fbpx
Laugardagur 22.febrúar 2025
Eyjan

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 17. desember 2024 13:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Efling hefur sent frá sér yfir vegna fréttaflutning og yfirlýsingar sem Samtök fyrirtækja í veitingarekstri (SVEIT) sendu frá sér í morgun. Þar kvartar SVEIT undan því að kjarasamningur þeirra við Virðingu hafi verið gerður tortryggilegur.

„SVEIT geta þar sjálfum sér um kennt,“ segir í yfirlýsingu Eflingar og bent er á að í umræddum samningi sé að finna fjölmörg alvarleg brot gegn ákvæðum íslenskra laga um lágmarksréttindi fólks á vinnumarkaði. 

„Þess ber að geta að SVEIT hafa sjálf viðurkennt alvarlega ágalla svokallaðs kjarasamnings síns, með yfirlýsingu sinni frá því 11. desember. Þar kom fram að SVEIT teldu sig nauðbeygð að endurskoða samninginn.“

Tengsl SVEIT og Virðingar 

Efling segir að SVEIT segist í yfirlýsingu sinni ekki hafa komið að neinu leyti að stofnun Virðingar. Efling rekur því hvernig skipa stjórnina:

„Í stjórn Virðingar situr Jóhann Stefánsson, þekktur veitingahúsarekandi sem á liðnum árum hefur átt og rekið veitingastaði á Akureyri, svo sem Hamborgarafabrikkuna, Lemon og nú síðast Litlu mathöllina. Að minnsta kosti tvö af fyrirtækjum Jóhanns eru á félagatali SVEIT sem lagt var fram í Félagsdómi þann 11.9.2023. 

Einnig situr í stjórn Virðingar Jóhanna Sigurbjörg Húnfjörð, en hún er maki Styrmis Bjarka Smárasonar sem er rekstrarstjóri Fiskmarkaðarins. Fiskmarkaðurinn er í hópi aðildarfyrirtækja SVEIT og er í eigu Hrefnu Rósu Sætran. Jóhanna situr í stjórnum fleiri veitingafyrirtækja ásamt Styrmi og Hrefnu Rósu. Maki Hrefnu Rósu er Björn Árnason sem er eigandi Skúla Craft Bar, enn annars aðildarfyrirtækis SVEIT. Björn er formaður stjórnar SVEIT. 

Þá situr í varastjórn Virðingar Ronja Björk Bjarnadóttir, 18 ára gömul dóttir Hrefnu Bjarkar Sverrisdóttur sem er eigandi ROK. Hrefna Björk er fyrrverandi formaður, og þar til fyrir skemmstu stjórnarmaður í SVEIT. Í varastjórn Virðingar situr einnig Herborg Sveinbjörnsdóttir, rekstrarstjóri Mathúss Garðabæjar. Mathús Garðabæjar er aðildarfyrirtæki að SVEIT.“

Efling segir að „svokallaður „kjarasamningur“ milli Virðingar og SVEIT á því ekkert skylt við réttnefnda kjarasamninga, þar sem fulltrúar verkafólks og atvinnurekanda gæta hvor sinna hagsmuna. 

Um er að ræða svik og pretti þar sem hópur atvinnurekanda semur við sjálfan sig um kjör starfsfólks, með milligöngu gervistéttarfélags þar sem þeir sjálfir sitja í stjórn ásamt mökum sínum og börnum.“ 

Skerðingar dulbúnar sem hækkanir

Efling segir SVEIT „grípa í það hálmstrá að halda því fram að svokallaður kjarasamningur SVEIT og Virðingar feli í sér að verið sé að „styrkja dagvinnu.“ Fóturinn fyrir þessari fullyrðingu er væntanlega sú að við upphaf samningstíma verða grunnlaun fyrir dagvinnu um 3% hærri en í kjarasamningi Eflingar við SA.

Líkt og með annað sem varðar Virðingu og SVEIT er um að ræða ósannindi. Grunnlaun fyrir dagvinnu í gervikjarasamningi þeirra fara lækkandi á samningstíma samanborið við taxta Eflingar, og verða 6% lægri þegar komið er fram á árið 2027. Þetta má sjá skýrt í eftirfarandi töflu: 

Tekið skal fram að hér er eingöngu átt við grunnlaun fyrir dagvinnu, en megnið af störfum fólks í veitingageiranum fer fram í vaktavinnu um kvöld og helgar. Tilraunir SVEIT til kjaraskerðingar beinast mestmegnis að vinnu utan dagvinnutíma. Í kjarasamningi SVEIT er dagvinnutímabil lengt um 3 klukkutíma á virkum dögum og jafnframt látið ná yfir laugardaga. Efling hefur áður birt útreikninga sem sýna að þetta myndi leiða til 10% lækkunar á heildarlaunum fyrir fullvinnandi einstakling á algengu vaktafyrirkomulagi.“

Á harðahlaupum undan sjálfum sér 

Efling segir að það veki athygli að upplýsingar um forsvarsmenn Virðingar og SVEIT breytast dag frá degi. Virðing hafi titlað Valdimar Leó Friðriksson sem framkvæmdastjóra félagsins á vefsíðu sinni í nóvember, en hefur nú bætt við fyrirvara um að hann hefji ekki störf fyrr en í janúar 2025. „Virðing hefur jafnframt fjarlægt nafn Jóhönnu Húnfjörð af vefsíðu sinni, og nefnir aðeins Jafet Thor Arnfjörð Sigurðarson og Jóhann Stefánsson úr röðum stjórnarmanna. 

Hrefna Björk Sverrisdóttir var í nóvember titluð formaður SVEIT á vefsíðu samtakanna, en í desember hafði formennskan færst yfir á Björn Árnason sem er eigandi Skúla Craft Bar og maki Hrefnu Sætran eiganda Fiskmarkaðarins. Nýjustu vendingar eru þær að í dag 17. desember hefur nafn Hrefnu Bjarkar Sverrisdóttur verið fjarlægt úr hópi stjórnarmanna á vefsíðunni. Svo virðist því sem að forsvarsmenn SVEIT og vitorðsmenn þeirra í gervistéttarfélaginu Virðinu séu á harðahlaupum undan sjálfum sér.“

Úrsögnum úr SVEIT rignir inn

Efling tilgreinir að hafa sent í síðustu viku erindi til forsvarsmenn veitingastaða sem eru aðilar að SVEIT. Viðbrögð hafi borist frá flestum þeirra, eða 87 af 123. 

„Af þeim sem Efling hefur náð sambandi við hefur yfirgnæfandi meirihluti eða 82 lýst því yfir að þeir muni fylgja löglegum samningi Eflingar við SA. Jafnframt hafa 38 fyrirtæki lýst því yfir að þau hafi sagt sig úr SVEIT eða séu í úrsagnarferli. Efling er enn að móttaka tilkynningar frá veitingahúsum um úrsagnir úr SVEIT eða staðfestingar um að gervikjarasamningi við Virðingu verði ekki fylgt. 

Efling hvetur forsvarsmenn veitingastaða sem eru eða hafa verið í SVEIT til að setja sig í samband við félagið hafi þeir ekki þegar gert það. Efling lýsir mikilli ánægju með jákvæð viðbrögð veitingamanna við erindum félagsins, þar sem fram hefur komið með skýrum hætti að meirihluti þeirra hyggjast virða lög, reglu og heiðarlega framgöngu á íslenskum vinnumarkaði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Vegakerfið hrundi á vakt Framsóknar og dýralæknanna

Orðið á götunni: Vegakerfið hrundi á vakt Framsóknar og dýralæknanna
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Áslaug Arna: Hef ekki áhyggjur af fjölskyldutengslum við útgerðina í landinu

Áslaug Arna: Hef ekki áhyggjur af fjölskyldutengslum við útgerðina í landinu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Áslaug Arna: Stjórnkerfið svifaseint, snýst um sjálft sig og vinnur gegn kjörnum fulltrúum fólksins

Áslaug Arna: Stjórnkerfið svifaseint, snýst um sjálft sig og vinnur gegn kjörnum fulltrúum fólksins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Þetta kostar krónan okkur

Sigmundur Ernir skrifar: Þetta kostar krónan okkur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Könnun: Hvern vilt þú sjá sem næsta borgarstjóra Reykjavíkur?

Könnun: Hvern vilt þú sjá sem næsta borgarstjóra Reykjavíkur?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór: Gímaldið er stærðar kjötvinnsla en ekki lítill skúr – hvernig gat þetta gerst?

Guðlaugur Þór: Gímaldið er stærðar kjötvinnsla en ekki lítill skúr – hvernig gat þetta gerst?