Litlar fregnir berast af gangi stjórnarmyndunarviðræðna. Það sem þó fréttist innan úr viðræðum formanna þriggja um stjórnarmyndun er á þann veg að ekkert hefur enn þá komið upp á sem ætti að koma í veg fyrir stjórnarmyndun, jafnvel á næstu tveimur vikum og þá fyrir jól.
Þeir sem fá ekki að koma að stjórnarmyndunarborðinu reyna allt sem þeir geta til að dreifa efasemdum og skemma fyrir starfi formanna þriggja sem virðast ná ákaflega vel saman. Öll meðul eru notuð og sum alþekkt eins og Morgunblaðið, Viðskiptablaðið og nú orðið félagasamtök atvinnurekenda sem áður reyndu þó að halda sér á mottunni á viðkvæmum tímum eins og nú eru. Þetta á einkum við um Samtök atvinnulífsins og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Furðu vekur að ASÍ virðist ætla að láta glepjast inn í þennan hóp. Það er þeim samtökum alls ekki til framdráttar.
Orðið á götunni er að konurnar þrjár sem mestu ráða um framvindu þessara viðræðna hafi unnið hratt og skipulega og þegar ýtt nokkrum álitamálum út af borðinu með góðum niðurstöðum fyrir alla. Ekki verður ágreiningur vegna Evrópumála, þau fara í góðan farveg, samstaða er um að taka hressilega til hendinni varðandi umframeyðslu í efstu lögum stjórnkerfisins, m.a. með því að leggja strax niður hið óþarfa ráðuneyti sem búið var til fyrir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir þremur árum. Málefni iðnaðar, sem hún virtist aldrei skilja eða hafa áhuga á, færast til viðskiptaráðuneytisins og málefni háskóla og vísinda fara aftur í menntamálaráðuneytið þar sem þau eiga heima. Að fækka strax um einn ráðherra og eitt ráðuneyti er gott fyrsta skref. Einnig þarf að ákveða að enginn ráðherra muni hafa nema einn aðstoðarmann, en þeir eru tveir núna fyrir hvern tólf ráðherranna. Þetta eru dæmi um skilaboð sem þarf að send frá toppi stjórnkerfisins og niður í allar opinberar stofnanir.
Mikilvægt er að tekið verði fast á því að fækka opinberum stofnunum með sameiningum, hagræðingu og beinlínis að leggja óþarfar stofnanir niður. Vinstri græn lögðu mikla áherslu á útþenslu þessara stofnana á valdatíma sínum síðustu sjö árin. Nú eru þau horfin af sviði íslenskra stjórnmála og því ekki eftir neinu að bíða. Fyrsta skrefið gæti verið að ákveða strax frestun á gildistöku laga um Mannréttindastofnun sem komið var á fót fyrr á þessu ári til að friða Vinstri græna á meðan Katrín Jakobsdóttir réð þar enn þá för og hafði mikil áhrif. Svo mætti skoða í rólegheitum hvort draga megi til baka ákvörðun um tilvist þessarar stofnunar. Með því að ákveða að fækka stofnunum úr 160 væri gott fyrsta ráð að stöðva tilurð nýrra stofnana.
Þeir sem vilja koma í veg fyrir myndun ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins hengja nú hatt sinn á að yfirlýsingar Flokks fólksins fyrir kosningar hafi verið með þeim hætti að ekki verði unnt að semja um innihald þeirra við myndun ríkisstjórnarinnar. Víst er að Flokkur fólksins birti brattar hugmyndir sem forystumenn þeirra hafa þegar séð að eru óraunhæfar að svo stöddu vegna þess að staða ríkissjóðs og þjóðarbúsins er mun verri en fráfarandi ríkisstjórnarflokkar létu í veðri vaka fyrir kosningar. Flokkur fólksins mun áfram gæta hagsmuna þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu og því verður sinnt í þeim stjórnarsáttmála sem nú er í smíðum. Allir aðilar þessa samkomulags hafa áttað sig á því að arfleifðin sem ný stjórn fær frá fallinni ríkisstjórn er ekkert annað en langvarandi yfirdráttur og 70 milljarða halli á þeim fjárlögum fyrir komandi ár sem stjórnin lagði fram til samþykktar á lokaandartökum sínum. Það er ekki falleg arfleifð ofan á allt annað sukk síðustu sjö ára.
Orðið á götunni er að full samstaða sé milli flokkanna þriggja um „stóru málin“ eins og meðferð á fjárhagsvanda ríkissjóðs, útlendinga-og flóttamannamálum, málefnum lögreglu og landamæra, þörf fyrir tafarlausa aukingi á orkuöflun, eflingu atvinnulífs og nýsköpunar, sölu á tilteknum ríkiseignum til að höggva niður skuldaklafa fráfarandi ríkisstjórnar og lækka þar með fjármagnskostnað ríkissjóðs. Að ekki sé talað um átak til að vinna upp margra ára sleifarlag í vegamálum á Íslandi undir forystu Framsóknarflokksins.
Þó að formenn flokkanna neiti því að rætt hafi verið um skiptingu ráðuneyta er litið svo á að ellefu ráðuneyti, eftir fækkun um eitt, að viðbættri stöðu forseta Alþingis, sem er ráðherraígildi að völdum, virðingu og starfskjörum, skiptist þannig að stærsti flokkurinn, Samfylkingin, fái fimm fulltrúa, Viðreisn fjóra og Flokkur fólksins þrjá. Þetta er nokkurn veginn í samræmi við kjörfylgið. Embætti forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra kæmu frá Samfylkingunni, fjármála og utanríkisráðherrar frá Viðreisn og þá gæti Flokkur fólksins valið um mjög áhugaverð embætti eins og innviðaráðuneytið, umhverfis-loftslags-og orkumálaráðuneytið sem verða mjög mikilvæg, eða jafnvel menntamálin. Af nógu er að taka.
Ekki þarf að búast við öðru en því að þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar frá síðasta kjörtímabili muni láta fara fram vandaða, faglega og óumdeilda úttekt á stöðu þjóðarbúsins strax og þeir komast til vanda. Erlendir aðilar, eins og til dæmis McKinsey eða sambærilegir aðilar, ættu að geta tekið stöðuna út á fáum vikum. Svör þurfa á fást við því hvers vegna ríkissjóður er stöðugt rekinn með miklum halla, hvers vegna verðbólga og vextir eru hér þrefaldir á við nágrannalöndin og hagvöxtur kominn niður í núll í þessu landi mikilla auðlinda, svo eitthvað sé nefnt.
Gott væri einnig að fá svör utanaðkomandi aðila við því hvernig stendur á því að íslensk þjóð, sem er rík að orkuauðlindum, hefur ekki framleitt næga orku síðustu sjö árin. Er það Vinstri grænum að kenna eða liggja aðrar orsakir að baki..