Athygli hefur vakið að nú á lokametrum kosningabaráttunnar virðast auglýsingar stjórnmálaflokkanna víkja fyrir umfangsmikilli og vel fjármagnaðri auglýsingaherferð frá „Áhugafólki um traust í stjórnmálum“ sem beint er gegn Degi B. Eggertssyni frambjóðanda Samfylkingarinnar með óvenju rætnum hætti. Ábyrgðarmaður auglýsinganna er skráður Hilmar Páll Jóhannesson sem hefur staðið í deilum við Reykjavíkurborg vegna lóðamála í Gufunesi.
Orðið á götunni er að auglýsingaherferðin, sem keyrð er af krafti í ljósvakamiðlum, blöðum, netmiðlum, kvikmyndahúsum og raunar alls staðar þar sem hægt er að birta auglýsingar, kosti ófáar milljónir og hlaupi reyndar á 10-20 milljónum nú þegar. Slíkt sé ekki á hvers manns færi. Ólíklegt sé að Hilmar standi sjálfur undir slíkum útgjöldum, enda er hann í vanskilum með lóða- og gatnagerðargjöld við Reykjavíkurborg og verið er að rifta lóðarsamningum við hann vegna þeirra.
Margir muna eftir áþekkri auglýsingaherferð sem „aðgerðarhópurinn“ „Björgum miðbænum“ stóð fyrir í janúar 2021. „Aðgerðarhópurinn“ reyndist samanstanda af Bolla Kristinssyni, auðmanni sem áður var kenndur við verslunina Sautján, og Vigdísi Hauksdóttur, sem þá var oddviti Miðflokksins í borgarstjórn. Bolli borgaði auglýsingarnar og Vigdís las inn á þær.
Orðið á Götunni er að mikill ættarsvipur sé með skítkastsauglýsingum Bolla Kristinssonar fyrir fjórum árum og auglýsingum Hilmars Páls Jóhannessonar nú, sem ráðast gegn persónu og heiðri Dags á rætinn og ósvífinn hátt.
Auglýsingar Bolla í ársbyrjun voru honum til lítils sóma og urðu til þess að hann var almennt fordæmdur fyrir smekkleysuna. Síðan hefur hann haft hægt um sig. Orðið á götunni er að honum hafi þó síður en svo snúist hugur gagnvart Degi B. Eggertssyni. Hann hafi hins vegar áttað sig á því að óskynsamlegt væri að bendla hans eigið nafn við árásir af þessum toga og fundið í Hilmari Páli nytsamlegan sakleysingja sem haldinn væri sömu þráhyggju gagnvart Degi og Bolli sjálfur. Það staðfesti síðan tengslin að Vigdís Hauksdóttir, félagi Bolla í „Björgum miðbænum“ frá 2021, hefur komið fram sem lögfræðingur Hilmars Páls.
Eitt frægasta dæmið um ófrægingarherferð af þessu tagi er þegar nokkrir sjálfstæðismenn tóku sig til og birtu heilsíðuauglýsingar í blöðum með svívirðingum um Ólaf Ragnar Grímsson síðustu dagana fyrir forsetakosningarnar 1996. Einu áhrifin af því reyndust vera þau að stórauka fylgi Ólafs Ragnars og tryggja honum glæsilega kosningu, sem var sennilega ekki það sem kostendur auglýsinganna höfðu í huga.
Orðið á götunni er að almennt líki íslenskum kjósendum ekki við að beitt sé óþverraáróðri og persónuníði í kosningabaráttu, eins og mjög hefur tíðkast erlendis, ekki síst í Bandaríkjunum. Hér virki slík taktík öfugt.
Orðið á götunni er að það sé varla tilviljun að einatt virðist liggja þræðir til skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins þegar upp dúkka auglýsingar með skítkasti og persónuníði gegn frambjóðendum annarra flokka og öðrum þeim sem flokkurinn leggur fæð á. Bolli Kristinsson hefur löngum verið einn af fjárhagslegum bakhjörlum Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem kostuðu auglýsingarnar gegn Ólafi Ragnari Grímssyni á sínum tíma voru í fjármálaráði flokksins.
Orðið á götunni er að rógsherferðin gegn Degi nú geti hæglega reynst vera bjúgverpill sem komi í hausinn á þeim sem að baki henni standa – í öllu falli kunni útspilið að styrkja Samfylkinguna og Dag B. Eggertsson.