fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Verða fjórir flokkar efstir með svipað fylgi í kosningunum?

Eyjan
Mánudaginn 4. nóvember 2024 11:02

Kristrún, Þorgerður og Sigmundur Davíð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að það stefni í að fjórir flokkar gætu orðið í efstu sætum í kosningunum þann 30. nóvember með svipað fylgi, á bilinu 16-18 prósent hver flokkur.

Morgunblaðið birtir nú vikulega niðurstöður kannana Prósents sem gerðar eru í sömu viku, frá mánudegi til fimmtudags. Svo er niðurstaðan birt á föstudögum og útfærð í laugardagsblaðinu.

Það góða við þessar kannanir er að þær sýna „punktstöðu“ í viðhorfi fólks sem mest er að marka í aðdraganda kosninga. Kannanir sem ná yfir lengri tíma, t.d. heilan mánuð, segja ekki eins mikið um líkur á úrslitum kosninga eins og þær kannanir sem gerðar eru svo nærri eins og kannanir Morgunblaðsins. Full ástæða er því til að rýna vel í vikulegar kannanir Prósents fram að kosningum eftir tæpar fjórar vikur.

Ef bornar eru saman kannanir Prósents, sem birtar voru annars vegar þann 25. október og hins vegar þann 1. nóvember, kemur í ljós að fylgið hreyfist milli kannana á eftirtektarverðan hátt. Samfylkingin heldur áfram að tapa fylgi, úr 24,2 í 22,3 prósent milli þessara kannana. Orðið á götunni er að það þurfi alls ekki að koma á óvart miðað við þau mistök sem flokkurinn hefur verið að gera að undanförnu. Munar þar að sjálfsögðu mest um klúður formannsins vegna Dags B. Eggertssonar. Ætla má að vandræðagangur flokksins vegna þess haldi áfram, enda er greinileg undiralda innan flokksins vegna þessa. Miðflokkur tapar 1,7 prósentustigum milli kannana og vilja margir rekja það til þeirrar staðreyndar að flokkurinn teflir nú fram öllum þeim sem urðu sér til skammar á Klausturbar fyrir sex árum eins og frægt var. Orðið á götunni er að uppstilling þeirra allra á lista flokksins hafi truflað einhverja kjósendur.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir hins vegar við sig 0,8 prósentustigum á milli kannana og mælist með 14,1 prósent í nýjustu könnun Prósents. Viðreisn er á mestri siglingu og bætir við sig 3,5 prósentustigum milli kannana og mælist með 18,5 prósenta fylgi samkvæmt könnun Prósents frá síðustu viku. Hvorugur þessara flokka hefur verið að gera nein mistök enn sem komið er í kosningabaráttunni þótt hjaðningavíg sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi er varaformanni flokksins var komið fyrir í sæti þar er hún flúði sitt gamla kjördæmi dragi vísast dilk á eftir sér.

Orðið á götunni er að í þeirri stuttu en snörpu kosningabaráttu sem standa mun næstu fjórar vikur muni þeir sigra sem gera fæst mistökin. Ekki er búist við neinum kosningabombum á þessum stutta tíma og ekki er gert ráð fyrir að neinn flokkur komi fram með slagorð sem gæti haft mikil áhrif. Gárungarnir tala þó um að óhætt væri að tala um slagorð fyrir Framsókn sem gæti verið HOLAN Í VEGINUM, en formaður flokksins hefur haft mest með vegamálin að gera í fráfarandi ríkisstjórn og skilar nú af sér með vegakerfi landsins í afleitu ástandi þar sem vegir eru víða beinlínis hættulegir vegna viðhaldsleysis en vanrækt viðhald veldur vanda.

Fróðlegt verður að sjá hvernig næsta könnun Prósents muni líta út. Má ætla að sjónvarpsþáttur RÚV með formönnum allra flokka muni hafa mikil áhrif? Orðið á götunni er nei. Þetta fundarform er vitanlega vonlaust en reynir samt á þá sem kallaðir eru til. Fátt bar til tíðinda í þessum rúmlega tveggja tíma þætti og hann mun trúlega ekki breyta neinu um fylgi flokka. Samfylkingin getur ekki vænst þess að áhrifa frá klúðursmálum formannsins sé hætt að gæta. Fylgi flokksins gæti haldið áfram að leka niður, en ekki er langt síðan Samfylkingin mældist með nærri 30 prósent í könnunum en nálgast nú 20 prósentin. Miðflokkurinn hristir væntanlega af sér þau ónot sem upprifjun Klaustursmála hefur haft í för með sér. Sjálfstæðisflokkurinn bætir ávallt við sig fylgi í aðdraganda kosningu, hvernig sem andrúmsloftið annars er í kringum flokkinn. Viðreisn er á flugi sem flokkurinn mun ekki missa fram að kosningum ef hann gerir engin alvarleg mistök í kosningabaráttunni.

Orðið á götunni er að þessir fjórir flokkar fái mest fylgi í kosningunum og verði með á bilinu 16-18 prósent hver flokkur en aðrir flokkar fái miklu minna fylgi.

Gangi þetta eftir er orðið á götunni að í kjölfar kosninganna muni þrír af þessum fjórum flokkum mynda næstu ríkisstjórn. Óvíst er hverjir það yrðu en allt getur gerst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”