fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Eyjan
Sunnudaginn 15. desember 2024 11:30

Björn Leví Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega var tilkynnt um meiri halla á rekstri ríkissjóðs en áður var gert. 1,2% halli af vergri landsframleiðslu (VLF) í stað 0,8% eins og búið var að gera ráð fyrir. Ástæðan er sögð vera lægri tekjur en gert var ráð fyrir og hærri vaxtagjöld. Skiptir þetta einhverju máli í stóra samhenginu, 0,4% til eða frá? Er þetta ekki bara innan skekkjumarka?

TL;DR

Fyrir fólk sem nennir ekki að lesa alla greinina þá er niðurstaðan einfaldlega sú að það er allt rangt í þessum tölum og það er verið að tala um smáaura í stóra samhenginu. Ríkisfjármálin standa ekki og falla með 22 milljörðum aukalega til eða frá – og þar með ekki ríkisstjórnarmyndun heldur.

Rifrildið

Það virðist skipta máli fyrir ríkisstjórnarmyndun. Formaður Samfylkingarinnar segir að þetta hafi áhrif á “ákveðnar aðgerðir” sem þurfi þá að vinna með. Formaður Viðreisnar segir að þetta tefji viðræður um ríkisstjórnarmyndun. Þegar fjárlagafrumvarpið hafi verið lagt fram átti hallinn að vera 41 milljarður en nú bætist 30 – 50 milljarða auka halli við – sem er þá áskorun varðandi markmið um aðhald í ríkisfjármálum.

Formaður fjárlaganefndar birtist þá inn í umræðuna og segir að þetta hafi verið alveg fyrirsjáanlegt við afgreiðslu fjárlaga í nóvember. Þar segir hann:

“Breytingin á framsettum frumvarpi til fjárlaga (í september) þar sem reiknað með 41 milljarða króna halla eða um 0,8% af vergri landsframleiðslu (VLF). Endanleg fjárlög voru afgreidd frá Alþingi með 59 milljarða króna halla eða 1,2% af VLF. Breytingin er upp á 18 milljarða eða 0,4% af VLF, það er heildarjöfnuður verði neikvæður 1,2% af VLF.”

En hvað er rétt í þessu?

Það er þó nokkuð flókið að púsla þessum tölum öllum saman og frekar óþolandi ef stjórnmálamenn geta ekki farið betur með tölur en þetta. Í fyrsta lagi ætti fólk að rekast á ósamræmið á milli 18 milljarðanna og 30 – 50 milljarðanna. 30 – 50 milljarðar ofan á 41 milljarð er ekki hækkun frá 0,8% upp í 1,2% af VLF nema VLF sé að breytast ansi mikið á sama tíma. Í öðru lagi virðast stjórnmálamenn vera að tala um mismunandi forsendur hérna. Formaður fjárlaganefndar er að tala um afgreiðslu fjárlaga en formenn Samfylkingar og Viðreisnar eru að tala um tilkynningu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem birtist mánuði eftir afgreiðslu fjárlaga.

Þegar fólk talar svona um sitt hvorn hlutinn, hvernig er hægt að sjá hver hefur rétt fyrir sér?

Í tilkynningu Fjámála- og efnahagsráðuneytisins er skýrt tekið fram að í fjármálaáætlun (í apríl) var gert ráð fyrir 0,5% halla. Við framlagningu fjárlaga (í september) var gert ráð fyrir 0,8% halla og í fjárlögum (nóvember) var svo hallinn 1,2%.

Þetta virðist vera skýrt, er það ekki? Alveg þangað til maður sér að það er “1” merking við fjárlögin í nóvember sem er hvergi útskýrt. Það þýðir að við verðum að skoða tölurnar nánar. Aldrei treysta stjórnvöldum í sinni framsetningu. Alltaf skoða betur.

Í frumvarpinu sem var lagt fram í september var gert ráð fyrir heildartekjum upp á 1.448.456 m.kr og heildargjöld upp á 1.489.413 m.kr. Mismunur upp á 41 milljarð. Í samþykktum fjárlögum er gert ráð fyrir heildartekjum upp á 1.420.626 m.kr og heildargjöldum upp á 1.483.228 m.kr. Mismunur upp á 63 milljarða. 22 milljarða aukning.

Talnaglöggir koma væntanlega til með að hoppa upp úr stólnum núna og skilja ekki bofs í neinu. Það er búið að tala um 30 – 50 milljarða auka halla og 18 milljarða auka halla en það var hvergi talað um 22 milljarða? Ég hef satt best að segja ekki hugmynd um hvaðan þetta fólk er að fá tölurnar sínar því þetta er bara ágætlega aðgengilegt í fjárlagafrumvarpi og fjárlögum

Fjárlagafrumvarp

Það gleymist oft, þegar tvö deila, að bæði geta haft rangt fyrir sér. Formaður fjárlaganefndar er þó nær því að vera með rétta tölu. Munar ekki nema 4 milljörðum á meðan það munar 8 – 28 milljörðum hjá hinum.

En bíðum. Það er meira.

Það þarf líka að skoða þjóðhagsspánna um hver VLF á eiginlega að vera. Samkvæmt sumarspá, sem er notuð fyrir fjárlagafrumvarp, þá átti VLF árið 2025 að vera 4.889 ma.kr. Þjóðhagsspá í nóvember, sem náðist ekki að nota til þess að endurútreikna fjárlög, eins og venjulega er gert, gerði ráð fyrir 4.843 ma.kr. í VLF. 46 færri milljarðar en áður var gert ráð fyrir!

Útreikningarnir eru þá svona:

Fjárlagafrumvarp

41 milljarðar / 4.889 milljarðar = 0,838% halli af VLF

Fjárlög

63 milljarðar / 4.889 milljarðar = 1,289% halli af VLF

Hérna ruglast tölurnar enn meira. Á meðan 0,8% er alveg rétt námundun þá er 1,2% röng námundun. Hér væri réttara að segja 1,3% halli á ríkissjóði miðað við VLF. Það verður enn verra þegar staðan miðað við nýja þjóðhagsspá er skoðuð:

63 milljarðar / 4.843 milljarðar = 1,3% halli af VLF. Hér er ekki þörf á neinni námundun.

Það er semsagt allt rangt hérna.

Það er ekki 18 eða 30 – 50 milljarða auka halli á fjárlögum heldur 22 milljarða halli. Það er ekki gert ráð fyrir 1,2% halla á ríkissjóði miðað við VLF á næsta ári heldur 1,3% halla. Og þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við að tala um 22 milljarða af 1.483 milljörðum. Það munar engu í stóra samhenginu – þetta er innan skekkjumarka. Þetta á ekki að kalla á neitt flóknari ríkisstjórnarviðræður eða neitt slíkt.

En það er meira!

Árin 2023 og 2024 var gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs væru 30% af VLF. Fyrir næsta ár er einungis gert ráð fyrir þvi að tekjurnar verði 29,3%. Þar munar rúmlega 30 milljörðum. Það er óljóst af hverju tekjur ríkisins sem hlutfall af VLF ættu að minnka þar sem það eru ekki tilfinnanlegar skattabreytingar í þá áttina í fjárlögum ársins 2025 miðað við fyrra ár. Á sama tíma er samt einnig gert ráð fyrir hlutfallslega lægri útgjöldum – einnig upp á um 30 milljarða. Þar gæti hins vegar munað um ýmislegt eins og kostnað vegna eldsumbrota sem raungerast kannski ekki á næsta ári. Það eru allavega tilfallandi útgjöld á meðan ekki er um sérstakar tilfallandi tekjur að ræða hinu megin í bókhaldinu.

Niðurstaðan einfaldlega sú að það er allt rangt í þessum tölum og það er verið að tala um smáaura í stóra samhenginu. Ríkisfjármálin standa ekki og falla með 22 milljörðum aukalega til eða frá – og þar með ekki ríkisstjórnarmyndun heldur.

Björn Leví Gunnarsson

áhugamaður um ríkisfjármál eftir allt of langa setu í fjárlaganefnd

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum