Viðskiptaráð Íslands smíðaði reiknivél til að sýna hvaða stefnumál væru líkleg til að rata í stjórnarsáttmála eftir því hvaða flokkar mynda ríkisstjórn. Niðurstöðurnar byggja á afstöðu flokkanna til 60 mála sem ráðið spurði þá út í.
Þessi reiknivél hefur valdið nokkrum misskilningi. Til dæmis skrifaði Viðskiptablaðið frétt þar sem sagði að möguleg ríkisstjórn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks (CDM) væri mun meira sammála heldur en möguleg ríkisstjórn Viðreisnar. Flokks fólksins og Samfylkingar (CFS).
Nokkur umræða hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum um þessa reiknivél Viðskiptaráðs og margir furðað sig á að Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins séu í stjórnarmyndunarviðræðum þegar flokkarnir eigi klárlega ekki margt sameiginlegt.
Sló Viðskiptablaðið því upp í frétt sinni að CFS væru aðeins sammála um þrjú mál á meðan CDM væru sammála í 21 máli. Þessi framsetning er þó villandi. Viðskiptaráð flokkar málefnin niður í mál sem flokkar eru fylgjandi, mál sem væri hægt að semja um, mál þar sem flokkar eru ósamstíga og mál sem flokkar eru mótfallnir. Það er seinasti flokkurinn sem veldur ruglingi þar sem flokkarnir eru í raun sammála hvað varðar þau mál sem þeir eru mótfallnir. Hið rétta er að CFS er í raun sammála um að vera fylgjandi þremur málum sem Viðskiptaráð vill fá í gegn, en mótfallin 28 málum. Með öðrum orðum sammála í 30 málum af 60 og getur til viðbótar samið um 14 mál. Flokkarnir eru aðeins ósamstíga í 16 málum.
CFS eru sögð mótfallin til dæmis eftirfarandi:
Svo í raun eru flokkarnir þrír bara ósamstíga í 16 málum af 60, nokkuð samstíga í 30 málum og gætu samið um 14 mál . CDM-stjórn væri ósamstíga í 9 málum, en gæti samið um 25 mál og nokkuð samstíga í 26 málum. Því er ekki hægt að slá því föstu að CDM-stjórn sé „mun meira“ sammála þegar betur er að gáð, enda þyrfti CDM að semja um fleiri málaefni en CFS þó svo að þar séu færri mál þar sem flokkarnir eru ósammstíga.
Þar fyrir utan byggir þessi reiknivél á málefnum sem Viðskiptaráð spurði út í, og hver þeirra gætu ratað inn í stjórnarsáttmála, og varða því óhjákvæmilega hagsmunamál atvinnulífsins. Ekki er því um tæmandi talningu á stefnumálum flokkanna að ræða og þessi samanburður því ekki til þess fallinn að varpa raunsærri mynd á þessa tvo ríkisstjórnarmöguleika og grundvöll fyrir samstarfi þeirra.