Íslenska fyrirtækið International Carbon Registry (ICR) skrifaði á dögunum undir samkomulag við Landgræðslustofnun Sádí-Arabíu (e. National Center for Vegetation Cover Development and Combating Desertification, NCVC) um þróun og innleiðingu vottunarkerfis þar í landi. Skrifað var undir samkomulagið á á COP16-ráðstefnunni í Riyadh. Samkvæmt samkomulaginu mun ICR aðstoða landgræðslustofnunina við þróun vottunarkerfis og kolefniskráskráningagrunn fyrir náttúrutengd verkefni.
Meðal helstu verkefna sem falla undir samkomulagið eru skógrækt, endurheimt og verndun mangrófsskóga, landbætur, lífkolagerð og endurheimt vistkerfa eins og votlendis. Vottunarkerfið mun aðstoða landgræðslustofnunina við að halda utan um slík verkefni sem og gera betur grein fyrir þeim ávinningi sem af þeim verða, ýmist í formi bindingar kolefnis í lífmassa eða í samdrætti í losunar gróðusaloftegunda út í andrúmsloftið.
Samkomulagið hefur átt sér nokkurn aðdraganda, þar sem en ICR hefur þegar unnið að verkefnum í Sádí-Arabíu sem skráð hafa verið í kerfi International Carbon Registry, þar í landi, meðal annars með Saudi Aramco. Í maí síðastliðnum bauð NCVC Guðmundi Sigbergssyni, stofnanda og framkvæmdastjóra ICR, og Dr. Rannveigu Önnu Guicharnaud að halda erindi á ráðstefnu á vegum stofnunarinnar í borginni Dammam, sem fjallaði um kolefnisbindingu og geymslu og hvaða náttúrutengdu lausnir gætu staðið til boða fyrir Sádi-Arabíu.
„Þetta eru ákveðin tímamót fyrir loftslagsmál og alþjóðvæðingu kolefnismarkaða. Á COP16 urðum við vitni að gríðarlega jákvæðum skrefum sem nú þegar hafa verið stigin og við finnum mikinn áhuga á því sem við hjá ICR höfum verið að vinna að í Sádi. Loftslagsbreytingar hafa haft mikil áhrif í Sádi-Arabíu. Ungu kynslóðinni er verulega umhugað um að láta til sín taka og sú eldri vill skilja við sjálfbært konungsríki. Við njótum góðs af öflugu samstarfi við skógræktina og landgræðsluna hérlendis í gegnum Land og skóg-verkefni. Þá þekkingu getum við nýtt í Sádi-Arabíu og með samstarfinu mun ný þekking og tengsl verða til sem munu nýtast okkur enn frekar í alþjóðasamstarfi,” segir Guðmundur.
„Þetta er umfangsmikið og mikilvægt verkefni, og við erum spennt að takast á við það í samstarfi landgræðslustofnunina enda hefur Saudi Arabía metnaðarfull markmið undir Parísarsamningnum. Loftslagsmál eru áskorun sem krefst samstöðu allra þjóða, og við lítum á þetta sem mikilvægan þátt í þeirri vegferð og fögnum samstarfinu” segir Dr. Rannveig Anna Guicharnaud, framkvæmdastjóri vísinda hjá ICR. „Verkefnið er víðfemt og verðugt, og við hlökkum til á að takast á við það með þeim. Loftlagsmálin er verkefni sem allar þjóðir þurfa að sameinast um, og við sjáum þetta sem lið í því og fögnum samvinnunni.”
International Carbon Registry (ICR) er íslenskt fyrirtæki, stofnað árið 2020, sem rekur alþjóðlegt vottunarkerfi og kolefnisskrá. Kerfið miðar að því að styðja við þróun kolefnismarkaða með því að tryggja gagnsæi, áreiðanleika og gæði í skráningu og viðskiptum með kolefniseiningar. Kerfið gegnir lykilhlutverki við að styðja við verkefni sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvort sem það er í gegnum skógrækt, endurnýjanlega raforkuframleiðslu eða aðrar lausnir. ICR fylgir alþjóðlegum stöðlum og regluverki, eins og ISO og Parísarsamningnum sem tryggir að skráðar kolefniseiningar eru raunverulegar, varanlegar og til viðbótar.
Hjá ICR eru á annað hundrað loftslagsverkefni í skráningu í yfir 30 löndum og hefur komist á samstarf með yfir 20 alþjóðlegum vottunarstofum.
ICR styðst við stafræna þróun, og nýtir meðal annars bálkakeðjutækni, til að tryggja rekjanleika og öryggi allra skráðra eininga. Hver kolefniseining fær einkvæmt auðkenni, sem gerir auðvelt að rekja feril hennar frá útgáfu til endaloka.
Skráningarkerfið þjónar fjölbreyttum hópi notenda, þar á meðal fyrirtækjum sem leitast við að ná kolefnislosunarmarkmiðum sínum, ríkisstjórnum sem vilja styðja við kolefnisstjórnun innan eigin landamæra, og einstaklingum eða samtökum sem fjárfesta í kolefniseiningum til að draga úr eigin kolefnisfótspori. Með því að starfa í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins styður ICR við alþjóðlegar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hvetur til ábyrgra og sjálfbærra lausna.
ICR veitir aðilum á alþjóðlegum kolefnismarkaði öflugan vettvang til að skrá, stjórna og stunda viðskipti með kolefniseiningar á einfaldan og öruggan hátt. Það styður við markmið um kolefnishlutleysi og opnar ný tækifæri fyrir þá sem vilja fjárfesta í grænni framtíð.