Þessa dagana er rykið að setjast eftir glysmiklar listakynningar stjórnmálaflokkana og skýrari mynd að teiknast af úrvali frambjóðenda sem munu prýða kjörseðlana í komandi kosningum.
Víðast hvar komust færri að en vildu á listum stjórnmálaflokkana. Hart var barist um sæti hjá Viðreisn, Sjálfstæðismönnum og Samfylkingunni, sem dæmi.
Hjá sósíalistum var þessu þó öfugt farið, en þar fengu fleiri sæti en vildu. Þrír frambjóðendur Sósíalista reyndust ekki hafa veitt samþykki fyrir framboði sínu, og voru því fjarlægðir af listum. Listar flokksins í tveimur kjördæmum verða því undirmannaðir í kosningunum.
Þá er orðið á götunni að kurr sé meðal Framsóknarmanna í Reykjavík eftir óumbeðnar frambjóðendagjafir frá kollegum þeirra í aðliggjandi kjördæmum.
Eins og alþjóð veit er Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi nýr oddviti Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi þrátt fyrir að vera alin upp í einbýlishúsi í Árbænum. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar gaf sætið sitt eftir og fékk mikið hól fyrir. Minna fór fyrir færslu Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur úr Suðurkjördæmi og til Reykjavíkur. Hafdís festi nýverið kaup á íbúðarhúsnæði á Selfossi og hefur verið þingmaður Suðurkjördæmis undanfarin ár.
Þá vekur það athygli að Hafdís Hrönn er tengdadóttir Sigurðar Inga formanns Framsóknar.
Þannig er Árbæingur nú oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi, og tengdadóttir formannsins frá Selfossi vermir annað sæti lista flokksins í Reykjavík.
Hún er þó ekki eini aðkomumaðurinn á Reykjavíkurlista flokksins, en Ásmundur Einar Daðason, oddviti í Reykjavík, er úr Dölunum í Norðvesturkjördæmi og festi nýverið kaup á glæsilegri fasteign í Mosfellsbæ sem er í Suðvesturkjördæmi.
Á eftir Hafdísi frá Selfossi og Dalamanninum í Mosfellsbæ á listanum er Brynja Dan sem er einmitt bæjarfulltrúi flokksins í Garðabæ. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum tefldi Framsókn fram Kópavogsbúanum Einari Þorsteinssyni sem endaði með því að Framsóknarmenn urðu sigurvegarar kosninganna og því kannski skiljanlegt að „stæla“ þá aðferð að fá utanbæjarmenn í verkin nú í komandi þingkosningum.
Þá er ónefndur Sunnlendingurinn Einar Bárðarson sem er í öðru sæti hjá Framsókn í Reykjavík suður en Einar hefur búið í Garðabæ um árabil en þaðan flutti hann af Suðurnesjunum.
Hvað ræður kjördæmarúllettu Framsóknarflokksins skal ósagt látið en næsta skref flokksins hlýtur að vera að leggja niður kjördæmaskipanina og gera landið að einu kjördæmi!