Þær raddir hafa orðið háværari undanfarna daga að það sé góður möguleiki á því að Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins muni mynda ríkisstjórn eftir kosningar sem fram fara á laugardaginn en samkvæmt könnunum er vel mögulegt að flokkarnir þrír nái meirihluta á þingi. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið vel í mögulegt samstarf með Miðflokknum og einnig Flokki fólksins. Inga Sæland formaður síðastnefnda flokksins vísaði slíkum hugmyndum hins vegar á bug í gærkvöldi í kappræðum Heimildarinnar.
Í viðtali á Stöð 2 fyrr í vikunni sagði Bjarni að hann væri spenntastur fyrir stjórnarsamstarfi með Miðflokknum en sagði þetta um þann möguleika að Flokkur fólksins yrði með í því samstarfi:
„Flokkur fólksins mögulega sem er þarna að berjast fyrir grundvallarréttindum þeirra sem hafa ekki náð að byggja upp sterkan lífeyrissjóð yfir starfsævina.“
Í kosningasjónvarpi Eyjunnar í gær bentu stjórnmálafræðingarnir Eva H. Önnudóttir og Agnar Freyr Helgason á að það sé ein stærsa spurningin um úrslit kosninganna hvort þessir þrír flokkar muni ná þingmeirihluta. Bentu þau bæði á að það væri ekki óbrúanleg gjá milli málflutnings Flokks Fólksins og hinna flokkanna tveggja sem eru yfirleitt skilgreindir sem hægri flokkar. Áherslur Flokks fólksins séu nokkuð til vinstri í velferðarmálum en flokkurinn vísi ekki markaðslausnum á bug í þeim málaflokki eins og vinstri flokkar geri gjarnan. Flokkur fólksins halli sér aftur á móti til hægri í sumum málum eins og t.d. þegar kemur að hælisleitendum.
Í kappræðum á vegum Heimildarinnar í gærkvöldi vísaði Inga hins vegar hugmyndum um stjórnarsamstarf hennar flokks við Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn á bug. Þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagði teikn á lofti um stjórnarsamstarf flokkanna þriggja svaraði Inga einfaldlega:
„Gleymdu hugmyndinni.“