fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

„Sérhagsmunavarsla sem þessi getur framkallað hamfarir af mannavöldum og valdið skaða sem seint eða aldrei fæst bættur“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 28. nóvember 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB, vara við einkavæðingu í velferðarþjónustu. Slík þróun sé ekki að kröfu notenda þjónustunnar heldur frá þeim sem gætu hagnast af einkarekstri. Einkavæðing auki ekki hagkvæmni í rekstri, hefur aukinn kostnað í för með sér við eftirlit og hætt er við að ójöfnuður í aðgengi að þjónustu aukist og gæði þjónustu dvíni.

Þetta kemur fram í aðsendri grein þeirra Finnbjörns og Sonju, sem birtist hjá Vísi í dag.

Bjarni gefi lítið fyrir varnarorð Svía

„Á sameiginlegum kosningafundi ASÍ og BSRB með forystufólki stjórnmálaflokkanna mánudaginn 18. nóvember kom fram skýr vilji núverandi starfsstjórnarflokka að halda áfram á braut einkavæðingar í velferðarþjónustu. Þótt vissulega megi fagna því að íslenskir stjórnmálaleiðtogar áræði að láta skoðanir sínar í ljós og tala fyrir stefnumálum sínum er mikilvægt að spyrja sig hvaðan þessar hugmyndir koma og hverjir það eru sem kalla eftir markaðsvæðingu þjónustunnar, hvort almannahagsmunir séu í forgrunni og hvaða afleiðingar það getur haft sé litið til reynslu annarra þjóða.“

Á þessum fundi var spilað myndband þar sem þekktur sænskur sérfræðingur gerði grein fyrir hörmulegri reynslu Svía af einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu. Sérfræðingurinn varar Íslendinga eindregið við því að feta sömu braut. Afleiðingar fyrir Svíþjóð hafi verið vaxandi ójöfnuður í heilbrigðiskerfi sem almenningur fjármagnar.

Finnbjörn og Sonja reka að á fundinum hafi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, lítið gefið fyrir þessi varnarorð. Hann vísaði myndbandinu algjörlega á bug. Íslendingar þekki aðstæður hér mun betur en Svíar.

„Þessi orð forsætisráðherrans enduróma afstöðu margra skoðanasystkina hans í aðdraganda fjármálahrunsins 2008 þegar því var m.a. haldið fram að þekktir sérfræðingar um fjármál og bankarekstur þyrftu á endurhæfingu að halda því þeir skildu ekki „íslenska efnahagsundrið“. Afleiðingar þess hroka sem forystufólk í íslenskum stjórnmálum sýndi af sér í aðdraganda hrunsins eru öllum kunnar. Við skulum minnast þess að þetta fólk, ásamt eigendum bankanna, kallaði gríðarlegan efnahagslegan og félagslegan skaða yfir samfélagið og neitaði síðan í fullkominni forherðingu að gangast við ábyrgð á eigin gjörðum.

Þjóðin öll hlýtur að vona að þar hafi lágpunkti íslenskra stjórnmála loksins verið náð.“

Einkavæðing ellinnar

Á sama fundi hafi Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknar, lýst yfir mikilli ánægju með framgöngu heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, sem þó hafi ákveðið án samráðs að „kollvarpa kerfi hjúkrunarheimila í landinu“ með því að fá einkafyrirtæki til að byggja heimilin og leigja út til ríkisins. Finnbjörn og Sonja kalla þetta fyrirkomulag óheilbrigt þar sem ríkið verði klárlega í afleitri samningsstöðu þar sem rekstraraðilar muni eiga húsnæðið og setja upp leiguverð í samræmi við arðsemiskröfu sína.

„Þessi „einkavæðing ellinnar“ er liður í áformum peningaaflanna um stórfellda markaðsvæðingu í heilbrigðis- og velferðarþjónustu í landinu, með stuðningi þeirra stjórnmálaflokka sem telja markaðinn leysa allan vanda. Það er af þessum sökum sem forsætisráðherrann vísar með þjósti á bug vel ígrunduðum og rökstuddum viðvörunum sænsku sérfræðinganna og fjármálaráðherrann lýsir því yfir að augljós einkavæðing sé ekki einkavæðing.“

Þau telja ljóst að tilgangurinn með einkavæðingu, eða einkarekstri, í heilbrigðiskerfinu sé klárlega ekki að bæta þjónustu við landsmenn heldur að tryggja peningaöflum greiðan aðgang að ríkissjóði Íslendinga.

„Hagnaður fárra útvaldra á þannig að vega þyngra en almannahagsmunir og af þeim sökum láta viðkomandi sér í léttu rúmi liggja þótt sýnt sé fram á að einkavæðing innan heilbrigðiskerfisins í Svíþjóð hafi getið af sér vaxandi ójöfnuð á milli þéttbýlis og dreifbýlis, á milli hópa sjúklinga eftir eðli veikinda þeirra og á milli hátekju- og lágtekjuhópa.

Reynslan kennir Íslendingum að sérhagsmunavarsla sem þessi getur framkallað hamfarir af mannavöldum og valdið skaða sem seint eða aldrei fæst bættur. Einnig að markmiðasetning sem gengur út frá því einu að lækka kostnað en ekki að tryggja jafnt aðgengi að þjónustunni og gæði hennar er skaðleg. Með því að fylgja siðferðisáttavitanum er von til þess að almannahagsmunir verði varðir.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Evrópumálin: Gangi Noregur inn í ESB verður Ísland líka að ganga inn – hinn kosturinn er efnahagsleg hnignun

Evrópumálin: Gangi Noregur inn í ESB verður Ísland líka að ganga inn – hinn kosturinn er efnahagsleg hnignun
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn