fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Eyjan

Húsnæðisvandinn er óleysanlegur – ef við lærum ekki lexíu Hrunsins

Eyjan
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024 14:02

Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum árum síðan benti greinahöfundur á að besta byggingarland Reykjavíkur væri á landi Keldna.  Þar er stórt autt svæði í eigu ríkisins, ódýrt að byggja og stutt í stofnbrautir. Tekið var vel í hugmyndina, en síðan fjaraði undan áhuganum þar til á endanum var ákveðið að nota söluvirði landsins til að fjármagna borgarlínu og að ekki ætti að byggja þar fyrr en borgarlínan væri komin. Leiðin til að lækka húsnæðisverð með hraðri uppbyggingu Keldna varð því aldrei að veruleika og var stolið af þeim sem vildu dýra hæga uppbyggingu meðfram borgarlínunni og viðhalda háu húsnæðisverði.

En af hverju vildu menn ekki byggja strax og lækka húsnæðisverðið?

Lexía hrunsins

Ástæðuna má finna í lexíu hrunsins 2008. Í uppgjöri Hrunsins kom í ljós að sveitarfélögin höfðu eytt langt um efni fram. Útsvar kjörtímabilsins dugði sjaldnast fyrir loforðunum og því var búin til mjólkurkú gegnum fasteignabrask.  Eignir bæjarins voru seldar til fyrirtækisins Fasteign, sem á móti gerði langtímaleigusamning oft í erlendri mynt um að leigja eignina til baka til sveitarfélagsins.  Sveitarfélögin fengu fullar hendur fjár og gátu eytt að vild með að skuldbinda komandi kynslóðir.

Eftir hrunið kom upp umræða um að svona skuldsetning eða skuldbinding sveitarfélaga mætti aldrei eiga sér stað. Í Danmörku væru  t.d. mun strangari reglur um fjármál sveitarfélaga sem gerir lántökur erfiðari, en á móti var meiri sveigjanleiki til að hækka skatta. Slíkt heldur eðlilega meira aftur af loforðaflaumnum því stjórnmálamenn sem hækka skatta eru ekki vinsælir.

Staðan í dag

Lítið af þessu virðist hafa verið gert. Eyðsla íslenskra sveitarfélaga er áfram stjórnlaus. Mathöllin Hlemmur, bragginn, leikskólinn með torfþakinu og lengi má telja verkefnin. Þegar kemur að því að eyða skattfé, skortir stjórnmálamenn sjaldan ímyndunarafl og aldrei er neinu sparað til.  Á sama tíma hefur verið virkjuð gamla aðferð Hrunsins til að fjármagna partíið: Hækkun fasteignaverðs. Í hvert sinn sem Félagsbústaðir hækka í verði vegna hækkunar  fasteignaverðs, tekur Reykjavíkurborg nýtt lán.

Ef fasteignaverð lækkar, lenda slík sveitarfélög strax í vandræðum. Fasteignalánin fást ekki lengur og önnur fjármögnun verður dýrari.  Viðvarandi hækkun fasteignaverðs er eina vörnin sem óábyrg sveitarfélög hafa til að reksturinn fari ekki á hliðina.

Lausnin

Það hljóta allir að sjá að það fer ekki saman að sveitarfélög með slíka hagsmuni skuli ein stýra uppbyggingu nýrra svæða. Núverandi ástand þar sem eingöngu er reynt að byggja á dýrustu þéttingareitunum til að viðhalda háu fasteignaverði er birtingarmynd þessara annarlegu hagsmunatengsla.  Ofuráhugi borgaryfirvalda á borgarlínunni, sem kallar á að byggja þarf hús fyrir flesta viðskiptavinina á dýrustu svæðum meðfram borgarlínunni er önnur birtingarmynd.

Það er kominn tími til að þessu linni. Tekjuöflun sveitarfélaga gegnum fasteignabrask er ekki viðurkenndur tekjustofn í lögum.  Þeirra hlutverk á að vera að þjónusta þegnana og  tryggja að nægt lóðaframboð hagkvæmra lóða sé ávallt til staðar svo að fasteignaverð rjúki ekki upp og lífskjör hér á landi hrynji.  Við verðum að læra af nágrannaþjóðum og byrja að taka skuldsetningu sveitarfélaga mun fastari tökum og aftengja alla annarlega hvata sveitarfélaga í tekjuöflun svo þau hagnist ekki á því að spenna upp fasteignaverð.

Þegar viljinn til að fara í alvöru aðgerðir er kominn, verður mun auðveldara að færa fasteignaverð aftur til fyrra horfs með aukinni uppbyggingu á ódýrum svæðum.  Með tengingu Laugarnesganga við Kjalarnesið opnast stór ný byggingarsvæði í 10 mínútna fjarlægð frá miðbænum.  Með tengingu Laugarnesganga til Grafarvogs gegnum Viðey, opnast lika á stór landsvæði og umferðarvandamál Sæbrautar verða úr sögunni.

En áður en hægt er að fara í slíkt, þarf að koma böndum yfir sveitarfélögin svo þau sýni ábyrgð og fari aftur að sinna hlutverki sínu. Sá sem ekki vill læra af sögunni er dæmdur til að endurtaka mistök fortíðar. Það er komin tími á ábyrgð aftur í íslensk stjórnmál.

 

Höfundur er formaður Ábyrgrar framtíðar og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi Norður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði