fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Brynjar segir áherslur framboðsflokka farnar að taka á sig mynd – „Þýðir ekki að vera einhver lurða að hætti fyrrverandi borgarstjóra“

Eyjan
Mánudaginn 4. nóvember 2024 14:45

Brynjar Níelsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður sem skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður í komandi alþingiskosningum segir að smátt og smátt sé stefna og helstu áherslur flokkanna í kosningunum að taka á sig mynd. Segir hann flokka í nauðvörn leita gjarnan í upprunann. 

Vg liðar hafa dregið upp úr skúffunni gamla frasa frá Marx og Lenín í þeirri von að fylgi Sósíalistaflokksins færist yfir til þeirra. Þá hafa þeir komist að því að landamærin eigi að vera opin fyrir öllum sem komast upp í flugvél og vandamálin sem því fylgir verði leyst með betri inngildingu. Ekki er hægt að segja að þetta fólk læri af reynslu annarra,“ segir Brynjar um Vinstri Græna. Hann segir Framsóknarflokkinn einnig í nauðvörn.

„Annar flokkur í nauðvörn, Framsóknarflokkurinn, veit ekki sitt rjúkandi ráð. Við þær aðstæður eru oft teknar hræðilega vitlausar ákvarðanir og ein af þeim er að taka upp stefnu No Borders í landamæramálum. Við gömlu framsóknarmennirnir supum hveljur og gamall framsóknarkvíði tekið sig upp. Það hefur aldrei farið framsóknarmönnum vel að vera róttækir eða reyna að vera nútímalegir. Álíka sannfærandi og að ég opnaði Only Fans reikning.“

Brynjar segir vinstri flokkana boða skattahækkanir og Samfylkingin muni trúlega ná árangri með þeim boðskap:

Samfylkingin ætlar að leita í smiðju ESB og boðar skattahækkanir, aukin útgjöld og meira regluverk, helst íþyngjandi, svo réttlætið nái fram að ganga. Aðrir vinstri flokkar eru á sama stað. Samfylkingin mun örugglega ná ágætis árangri með þennan boðskap því enn er fjöldinn allur af fólki sem heldur að skattahækkanir bitni bara á öðrum og hafi engin áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífsins, vöruverð, fjárfestingar og þar með tekjur ríkisjóðs til hins verra. Einnig margir sem trúa að skattahækkanir og íþyngjandi regluverk hafi engin áhrif á verðbólgu og vexti.“

Brynjar er greinilega ekki hrifinn af Pírötum, því hann gefur þeim ekki háa einkunn eða talar um málefni þeirra né stefnu:

„Píratar breytast lítið og tala áfram eins og börn sem aldrei hafa verið í samskiptum við fullorðna og örugglega ekki við afa og ömmur sem gætu miðlað til þeirra ýmsu úr reynslubankanum, til dæmis hvernig verðmæti verða til og mikilvægi vinnunnar.“

Brynjar deilir á Viðreisn fyrir að draga þungunarrof og atkvæðagreiðslu alþingis þar um inn í umræðuna:

„Viðreisn ætla að reyna selja almenningi frjálslyndi með því að afbaka það hugtak. Þess vegna hafa þeir í Viðreisn dregið inn í umræðuna þungunarrof fram að fæðingu sem eitthvert frjálslyndis og frelsismál kvenna. Það er nú samt þannig að frelsi okkar og réttindi breytast í skyldur þegar frjóvgað egg verður að barni, sama hvort það er í móðurkviði eða komið í heiminn. Viðreisn er ekkert öðruvísi en aðrir miðjuflokkar, sem halla sér iðulega til vinstri þegar kostur er.“

Segir hann Flokk fólksins eins manns flokks sem gefi loforð sem eru söluvæn:

„Flokkur fólksins eða flokkur Ingu, er ekkert öðruvísi en aðrir popúlískir eins manns flokkar, sem lofa hundruðum milljarða til ákveðinna hópa þótt sá peningur sé ekki til, jafnvel þótt ríkið tæki til sín meira og minna allan arð úr atvinnulífinu. En svona popúlismi hefur alltaf verið þokkalega söluvænn, sérstaklega þegar miklar tilfinningar eru sýndar.“

Miðflokkinn segir Brynjar óskrifað blað og líklegan til að taka upp slagorð Framsóknarmanna:

„Miðflokkurinn er svolítið óskrifað blað. Byggja að eigin sögn á skynsemishyggju og hafa fært sig í málflutningi aðeins til hægri í nokkrum málum, sem er greinilega að nýtast þeim og hið besta mál. En þegar rýnt er í það litla sem gerst hefur hjá þeim á þinginu blikkar alltaf græna framsóknarljósið, sem þeir kalla ljós skynseminnar. Kæmi ekki á óvart að þeir tækju upp eitthvert gamalt og gagnlegt framsóknarslagorð í kosningarbaráttunni.“

Brynjar botnar svo yfirferðina með eigin flokki og segir frambjóðendur hafa farið hægt af stað í kosningabaráttunni. Til að árangurs náist þurfi að tala skýrt, lofa ekki því sem ekki verður staðið við og sýna hugrekki. Ekki þýði að vera lurða líkt og Dagur B. Eggertsson láta traðka á sér.

„Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa farið hægt af stað og eru greinilega að leggja lokahönd á stefnu og áherslumál fyrir kosningarnar. Formaður flokksins hefur staðið í ströngu að leiðrétta rangfærslur um skattabreytingar ríkisstjórna síðasta áratuginn og um útlendingalöggjöfina og gert það bara ágætlega. En ef flokkurinn ætlar að ná árangri í þessum kosningum þarf að tala skýrt fyrir stefnunni, lofa ekki upp í ermina á sér og sýna hugrekki. Þýðir ekki að vera einhver lurða að hætti fyrrveranda borgarstjóra og láta traðka á sér endalaust.“

Einhver gæti haldið að niðurstaða þessarar vísindalegu greinar væri að við þyrftum fleiri flokka í framboð. En það er oftúlkun,“ klikkir Brynjar út með.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra