fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Eyjan
Fimmtudaginn 5. desember 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kosningarnar 30. nóvember mörkuðu afgerandi þáttaskil í þróun flokkakerfisins. Fylgisbreytingar allra flokka eru afgerandi. Hins vegar eru þær fyrst og fremst innbyrðis milli flokka í hugmyndafræðilegu mengjunum: Hægri, miðju og vinstri.

Samfylkingin er ekki bara orðin stærsti flokkur landsins. Hún er ráðandi afl til vinstri við miðju. Stærsti vinstri flokkurinn og sá sem var yst til vinstri á síðasta kjörtímabili fellur út af þingi.

Viðreisn verður ekki bara þriðji stærsti flokkur landsins. Hún leysir einnig Framsókn af hólmi sem þyngdaraflið á miðjunni.

Sjálfstæðisflokkurinn missir stöðu sína sem stærsti flokkur landsins en er áfram stærri flokkurinn á hægri vængnum. Miðflokkurinn nær hins vegar þeirri stöðu að geta mögulega orðið sjálfstæður tengiliður við flokka á miðjunni eða nálægt henni vinstra megin.

Mögulegt en snúið

Úr kosningaúrslitunum má lesa þau skilaboð kjósenda að nú þurfi að mynda samhenta stjórn flokka, sem eiga meiri hugmyndafræðilega samleið en fráfarandi stjórnarflokkar.

Viðræður Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins eru nærtækasti möguleikinn í tilraun til að svara því kalli.

Fram hjá hinu verður þó ekki horft að það er snúið verkefni.

Fram undan eru miklir erfiðleikar. Stjórnarmyndun er eitt. Samstaða um úthaldið er annað.

Plan til skamms tíma og lengri tíma

Fráfarandi ríkisstjórn birti glansmynd af stöðu þjóðarbúsins. Þjóðin á rétt á að fá vitneskju um hvort sú mynd segi allan söguna eða bara hálfa?

Svo virðist sem ný ríkisstjórn verði að grípa til umfangsmikilla skyndiaðgerða til að bæta stöðu ríkissjóðs og styrkja ákveðna þætti velferðarkerfisins. Um leið þarf hún líka að leggja línur um umfangsmeiri kerfisbreytingar til lengri tíma.

Óháð því hvernig ríkisstjórn verður mynduð er hætt við að án kerfisbreytinga standi hún að fjórum árum liðnum í sömu sporum og sú sem er að kveðja.

Aðvaranir

Í júlí birti Viðskipta Mogginn það álit sérfræðings á verðbréfamarkaði að ríkið þyrfti hugsanlega að sækja allt að 700 milljarða króna á næstu tveimur árum til að fjármagna útistandandi víxla, lánsfjárjöfnuð, afborganir og vexti. Hvaða áhrif mun það hafa á verðbréfavexti?

Tveimur dögum fyrir kosningar birti vefmiðillinn Innherji á Vísi það álit aðalhagfræðings Kviku banka að hægari hjöðnun undirliggjandi verðbólgu muni reynast peningastefnunefnd óþægur ljár í þúfu og það muni verða langhlaup að ná verðbólgumarkmiðinu.

Viku fyrr birti sami vefmiðill það álit hagfræðinga Arion banka að bið verði á því að aðhaldsstig Seðlabankans fari minnkandi og við munum áfram velkjast um í heimi fjögurra prósenta raunvaxta.

Það þarf aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum til þess eins að þessar aðvaranir fari ekki á verri veg. Eigi að lækka raunvextina til jafns við samkeppnislöndin þarf hins vegar meiri skattahækkanir eða meiri niðurskurð en nokkur ríkisstjórn ræður pólitískt við.

Þess vegna þarf ný ríkisstjórn líka að sýna langtíma plan um kerfisbreytingar.

Málamiðlunin

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gerðu andstöðu við frekari Evrópusamvinnu að helsta umræðuefni í kosningabaráttunni. Það gerði Viðreisn aftur á móti kleift að koma málamiðlunartillögu sinni um þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna á dagskrá með afgerandi hætti.

Niðurstaða kosninganna er sú að flokkar sem styðja málamiðlunina um þjóðaratkvæði hafa öruggan meirihluta á Alþingi. Lengur er því ekki unnt að tala um pólitískan ómöguleika af því að meirihluti Alþingis sé á öndverðum meiði við þjóðina um að fara slíka málamiðlunarleið.

Framtíðarplön um aukinn jöfnuð heimila og bætta samkeppnisstöðu velferðarkerfisins velta á því hvort þjóðin fái tækifæri á næstunni til að taka af skarið í þessu efni.

Jöfn tækifæri

Fráfarandi ríkisstjórnar hefur sýnt að til þess að halda uppi verðgildi krónunnar verðum við að beita umfangsmeiri gjaldeyrishöftum en þekkjast meðal helstu samkeppnisþjóða.

Svo leggjum við skatta á almenning til að borga útlendingum þrefalt hærri vexti en þeir fá heima hjá sér. Og raunvextir þurfa að vera þrefalt hærri en í grannlöndunum.

Ef útflutningsgreinarnar störfuðu ekki utan Seðlabankahagkerfisins væri samkeppnisstaða landsins í heild óbjörguleg.

Kerfisbreytingin snýst um að gefa öllum jöfn tækifæri og nýta skattana með skynsamlegri hætti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills

Björn Jón skrifar: Framsýni Churchills
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
23.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar