Í síðustu þingkosningum voru umhverfismál eitt af stóru málunum en núna telja fáir að svo sé. Nú eru það efnahagsmálin, enda finnur fólk vel fyrir því á buddunni þegar verðbólgan og vextirnir eru háir. Það mun ráða miklu um næstu stjórnarmyndun hvort flokkarnir á þingi verða sex eða níu eftir kosningar. Agnar Freyr Helgason og Eva H. Önnudóttir, stjórnmálafræðikennarar við Háskóla íslands eru gestir Ólafs Arnarsonar í kosningasjónvarpsþætti á Eyjunni.
„Það hvort að þessir þrír flokkar, sem núna dansa við þennan fimm prósent þröskuld, það hvort þeir komist yfir þröskuldinn mun hafa gífurlega mikil áhrif á stjórnarmyndunarviðræður,“ segir Agnar Freyr. „Við gætum staðið frammi fyrir því að það væru bara sex flokkar á þingi eftir kosningar eða það gætu verið níu flokkar. Það hefur náttúrlega mikil áhrif á stjórnarmyndunarviðræður.“
„Mig langar að bæta einu við, varðandi taktískar kosningar og þetta gerbreytta flokkalandslag sem við búum við eftir hrun,“ segir Eva. „Þróunin byrjaði svona 2013 þegar flokkunum byrjaði að fjölga á þingi. Með þessari fjölgun flokka hefur flokkalandslagið gerbreyst. Það er erfiðara að mynda ríkisstjórn. Við sjáum líka og fjöllum um það í bókinni um kosningarnar 2021, sem var að koma út, hvað það er sem hefur mjög mikil áhrif á það hvað fólk kýs, og það eru málefnin.“
Hún segir að forgangsröðunin og hvort fólk stendur markaðs megin eða félagshyggju megin, og svo er það menningar ásinn, hvort fólk er þjóðlegir íhaldsmenn eða frjálslyndir alþjóða sinnar. „Af því að við vorum að tala um taktískar kosningar og við erum líka stundum að tala um hvort persónur skipti máli. Það sem við sjáum í þessari bók er að það eru fyrst og fremst málefnin sem ráða för. En núna hafa kjósendur markaðshyggju megin miklu fleiri kosti en þeir höfðu áður. Núna eru markaðshyggjuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Viðreisn og Lýðræðisflokkurinn, þannig að núna eru þessir flokkar að keppa um þetta fylgi.
Annað sem mig langaði að nefna líka í þessu samhengi er að með svona fjölgun flokka og breytt flokkalandslag er að þessir fjórir gömlu flokkar, það hefur tekið þá svona mislangan tíma á að átta sig á því að við erum komin með margbrotnara flokkakerfi. Agnar var að segja áðan að vaninn væri sá að flokkar gengju óbundnir til kosninga. Það er kannski komið að þeim tímapunkti að þeir þurfa að fara að gefa aðeins meira út fyrir kosningar með hverjum þeir vilja vinna, annað heldur en að þeir ætli að vinna með þeim sem þeir geti náð samkomulagi við. Þessi kosningabarátta hefur verið dálítið mikið um svona alls konar. Það eru efnahagsmálin, húsnæðismálin og heilbrigðismálin, auðvitað mjög mikilvæg mál. Svo er líka verið að tala um einstaka frambjóðendur, það hafa verið uppákomur og þetta hefur verið svona kakófónía fyrir mörgum, kannski, þannig að við vitum eiginlega ekki enn þá um hvað þessar kosningar eru.“ Eftir kosningar telur hún að erfitt verði fyrir flokkana að koma og segja að þær hafi snúist um einhver tiltekin mál og stjórnarmyndun eigi að vera um það. Þannig hafi flokkarnir nokkuð frjálst spil enn þá þótt þeir séu búnir að átta sig á því að t.d. fráfarandi stjórnarmynstur sé ekki heppilegt.
Agnar Freyr segir að þótt nokkuð hafi verið rætt um t.d. útlendingamál og hælisleitendamál þá séu þau ekki í miklum forgangi hjá flestum kjósendum. Þessar kosningar snúist um efnahagsmál og það sé nokkuð sem gerist þegar efnahagsmálin séu ekki í lagi. Þegar kjósendur séu spurðir núna um það hver séu helstu málin svar mjög fári því að umhverfismálin séu stóra málið, sem síðast hafi verið eitt af stóru málunum fjórum. „Það er náttúrlega bara mjög klassískt að þegar herðir að þá er það buddan sem hefur mikil áhrif og fólk finnur fyrir áhrifum verðbólgunnar og vaxtanna á veskið sitt.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.