fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Eyjan

Kolbeinn spyr hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu – „Ég er hreint ekki sannfærður“

Eyjan
Mánudaginn 2. desember 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent í efnahagsfélagsfræði við Háskóla Íslands, veltir því fyrir sér hvort Íslendingar þurfi róttæka vinstri hreyfingu. Íslendingar hafi ekki haft eiginlegt róttækt vinstri á Alþingi og komist ágætlega af án þess.

Kolbeinn færir rök fyrir þessu í Facebook-færslu.

„Ein af sögunum sem hefur orðið til í kjölfar kosninganna er að eitthvað sem við köllum „vinstrið“ hafi beðið afhroð. Í kjölfarið hafa margir sem tilheyra þessu svokallaða vinstri stigið fram og lýst áhyggjum af stöðunni, annað hvort vegna þess að sjónarmið þeirra eigi ekki fulltrúa, að vissar áherslur muni hverfa úr umræðunni (aðallega umhverfisvernd) og jafnvel kallað eftir því að þetta vinstri þurfi að hugsa sinn gang og skipuleggja sig upp á nýtt.

Af umræðunni að dæma þýðir „vinstri“ hér eitthvað eins og „róttækt vinstri“, það er vinstra megin við jafnaðarstefnuna. Jafnaðarflokknum vegnaði nefnilega bara prýðilega.

Þurfum við róttækt vinstri? Ég er hreint ekki sannfærður.“

Enginn róttækni

Kolbeinn bendir á að hér á landi hafi í raun ekki verið neinn róttækur vinstri flokkur í háa herrans tíð. Ekki nema Sósíalistaflokkurinn sem hafi til þessa ekki náð inn á þing. Hann nefnir sem dæmi gamla Alþýðuflokkinn. Hann hafi ekki verið róttækur vinstriflokkur, þó hann hefði sterkan vinstri arm, heldur var í grunninn sósíaldemókrataflokkur. Alþýðubandalagið var svo eins konar félagshyggjuarmur Framsóknarflokksins og Kvennalistinn var vinstri flokkur sem var ekkert sérstaklega róttækur. Þjóðvaki var svo jafnaðarflokkur, tímabundið skjól fyrir jafnaðarfólk eftir að frjálshyggjan náði of sterkum tökum á Alþýðuflokknum.

Loks ákvað vinstrið að endurskipuleggja sig. Útkoman voru tveir flokkar. Samfylkingin og Vinstri Græn.

„Samfylkingin sem á þeim tíma var flokkur fyrir fólk sem hallaði sér til vinstri sem vildi samt helst ekki að aðrir sæju þau sem vinstri. Hinn var VG, sem var fyrir fólk sem vildi vera vinstri en var það samt eiginlega ekki. Erindi VG var um margt skýrara, með sínar fjórar stoðir umhverfisverndar, hernaðarandstöðu, femínísma og félagshyggju. Samfylkingin virtist aðallega sjá sitt erindi í að vera stór en var málefnalega á erfiðum stað vegna málamiðlana sem þurfti til að halda þessu lauslega bandalagi Alþýðuflokksins, Þjóðvaka og hluta Kvennalistans og brots úr Alþýðubandalaginu saman.

Í upphafi var Samfylkingin ekki róttækur vinstriflokkur. VG gáfu sig út fyrir að vera það.“

Gáfust upp á verkalýðnum

Hjá báðum flokkum hafi komið fram áherslur í anda einstaklingshyggju, eða „ídendítetspólitík“ eins og Kolbeinn kallar það. Gáfumenni á vinstri vængnum hafi gefist upp á verkalýðnum. Þegar Kolbeinn byrjaði að taka þátt í stjórnmálum árið 1995 var jafnaðarhreyfingin í krísu. Verkamannastéttin hafði minnkað út af tækni- og samfélagsbreytingum og ekki lengur hætt að vinna kosningasigra með bara verkamönnum. Meira þurfti til og því reyndu sósíaldemókratar að ná til millistéttarinnar.

„Róttæka vinstrið var líka í sárum eftir fall Sovétríkjanna og fór svipaða leið. Sósíaldemókratar gengust víða inn á frjálshyggjuna í efnahagsmálum og tóku upp „frjálslynda“ ídentítetspólitík. Vinstrið tók upp róttækari ídentítetspólitík en hélt í gagnrýna afstöðu gegn frjálshyggjunni, setti umhverfismál í forgrunn (þar með talið baráttuna gegn ljósmengun í þéttbýli, sælla minninga).

Þegar hrunið brast á var vinstrið hálfgerð hugmyndaleg eyðimörk. Hrunið var hins vegar áfall fyrir frjálshyggjuna og það skapaðist rými fyrir aðrar hugmyndir. Vinstrið varð sérstaklega frjór jarðvegur fyrir Ídentítetspólitík. Frá víðara sjónarhorni en því íslenska gerðist þetta einhvern vegin svona:
Almenningur: Ok, þessar pælingar um óhefta markaðshyggju voru kannski ekki frábærar. Hvað segið þið þarna vinstra megin? Eruð þið með eitthvað?

Vinstrið: Tjahh ,,, sko … heyrðu, jú … fornöfn, við þurfum fleiri. Er það ekki eitthvað?

Hægrið: Krakkar, við lifum á viðsjárverðum tímum. Við munum tryggja öryggi ykkar.

Ég held að fólk sé almennt líklegra til að velja öryggi en ný fornöfn. Hægrið hélt völdum efnahagslega en vinstrið náði umtalsverðum árangri í menningunni.“

Kolbeinn gekk í VG eftir hrunið því að flokkurinn var þá með afstöðu gegn frjálshyggjunni. Hann komst þó fljótt að því að þetta var bara afstaða í orði en ekki á borði. Engin áhersla var í raun sett á velferðarmál, ójöfnuð, vinnumarkað, lífskjör og fátækt. Þegar VG komst í meirihluta hafi svo öll róttækni horfið fyrir lítið, í skiptum fyrir völd.

Akademískt og fráhrindandi

Sósíalistar hafi svo átt erfitt með að koma sínum hugmyndum á framfæri þar sem þegar var annar flokkur á þingi sem barðist fyrir lítilmagnaranum.

„Hvernig má það vera? Þegar Inga Sæland talar um málefni þeirra sem standa verst í íslensku samfélagi hljómar hún eins og hún meini það og hafi reynt fátækt á eigin skinni. Sósíalistarnir tala hins vegar um nýfrjálshyggju, auðvald og að kollvarpa kapítalismanum. Jájá, við náum því. Sum ykkar sóttu námskeið hjá Róttæka sumarháskólanum eftir hrun.

Mig grunar að fólkinu sem hefur það verst í íslensku samfélagi sé verst sett sé mest megnis sama um fansý hugtök og hafi hóflegan áhuga á að kollvarpa kapítalismanum. Finnist þetta jafnvel allt frekar akademískt og fráhrindandi. Af kosningum að dæma virðast þau að minnsta kosti líklegri til að kjósa flokk sem tengir við þau á hversdagslegri hátt. Þarf vinstrið róttækan flokk til að vinna þetta fylgi til baka? Ég held að jafnaðarflokkur sé alveg fær um það.“

Einokunarstaða á vinstri væng

Nú sé þó sóknarfæri fyrir vinstrimenn á Íslandi. Samfylkingin geti nú fengið þá einokunarstöðu á vinstri vængnum sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði áður hægra megin við miðjuna. Nú sé hægrið klofið en vinstrið þurfi ekki að vera það lengur ef Samfylkingin finnur leið til að höfða til breiðs hóps vinstri manna, þar með talið þeirra róttæku.

„Hin augljósa mótbára frá róttæka vinstrinu (ef það er yfirhöfuð til) er að það sé ekki líku saman að jafna. Róttæka hægrið hafi heimskulegar, ógeðfeldar og hættulegar skoðanir og sagan sýni hættuna sem þeim fylgja. Það er rétt, frá sjónarhornum sem spanna allt frá róttækasta vinstrinu og yfir til hófsama hægrisins. Vandinn er bara að það sama má segja um róttæka vinstrið frá sjónarhornum sem spanna allt frá róttæka hægrinu og yfir til hófsama vinstrisins.

Ef vinstrið vill vera mótandi afl í íslensku samfélagi á komandi áratugum er það líklega betur sett með einn flokk á vinstrivæng stjórnmálanna og hægrið klofið í marga minni flokka. Ég veit að margt vinstrafólk er ósammála þessu, að þegar til kastanna kemur velur það rödd umfram áhrif.

Eina gagnsemin sem ég sé fyrir róttækan vinstriflokk er sem hagstæður samanburður fyrir Samfylkinguna. Þau hafa þá einhvern til að benda á þegar það hentar og geta sagt: „Þú ert að rugla okkur saman við vini okkar í Anarkísósíalískagræningjabandalaginu gegn ljósmengun. Þau eru kreikrei. Við viljum bara bæta heilbrigðiskerfið og draga úr skerðingum örorkulífeyris.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Grínisti aðstoðar dómsmálaráðherra

Grínisti aðstoðar dómsmálaráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ármann segir að frestun landsfundar fram á haust væri vanvirðing gagnvart flokksmönnum

Ármann segir að frestun landsfundar fram á haust væri vanvirðing gagnvart flokksmönnum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Það er engin rómantík í fæðingarsögu frelsarans

Sr. Davíð Þór Jónsson: Það er engin rómantík í fæðingarsögu frelsarans
Eyjan
Fyrir 1 viku

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Kosning um framhaldviðræður við ESB verði vorið 2025!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Kosning um framhaldviðræður við ESB verði vorið 2025!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks

Björn Jón skrifar: Að festast í gíslingu ofstækisfólks