Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir kosningarúrslitin vera slæm fyrir Sjálfstæðisflokkinn um leið og hann þakkar sjálfboðaliðum flokksins þá staðreynd að fylgistap hans varð ekki enn meira en raun ber vitni. Kjartan birtir grein um stöðu flokksins í Morgunblaðinu í dag og segir:
„Eðlilegt er að margir velti fyrir sér stöðu og framtíð Sjálfstæðisflokksins eftir kosningarnar um liðna helgi. Flokkurinn missti rúmlega fimmtung fylgis síns miðað við síðustu alþingiskosningar og hlaut minnsta fylgi í sögu sinni eða 19,4%.
Það væri sjálfsblekking að láta eins og um kosningasigur væri að ræða. Hitt er svo annað mál að úrslitin eru mun skárri en skoðanakannanir gáfu til kynna stærstan hluta baráttunnar. Lengi mældist Sjálfstæðisflokkurinn með afar lítið fylgi og leit út fyrir að hann myndi bíða afhroð í kosningunum. Á tímabili stóð til að kjósa viku fyrr en raunin varð eða 23. nóvember. Þann dag birtust þrjár skoðanakannanir, sem sýndu að flokkurinn hefði 14% fylgi að meðaltali.
Á lokasprettinum fyrir kosningar tókst Sjálfstæðisflokknum hins vegar að snúa vörn í sókn og auka fylgi sitt svo um munaði. Þann árangur má þakka hundruðum sjálfboðaliða, sem brugðust við á ögurstundu og lögðust á eitt við að afla flokknum atkvæða með því að hafa beint samband við þúsundir kjósenda um allt land. Gaman var að fylgjast með dugnaði og vinnugleði þessara sjálfboðaliða og verður framlag þeirra seint fullþakkað.“
En hvað sem líður björgunarstarfi sjálfsboðaliða þá eru þetta þriðju kosningarnar í röð þar sem Sjálfstæðislokkurinn tapar fylgi. Segir Kjartan að slíkt endurtekið fylgistap kalli á allsherjar naflaskoðun innan flokksins. Telur hann rétt að leiðir til úrbóta sé ræddar af hreinskilni og hispursleysi.
Kjartan segir í grein sinni að samtöl í marga kjósendur leiði í ljós að þeir séu ósáttir við framgöngu flokksins varðandi skattamál og stuðning um hugmyndir um borgarlínuskatt. Einnig setji þeir spurningarmerki við forystu flokksins.
DV sló á þráðinn til Kjartans og freistaði þess að spyrja nánar út í þessu atriði. Var hann spurður hvort hann teldi tímabært að skipta um forystu í Sjálfstæðisflokknum.
„Það eru skiptar skoðanir um það. Það verður landsfundur í febrúar og það kemur örugglega til umræðu fyrir þann fund. Ég held að menn hafi bara sett það til hliðar fyrir kosningar. Eðlilegt að það verði rætt um það en ég held það verði skiptar skoðanir um það.“
DV spurði Kjartan jafnframt út í afstöðu hins almenna sjálfstæðismanns til borgarlínu, sem flokkurinn hefur stutt á landsvísu. Segir Kjartan að margir séu ósáttir við borgarlínuverkefnið.
„Ég held að mjög margir Sjálfstæðismenn séu ósáttir við þessa hugmynd um Borgarlínu og stuðning flokksins við hana. Það eru skiptar skoðanir, við borgarfulltrúarnir höfum lagst gegn þessum hugmyndum, þá sérstaklega hugmyndinni um að fjármagna hana með því að setja aukin gjöld á umferð í borginni, við erum nú þegar að borga einhver hæstu bensíngjöld og bifreiðaskatt í heimi og þetta borgarlínuverkefni er upp á einhverja hundruð milljarða. Hugmyndin er sú að skattleggja bílaeigendur fyrir þeim kostnaði og það hefur verið sýnt fram á að þessar hugmyndir eru mjög dýrar. Það væri hægt að efla almenningssamgöngur með öðrum og miklu ódýrari hætti. Svo koma tafir inn í þetta líka. Núna er talað um árið 2031, vinstri menn hafa talað um þessa borgarlínu sem einhverja allsherjarlausn í samgöngumálum borgarinnar í 15 ár og það er alltaf verið að fresta þessu fokdýra verkefni. Í staðinn fyrir að bíða eftir borgarlínu fram á næsta áratug þá væri miklu raunhæfara að efla núverandi strætókerfi með ýmsum hætti, sem er miklu ódýrara, væri miklu betra og er hægt að gera á stuttum tíma. Ég heyri á hinum almenna Sjálfstæðismanni að fólki finnst þetta vera dýrt draumórarugl og skilja ekkert í þeim stuðningi sem borgarlínan og sú skammtheimta sem henni á að fylgja hefur fengið hjá ákveðnum hluta flokksins.“
Kjartan segir að ef flokkurinn er á leið í stjórnarandstöðu, eins og líkur benda til, þá sé rétt að grípa tækifærið, taka á innri málum flokksins og skerpa stefnuna.