Hannes Þór Halldórsson landsliðsmarkvörður er einn af fáum núlifandi markvörðum í heiminum sem varið hefur vítaspyrnu frá Messi í landsleik í Heimsmeistarakeppni. Hannes lék 77 landsleiki fyrir Ísland og er trúlega frægasti landsliðsmarkvörður Íslandssögunnar.
Bókaútgáfan Bjartur hefur nú gefið út endurminningar Hannesar sem Magnús Örn Helgason skrifaði. Um er að ræða 400 blaðsíðna bók sem er mikið myndskreytt og vönduð að allri gerð. Saga Hannesar er merkileg og að ýmsu leyti frábrugðin sögu margra afreksmanna í knattspyrnu því hann hefur farið sínar eigin leiðir, tekist á við mótbyr, notið mikillar velgengni og jafnframt komið sér upp áhugaverðu lífsstarfi á sviði kvikmyndagerðar um það bil sem knattspyrnuferlinum lauk.
Hannes á glæsilegan markmannsferil að baki bæði á Íslandi og sem atvinnumaður í nokkrum löndum erlendis. Hann glímdi við erfið meiðsli á unglingsárum þannig að knattspyrnuferill hans hékk oft á bláþræði. En honum tókst að yfirvinna erfiðleikana og náði hægt og bítandi á toppinn. Hannes lék fyrst með Leikni, þá með Fram og varð svo Íslandsmeistari bæði með KR og Val.
Samhliða atvinnumannsferli í nokkrum löndum varði hann mark Íslands í áratug og var hluti af sigursælasta landsliði Íslandssögunnar í knattspyrnu. Ferillinn náði hámarki þegar karlalandsliðið náði sögulegum árangri á EM 2016 og HM 2018 þar sem Hannes varði m.a. vítaspyrnu frá Lionel Messi, besta knattspyrnumanni allra tíma að margra mati. Þá var hann lykilmaður í landsliði sem taldi auk Hannesar menn eins og Gylfa Þór, Aron Einar, Jóhann Berg, Alfreð, Kolbein, Kára, Ragnar og Birki Má.
Í bókinni er einnig fjallað um störf Hannesar í kvikmyndaiðnaðinum en hann hefur meðal annars leikstýrt bíómyndinni Leynilögga og sjónvarpsþáttaröðinni Iceguys sem slegið hefur í gegn.
Höfundur bókarinnar er Magnús Örn Helgason. Hann hefur áður skrifað bókina Óstöðvandi um knattspyrnukonuna Söru Björk Gunnarsdóttur sem kom út árið 2019. Sara Björk á að baki flesta landsleiki í kvennaknattspyrnu á Íslandi. Magnús Örn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist síðan sem íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur starfað sem þjálfari yngri landsliða kvenna hjá KSÍ en gegnir nú stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá Gróttu á Seltjarnarnesi.
Bókin um Hannes er mikill fengur fyrir hina fjölmörgu áhugamenn um knattspyrnu á Íslandi enda er hún lipurlega skrifuð, aðgengileg, vönduð og vel gerð í alla staði.
Saga Hannesar ætti að vera ungu fólki hvatning til dáða og sýnir að baráttuvilji og markviss vinnubrögð geta skilað fólki langt.