Efni sem útrýmt var í Evrópu fyrir meira en 30 árum eru aftur farin að birtast í álfunni sem innihaldsefni í vörum frá asískum netverslunum. Erfitt er fyrir verslunina hér á landi og annars staðar innan EES að keppa við netverslanir utan EES sem ekki þurfa að lúta sömu neytendareglum og stjórnsýslukvöðum og fyrirtæki á svæðinu þurfa að gera. Á ýmsum sviðum stendur íslensk verslun höllum fæti gagnvart erlendri samkeppni. Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
„Það má segja bara af því hvernig markaðurinn er hér og í hvaða ástandi við erum hér þá má í ýmsu tilliti halda því fram að íslensk verslun standi höllum fæti í samkeppni við erlenda. Það er náttúrlega ekki öll íslensk verslun sem stendur frammi fyrir virkri samkeppni við erlenda verslun, eða ekki í eins ríkum mæli. Dagvaran, sérstaklega ferskvöruhlutinn, það gilda önnur lögmál um hann,“ segir Benedikt.
Hann segir annað gilda um vörur á borð við skó og fatnað, verkfæri, ýmsar föndurvörur og vörur sem nýttar eru til tómstundaiðkunar. Þar sé samkeppnin mjög opin. „ Það má eiginlega skipta þessu í tvennt. Það er samkeppnin við önnur fyrirtæki á innri markaði EES-svæðisins þar sem má segja að prinsippið æti að vera það að menn búi við sömu stöðu þegar kemur að regluumhverfinu og stjórnsýslukvöðum. Staðan ætti að vera nokkuð jöfn þó að t.d. virðisaukaskattur geti verið mismunandi milli landa og eitthvað þess háttar.“
Hann bendir á að lífskjör þjóða ráði oft og tíðum verðlagningu sem helgist þá væntanlega af því að rekstrar- og sölukostnaður fyrirtækja geti verið minni sunnar í Evrópu en í Norður-Evrópu. Það geti skapað stöðu sem erfitt sé að eiga við en í stórum dráttum eigi regluverk ESB að gera það að verkum að menn séu í svipaðri stöðu alls staðar í álfunni.
„Við komumst samt ekki fram hjá því að við erum fámennt land, það þarf að flytja allt hingað um langan veg, laun eru há hérna og það eru ýmsir þættir sem valda því að það er bæði dýrara að ná vörum hingað, þú borgar jafnvel hærra verð fyrir vöru en samkeppnisaðili sem er á stórum markaði í Evrópu og svo þegar kemur að rekstrinum sem slíkum er launakostnaður hár og þess háttar, sem leiðir til hærri verðlagningar. Í því tilliti má segja að það halli á íslenska verslun í samkeppninni.“
Benedikt segir þá breytingu sem orðið hefur vart í netverslun á undanförnum árum með innkomu þess sem kalla mætti kínverskar netverslanir hafa valdið mikilli óánægju meðal verslunarinnar, ekki bara hér á landi heldur um alla Evrópu. Samkeppnisgrundvöllurinn gagnvart þessum verslunum sé alls ekki sá sami og innan EES-svæðisins.
„Innan EES eru neytendareglur t.d. að mestu samræmdar en þær reglur ná ekki til þessara viðskipta. Það er erfitt að sjá inn í hvaða kröfur eru gerðar til framleiðenda og söluaðila og þess háttar í Asíu. Þær stúdíur sem hafa verið unnar að þessu leyti gefa til kynna að grunnurinn er afar ólíkur,“ segir Benedikt.
Hann segir systursamtök SVÞ og neytendasamtök í örðum löndum hafi látið gera úttekt á vörum frá þessum asísku netverslunum og í ljós hafi komið að víða sé pottur brotinn m.a. þegar kemur að gæðum og innihaldsefnum. Þannig hafi fundist efni sem útrýmt var frá Evrópu 1991 en nú séu þau aftur að birtast hér í vörum frá asískum netverslunum.