Ljóst er að Sósíalistaflokkur Íslands nær ekki yfir 5% þröskuldinn, aðrar kosningarnar í röð, og nær þar með ekki mönnum inn á þing. Eins og staðan er núna að morgni dags er flokkurinn með 3,7% fylgi sem verður að teljast mikil vonbrigði eftir að hafa mælst með um og yfir 6% fylgi í fjölmörgum skoðanakönnunum.
Einn af foringjum Sósíalista, Gunnar Smári Egilsson, gerði þröskuldinn háa að umtalsefni í færslu á samfélagsmiðla í nótt en ljóst er að hann þýðir að um 10% atkvæða sem greidd voru falla niður dauð.
„Eins og staðan er núna færir 5% þröskuldurinn fjóra þingmenn frá Sósíalistum, Pírötum og Vg til annarra flokka. Án þessa þröskulds myndu Sósíalistar fá tvo þingmenn og Píratar og Vg sitthvorn. Þessir þingmenn færast yfir á Sjálfstæðisflokk, Miðflokk, Flokk fólksins og Samfylkinguna. Það má spyrja hvort þetta séu jákvæð áhrif á þingið, að taka þessa fjóra þingmenn af kjósendum þriggja flokka og færa til annarra flokka,“ skrifar Gunnar Smári ósáttur.