fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Baldur útskýrir mikið fylgi Trump

Eyjan
Mánudaginn 4. nóvember 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríkjamenn ganga til forsetakosninga á morgun og spennan þar vestra er gríðarleg. Frambjóðendurnir eru hnífjafnir í könnunum en undanfarið hefur sveiflan virst vera til Donald Trump en þó nokkrir stjórnmálaskýrendur segja fylgi hans ofmetið og segja Kamala Harris líklegri sigurvegara. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði og fyrrum forsetaframbjóðandi hér á Íslandi er staddur í Bandaríkjunum og birti fyrr í dag, á Facebook-síðu sinni, ítarlega greiningu á því hvers vegna um helmingur kjósenda ætlar sér, samkvæmt könnunum, að kjósa Donald Trump. Hann segir skýringuna ekki eingöngu liggja í áróðri og upplýsingaóreiðu eins og margir haldi fram:

„Mikið er gert úr áhrifum upplýsingaóreiðu, haturðsorðræðu og lygi Trumps. Uppspuni um að Demókratar hjálpi ekki þjóðinni þegar fellibyljir dynja yfir, þeir séu í átaki með transfólki innan skólakerfisins um að gera börn trans og stundi víðtækt kosningasvindl skila Trump eflaust einhverjum atkvæðum en eru tæpast altæk skýringin á víðtækum stuðningi við hann.“

Baldur segir málið hins vegar ekki svona einfalt:

„Þessi uppspuni hefur það helst í för með sér að ákafir stuðningsmenn Trumps fyllast eldmóði og flykkjast á götur og torg Bandaríkjanna til að tala hans máli. Samkvæmt könnunum trúir stór hluti Repúblikana þessu, sem og öðru bulli sem vellur upp úr Trump. Eigi að síður tel ég að stuðningur við Trump liggi dýpra í bandarísku samfélagi og eigi sér um margt hefðbundnar skýringar – skýringar sem hafa gagnast vel við að útskýra kosningahegðun í Bandaríkjunum síðastliðna öld.“

Sex atriði

Baldur nefnir sex atriði til að skýra fylgið við Trump. Fyrst af öllu sé um að ræða áherslu á klassíska bandaríska efnahagsstefnu sem snúist um frelsi markaðarins, takmörkuð ríkisafskipti og lága skatta á einstaklinga og fyrirtæki:

„Ríkisafskipti eru sem eitur í beinum stórs hluta kjósenda hvort sem þau ná til heilbrigðisþjónustu eða hins almenna markaðar. Óheft frelsi til nýsköpunar skiptir stjórnendur bandarískra fyrirtækja líka miklu máli og hefur nú leitt til þess að stór hluti Kísilsdalsins – sérstaklega tæknirisarnir – styðja nú Trump en hafa í gegnum tíðina stutt forsetaefni Demókrata. Skattar eru líka eitur í beinum flestra Bandaríkjamanna og stjórmálamenn hafa í gengum tíðina komið til móts við kröfur kjósenda um lága skatta.

Trump er með þetta allt meðan að Demókratar hafa á undanförnum árum verið tilbúnari en áður að hækka skatta til að fjármagna aukin útgjöld ríkisins í málaflokkum sem þeir leggja áherslu á eins og heilbrigðis- og samgöngumál og setja hömlur á risafyrirtæki og tæknirisa. Auk þessa hafa Demókratar ekki verið eins viljugir og áður að beita verndartollum til að styrkja stöðu bandarískra fyrirtækja í samkeppni þeirra við erlend fyrirtæki og vernda þar með bandarísk störf.
Trump mun tryggja að skattar verði ekki hækkaðir, takmarka ríkisafskipti og á sama tíma vernda störf.“

Draumurinn

Baldur segir að í öðru lagi snúist vinsældir Trump um hugmyndina um bandaríska drauminn, um frama og ríkidæmi, sem sá síðarnefndi geri mikið út á. Þessi hugmynd lifi enn góðu lífi í Bandaríkjunum.

Baldur nefnir því næst þær hugmyndir um frelsi sem Trump mæli fyrir:

„Trump notar hefðbundið þema í bandarískum stjórnmálum og talar fyrir frelsi meirihlutans – en leggst um leið gegn frelsi einstaklinga í minnihlutahópum. Þeir síðarnefndu eru hættulegir meirihlutanum að hans sögn því að þeir ganga á frelsi hans. Minnihlutahóparnir vilja komast fremst í röðina – komast fram fyrir meirihlutann í röðinni. Þeir spila ekki með hinu hefðbundna samfélagi og ætla sér að svindla sér í röðina. Í sögunni hefur verið talað svona um svarta, margra hópa innflytjanda og trúarhópa, hinsegin fólk og nú síðast trans fólk.“

Þessu tengt sé sú viðleitni Trump að ala á ótta fólks. Trump tali einnig fyrir klassískri bandarískri íhaldsstefnu sem snúist um kristna trú, hefðbundin fjölskylduform, feðraveldið, aukna löggæslu, baráttu gegn glæpum og réttinn til að verja sig. Það sem sé nýtt sé að Demókratar hafi gengið meira gegn þessari stefnu en áður:

„Það sem er nýtt í bandarískum stjórnmálum er að Demókratar tala meira en nokkru sinni fyrr fyrir frjálslyndi í trúmálum, ólíkum fjölskylduformum, rétti kvenna til að ráða sér sjálfar og sínum líkama, og takmörkun á byssueign almennings. Demókratar hafa færst verulega til vinstri og eiga erfitt með að höfða til kjósenda á miðjunni hvað þá þeirra sem eru staðsettir hægra megin við miðju.“

Fimmta skýringin segir Baldur vera áherslu Trump á aukna einangrunarstefnu í utanríkismálum, fyrir utan að halda áfram að verja Ísrael.

Að skipta um með ofbeldi

Sjötta og síðasta skýringin sem Baldur varpar fram á fylgi Donald Trump er að þeirri hugmynd hafi vaxið ásmegin í Bandaríkjunum að það sé í lagi að beita ofbeldi í því skyni að skipta um valdhafa:

„Að lokum, þá er helst að nýjunga gæti hjá Trump þegar hann boðar að skipta megi um valdhafa í Bandaríkjunum með ofbeldi. Rannsóknir sýna að frá því um síðustu aldamót hefur verið vaxandi stuðningur meðal bandarískra kjósenda og valdhafa fyrir því að réttlætanlegt geti verið að skipta um valdhafa með ofbeldi.“

Margir hafa óttast að lýðræðið í Bandaríkjunum lendi í bráðri lífshættu sigri Trump í kosningunum. Baldur segir að  lokum í þessari ítarlegu greiningu sinni, sem hægt er að lesa í heild sinni hér fyrir neðan, að það sé spurning sem mögulega þurfi að svara þegar líður á vikuna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn“

„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn“