Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, telur að endurskoða þurfi launahækkanir borgarfulltrúa – sérstaklega í ljósi þess að grunnlaun eru vel yfir einni milljón.
Borgarfulltrúinn vekur athygli á stöðunni á Facebook-síðu Sósíalistaflokks Íslands .
„Laun borgarfulltrúa hækka tvisvar sinnum á ári. Á næsta ári er áætlað að það kosti um 35,5 milljónir. Á þessu ári er gert ráð fyrir því að það kosti 58,2 milljónir. Launin eru tengd við þróun launavísitölu. Sósíalistar telja að það þurfi að endurskoða þessa launaþróun, sérstaklega þar sem grunnlaun borgarfulltrúa eru vel yfir einni milljón.“
Með færslu sinni birtir Sanna skjáskot af tillögu til hækkaðra fjárheimilda til skrifstofu borgarstjórnar þar sem sést að kjarabreytingar kostuðu rúmlega 58 milljónir á árinu en laun borgarfulltrúa hækkuðu bæði í janúar og í júní. Hækkanir miðast við þróun launavísitölu frá marsmánuði 2013 og uppfærast tvisvar á ári.
Trausti Breiðfjörð Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi sósíalista, veltir því fyrir sér í athugasemd hvers vegna laun kjörinna fulltrúa séu einu launin sem tengja megi við launavísitöluna.
„Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur, eftirlaun, fjárhagsaðstoð, húsnæðisbætur o.s.frv? Grunar að ein ástæða þess sé að kjörnir fulltrúar gætu þannig ekki lengur verið í ölmusu hlutverkinu. Fengju ekki lengur lotningu og auðmýkt frá almúganum þegar kjör þessara hópa yrðu hækkuð eilítið milli ára. Þetta fyrirkomulag lýsir andúð stjórnmálastéttarinnar á öðrum hópum samfélagsins og þeim sem hún á að vera að þjóna.“
Eyjan rak í september hvað það geti borgað sig að sitja í borgarstjórn. Allir borgarfulltrúar fá grunnlaun upp á 1.053.896 kr og svo starfskostnað sem nemur 76.11 kr. En þetta segir ekki alla söguna. Eins fá formenn stjórnmálahreyfinga aukagreiðslu upp á 263.474 kr á mánuði og svo er borgað fyrir setu í ráðum og nefndum.
Varaborgarfulltrúar fá svo alveg 737.727 krónur í mánaðarlaun, sama hvort þeir séu kallaðir inn eða ekki. Varaborgarfulltrúar fá líka greiddan starfskostnað upp á 76.112 kr. á mánuði.
Loks má nefna stjórnarmennsku í fyrirtækjum, en borgarfulltrúar fá fasta mánaðarlega þóknun fyrir stjórnarmennsku í Félagsbústöðum hf., Strætó bs., Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs., Faxaflóahöfnum sf., Malbikunarstöðinni Höfða hf., SORPU bs., Orkuveitu Reykjavíkur, Brú lífeyrissjóði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Varamenn í umræddum stjórnum fá greitt fyrir hvern setinn fund.
Sjá nánar:Borgar sig að vinna í þágu borgarbúa: