Brynjar Níelsson, sem var á lista Sjálfstæðismann í Reykjavíkurkjördæmi suður, var um tíma inni á þingi í tölum næturinnar en náði ekki inn á þing þegar upp var staðið. Hann lýsir því yfir í færslu á Facebook að hann hyggist nýta starfskrafta sína annars staðar en í pólitík hér eftir en veltir fyrir því sér hvort hann eigi met í því að hætta í pólitík.
Brynjar segist vera sáttur við sinn tíma í stjórnmálum, ekki síst með að hafa um tíma verið hluti af meirihlutasamstarfi sem skilaði miklum árangri. Hann segir hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að fara í naflaskoðun eftir þessar kosningar. Hann þurfi að hafa hugrekki, tala skýrt fyrir stefnunni og lesa salinn:
„Ég er farinn að venjast því að sofna inni en vakna úti. Slíkt gerðist ekki hjá okkur Soffíu í gamla daga. En nú er loksins komið að leiðarlokum hjá mér í stjórnmálum. Soffía sagði við mig þegar ég vaknaði að ég hefði hvort eð er ekki getað verið á þinginu án Pírata. Ég hefði bara reytt hár mitt og klórað mig til blóðs að þurfa hlusta á alla þessa þingmenn sem ætla að gera allt fyrir alla og lækka verðbólgu og vexti í leiðinni.
Ég er hvorki sár né svekktur enda vissi ég að brekkan var brött og löng. Ég vil þakka þeim sjálfstæðismönnum sem lögðu dag við nótt í kosningabaráttunni og sýndu ótrúlega eljusemi og baráttuvilja. Ég mun mest sakna þeirra. Nú mun ég leita á önnur og ólík mið því andlegt og líkamlegt atgervi mitt er enn gott þótt margir gætu haldið annað. Ég mun sakna ykkar líka, kæru vinir, meira að segja gamla veghefilsstjórans, Hallmundar mikla Guðmundssonar frá Hvammstanga, og þó.
Ég er mjög sáttur við þessi ár mín í stjórnmálum. Var hluti af meirihlutasamstarfi síðasta áratuginn sem náði góðum árangri og oftast við erfiðar aðstæður. Náð að skapa umhverfi fyrir atvinnulífið til að blómstra með tilheyrandi kaupmáttaraukningu allra þrátt fyrir erfiðleika eftir bankahrunið og síðan heimsfaraldur og loks náttúruhamfarir. Veit ekki til þess að aðrar þjóðir hafi náð viðlíka árangri, allavega ekki þær sem eru í ESB með lágu vextina.
En Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara í naflaskoðun eftir þessar kosningar. Dugir skammt í mínum huga að benda á marga nýja flokka hægri megin við miðjuna, sem eru ekki einu sinni til hægri þegar betur er að gáð. Ef flokkurinn ætlar að vera áfram leiðandi í íslenskri pólitík þarf hugrekki, tala skýrt fyrir stefnunni og lesa salinn. Þá er ég að tala um eigin sal en ekki sali annarra til að reyna að þóknast öllum.
Ætli ég hafi slegið nýtt met í að hætta í pólitík?“