfur til við að kúga fólk, þröngva upp á það öfgafullum viðhorfum sínum og telur sig um leið njóta slíkra siðferðilegra yfirburða að hann sé hafinn yfir gagnrýni.
Þegar ég las í gær fremur hófstilltan stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar varð mér enn og aftur hugsað til þessa: á hvaða vegferð höfum við eiginlega verið allt þar til nú í haust þar sem tveir hófsamir höfuðflokkar þjóðarinnar létu róttækan öfgaflokk teyma sig í fullkomna erindisleysu í heil sjö ár? Tipluðu á tánum kringum fólk sem var beinlínis andsnúið helstu framfaramálum þjóðarinnar, þar með talið aukinni lífskjarasókn sem að stórum hluta hvílir á framleiðslu hreinnar raforku, fólki sem taldi almenningi trú um að hann þyrfti að taka á sig stórauknar skuldbindingar í loftslagsmálum þegar við blasir að orkuskiptin á Íslandi voru að miklu leyti um garð gengin fyrir hálfri öld. Eða flokkur sem skeytti engu um það hverjir kæmust inn í landið sem haft hefur í för með sér stórkostleg félagsleg undirboð og um leið orðið vatn á myllu alþjóðlegra glæpagengja. Sama fólk og hér um ræðir lagðist svo gegn því að hægt yrði að vísa erlendum misindismönnum úr landi.
Syndaregistur hinnar sálugu Vinstrihreyfingar græns framboðs er miklu lengra en einhverjar slitrur þess voru gerðar að umtalsefni hér á þessum vettvangi fyrir viku síðan. Í kjölfarið hringdi til mín gamalreyndur stjórnmálamaður af hægri vængnum sem velti upp þeirri spurningu hvort Vinstri grænir hefðu nokkurn tímann verið stjórntækir. Við ræddum þetta dágóða stund og vorum sammála um að svarið væri neitandi enda flokkum af þessu tagi jafnan haldið kyrfilega utan stjórna á Vesturlöndum og íslenskir kjósendur sýndu vilja sinn í verki með því að hafna öllum jaðarflokkum yst á vinstrivængnum. Það eru skýrustu skilaboð nýliðinna alþingiskosninga.
En mikil er ábyrgð þeirra sem ekki einasta munstruðu Vinstri græna um borð heldur fólu þeim beinlínis að stýra skútunni.