Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason veltir því upp hvort Flokkur fólksins ráði því hvaða ríkisstjórn verði mynduð. Hann segir erfitt að skilgreina flokkinn til hægri eða vinstri.
Niðurstaða Egils er sú að bæði vinstri flokkar og Sjálfstæðisflokkur hafi farið mjög illa út út kosningunum. Hann telur að næsta ríkisstjórn gæti orðið skrýtin blanda og því sé kannski ekki langt að bíða næstu kosninga. Pistill Egils á FB um kosningaúrslitin er eftirfarandi:
„Er það Flokkur fólksins sem ræður því hvaða ríkisstjórn tekur við völdum? FF er býsna illa skilgreinanlegur flokkur. Er hann til vinstri eða er hann til hægri? Afhroð vinstrisins er rosalegt. Samfylkingin vinnur sinn stóra sigur en restin af vinstrinu er í rúst. Þrír flokkar, Píratar, VG og Sósíalistar og enginn þeirra kemur manni á þing. Hlýtur að kalla á einhverja endurhugsun. Sjálfstæðisflokkur undir tuttugu prósentum er alveg nýr veruleiki – stórtap. Sigur Miðflokksins er minni en á horfðist í skoðanakönnunum – flokkurinn rak mjög skrítna kosningabaráttu sem var á mörkum einhvers konar skops. Samt er ekkert óhugsandi að flokkurinn verði í stjórn. D + M + F? Hver býður best í Ingu? Og hvað vill Viðreisn? Hún getur valið að vinna til hægri eða vinstri – en seinni kosturinn er ekki mögulegur án FF. Ný ríkisstjórn verður sennilega skrítin blanda, kannski mynduð af flokkum sem langar ekkert sérlega mikið að vinna saman og varla neitt sérlega stöðug. Getur maður spáð því að verði ekkert rosalega langt í næstu kosningar“