fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Ríkisstjórn rísandi sólar?

Eyjan
Föstudaginn 13. desember 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Takist flokkunum þremur, Samfylkingu, Viðreisn og Flokki fólksins, að mynda ríkisstjórn öðru hvoru megin við jóladagana verður hægt að segja með sanni að hún verði ríkisstjórn rísandi sólar á Íslandi því að vetrarsólstöður eru þann 21. desember og eftir það tekur daginn að lengja. Unnt verður að nota þá myndlíkingu að ný stjórn taki við og sigli þjóðarskútunni út úr svartasta skammdeginu á móti birtu og rísandi sól. Að losna frá sundurlyndi og mistækum stjórnarháttum vinstri stjórnar Bjarna Benediktssonar og áður Katrínar Jakobsdóttur ætti að gefa þjóðinni von um betri tíð.

Þetta verður ekki einfalt eða auðvelt verk því að stöðugt kemur betur í ljós hve arfleifð fráfarandi ríkisstjórnar er slæm. Nú síðast komu upplýsingar frá Fjármálaráðuneytinu um að fjárlagahalli næsta árs verður á annað hundrað milljarðar króna en ekki 40 eins og fyrst var sagt og leiðrétt í 70 milljarða halla við afgreiðslu fjárlaga fyrir skömmu. Myndin verður sífellt dekkri þótt fráfarandi ráðherrar hafi lagt sig alla fram fyrir kosningar að reyna að draga upp glansmynd af bættum hag og góðri stöðu. Það er engin glansmynd heldur falsmynd sem blasir við.

Orðið á götunni er að arfleifð fráfarandi ríkisstjórnar sé ekki glæsileg og líti sífellt verr út: Fram undan er enn eitt ár gríðarlegs fjárlagahalla, ríkið hefur verið rekið á yfirdrætti alla stjórnartíð fráfarandi stjórnar, útlendingamálin eru enn í óreiðu, orkuskortur gerir vart við sig vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn tókst ekki að ná samstöðu um nauðsynlega orkuframleiðslu, vegakerfi landsins líður fyrir viðhaldsskort og vaxandi skemmdir sem ekki hefur verið tekist á við, ríkisbáknið hefur þanist út án aðhalds, stýrivextir seðlabankans eru enn 8,5 prósent sem hljóta að teljast okurvextir og enn stórskaðar verðbólgan fólk og fyrirtæki. Þessu til viðbótar bíða risaverkefni á sviði húsnæðismála, menntamála, í heilbrigðiskerfinu og á sviði lögreglu- og landamæravörslu.

Gangi umrædd stjórnarmyndun eftir eru merkileg tímamót fram undan á Íslandi. Í fyrsta skipti í ellefu ár horfir Sjálfstæðisflokkurinn fram á valdalausa tíma í stjórnarandstöðu. Óhætt er að segja að flokkurinn kunni ekki að vera án valda. Hann er hreinræktaður valdastreituflokkur. Þetta hefur komið berlega í ljós í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem flokkurinn missti völdin fyrir 30 árum og hefur síðan ekki náð að fóta sig á þeim vettvangi. Átta leiðtogar hafa spreytt sig fyrir flokkinn á þessum þrjátíu árum og ávallt reynst einnota. Reynslan kennir að þegar flokkurinn er í stjórnarandstöðu munar meira um stjórnarandstöðu atvinnulífsins en flokksins sjálfs. Ætla má að sama verði nú uppi á teningnum, að atvinnulífið og sum samtök þess muni hamast gegn ríkisstjórninni af fullri hörku, einkum Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og jafnvel Viðskiptaráðið eins og þekkt er frá fyrri tímum.

Orðið á götunni er að mjög mikilvægt sé að ný ríkisstjórn sendi strax þau skýru skilaboð frá toppnum að ráðdeild og aðhaldi verði beitt. Með táknrænum hætti þarf að fækka strax um eitt ráðuneyti með því að loka ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar og færa verkefni þess annað. Þetta ráðuneyti var búið til fyrir þremur árum með ærnum tilkostnaði. Þar eru nú 40 manns á launum. Með því að fækka um einn ráðherra og fækka aðstoðarráðherrum um 13 þannig að einungis fylgi einn aðstoðarmaður hverjum ráðherra, auk tiltektar í starfsmannafjölda þessa óþarfa ráðuneytis, má spara verulega fjármuni – en fyrst og fremst senda mikilvæg skilaboð um að ný ríkisstjórn ætli að snúa við þeirri öfugþróun sem útþensla ríkisbáknsins hefur haft í för með sér.

Það verður æ ljósara með hverjum deginum sem líður frá kjördegi að ný ríkisstjórn verður að láta fara fram óháða, utanaðkomandi úttekt á stöðu ríkissjóðs og leita skýringa á ýmsum mistökum sem hafa viðgengist síðustu sjö árin. Fá þarf erlenda ráðgjafa til verksins, til dæmis hið virta alþjóðlega ráðgjafafyrirtæki McKinsey. Fyrir öllu er að gæta þess að úttektin verði að fullu utanaðkomandi og óháð, að erlendir ráðgjafar hafi ekki tengsl við innlenda aðila sem hafa fyrir fram mótaðar skoðanir á íslensku hagkerfi.

Orðið á götunni er að það stefni í eftirfarandi skiptingu ráðuneyta á milli þessara þriggja flokka: Samfylkingin fái forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, menntamálaráðuneytið og matvælaráðuneytið, auk embættis forseta Alþingis sem er ráðherraígildi. Viðreisn fái fjármálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, menningar-og viðskiptaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Flokkur fólksins fái innviðaráðuneytið, umhverfis-, loftslags- og orkuráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Þessi skipting embætta væri nokkurn vegi í samræmi við kjörfylgi flokkanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðlaugur Þór gagnrýnir Jóhann Pál og segir hann skreyta sig með stolnum fjöðrum

Guðlaugur Þór gagnrýnir Jóhann Pál og segir hann skreyta sig með stolnum fjöðrum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hilmar ræðir um framferði Trumps – „Þetta er ekki skynsamlegt en þetta er skiljanlegt“

Hilmar ræðir um framferði Trumps – „Þetta er ekki skynsamlegt en þetta er skiljanlegt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir oflof Björns Bjarnasonar um feril Bjarna Ben innistæðulaust

Segir oflof Björns Bjarnasonar um feril Bjarna Ben innistæðulaust
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Andspyrnuhreyfingin kraumar af reiði yfir niðurlægingu Dags

Orðið á götunni: Andspyrnuhreyfingin kraumar af reiði yfir niðurlægingu Dags