fbpx
Miðvikudagur 01.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Eyjan
Föstudaginn 29. nóvember 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel enda erum við manneskjurnar gangandi vitnisburður un sköpunarverkið sjálft. Það er meðfætt í mannkyninu að viðhalda sjálfu sér enda vill það sem er til, vitanlega halda áfram að vera til.

Allt sem þú raunverulega vilt að vaxi og dafni, vex og dafnar. Allt sem það þarfnast er athygli þín og ástúð og einlæg ósk um framgang þess.

Það er gaman að fá að vera til í alheiminum og fá að smakka á lífinu, bæði því ljúfa og því erfiða. Allt eru þetta kennslustundir sem færa okkur nær okkur sjálfum eða fjær.

Þess vegna eru bænir okkar og óskir ekki bara eitthvað út í bláinn. Þegar við viljum eitthvað sem kemur okkur sjálfum og öðrum til góða, þá reynir alheimurinn eftir fremsta megni að verða við þeim óskum okkar. Til þess að viðhalda sköpunarverki sínu og helst þannig að sköpunarverkinu líði og dafni sem best.

Við höfum alltaf val.

Á ég ekki alltaf að biðja um það sem kæmi mér og öðrum best? Segir það sig ekki sjálft?

Hvers vegna ætti ég að velja fremur það sem væri næstbest eða jafnvel það sem ekki er alls kostar gott, fara sum sé á svig við betri vitund og hundsa minn einlæga og góða vilja?

Allar manneskjur vilja innst inni öllum vel þótt þær efist kannski um það á stundum að umhyggja fyrir öðrum sé fararinnar virði. Það vill enginn ganga einn.

Hvers vegna ættum við nokkurn tímann á fara á svig við eigin sannfæringu? Það er ekkert annað en trúnaðarbrot og svik við eigið innræti og það sem maður er viss um að er manni og öðrum fyrir bestu.

Ef maður fylgir sannfæringu sinni heilshugar þá getur maður alltaf verið sáttur við sjálfan sig jafnvel þótt það að fylgja hjartanu skili ekki endilega þeirri útkomu sem maður hefði svo gjarnan viljað. Því fleiri sem fylgja sannfæringu sinni því betra, því í grunninn vilja allir betri heim fyrir alla þótt stundum velji fólk að fara af því spori til að takast á við erfiðar kennslustundir tímabundið.

Ef maður fylgir hugsjón sinni og velur með hana að leiðarljósi þá heyrir alheimurinn það og meðtekur þann góða vilja.

Ef maður velur þvert gegn sínum vilja þá kemur það í veg fyrir framfarir og framgang þess sem gæti orðið til farsælla framfara, það hamlar sum sé breytingum. Það viðheldur því sem verður að breytast svo þér og öðrum megi farnast betur.

Hinn hreinskilni góði vilji fær þá ekki að heyrast og þaðan af síður raungerast.

Ef við treystum ekki á innsæið, ræktum ekki hugsjónir okkar, heldur látum leika á óskir okkar og þrár, þá gæti farið svo að við veljum á grunni upplýsinga sem gætu verið rangar og villandi og við setið uppi með óbragð í munni yfir að hafa ekki fylgt sannfæringu okkar. Að hafa svikið okkar eigin raunverulega vilja.

Af hverju ættum við nokkurn tímann að gera það? Við vitum fullvel hvað okkur líkar og hvað okkur mislíkar og við eigum að treysta því að við vitum best og velja samkvæmt því.

Ef þú óskar eftir breytingum á því sem er úr sér gengið og óviðráðanlegt, ef þú biður um framfarir sem myndu gera þér lífið auðveldara og ánægjulegra, þá ertu í raun að óska öðrum þess sama.

Ekki hræðast að setja fram þínar raunverulegu óskir og bænir og standa við þær. Ef við fylgjum hjartanu og veljum með því þá endurspeglar alheimurinn það margfalt til baka.

Þegar ég nýti kosningarétt minn er ekki alltaf að finna nákvæman samhljóm eða samröddun með mínum hugsjónum, bænum og óskum. Ég leita eftir því sem kemst næst því og vel það sem ég trúi að sé mér og öðrum fyrir bestu.

Ég myndi aldrei velja eitthvað það sem mér líkar ekkert sérstaklega vel við eða til þess eins að klekkja á öðrum. Mér dettur það bara ekki í hug!

Ég trúi því bókstaflega að með því að setja fram óskir mínar eftir bestu getu og með hjartanu, með því að kjósa þau sem ég finn mestan samhljóm með hið innra þokist heimurinn í rétta átt.

Mitt lið þarf ekki að sigra. Markmiðið er ekki sigur heldur skref í rétta átt.

Að ógleymdri sáttinni við sjálfan sig.

Í aðdraganda kosninga leita ég eftir hjartalagi fólksins sem býður sig fram. Trúi ég því að þar séu raunverulega hugsjónir að baki? Treysti ég þessu fólki til að standa með öðrum hvað sem á bjátar?

Ég leita eftir glampanum í augunum, eldinum í brjóstinu, hlýrri manngæsku og ástinni til annarra sem birtist sem vitni í andlitum þeirra sem gefa kost á sér í komandi kosningum.

Það er það eina sem skiptir mig máli og þess vegna kýs ég með hjartanu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
19.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
11.11.2024

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
EyjanFastir pennar
10.11.2024

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni