Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, segir sérstakt að fylgjast með vandræðum Miðflokksmannanna hvað varðar áherslur í loftlagsmálum. Þá einkum gagnrýni þeirra á þeim metnaði sem Ísland hafi sýnt í málaflokknum, en þar virðist formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ekki kannast við sín eigin verk. Guðlaugur skrifaði grein um málið sem birtist í Morgunblaðinu um helgina.
„Allir sem starfa í stjórnmálum vita að það borgar sig að vera þokkalega að sér í sögu og að minnsta kosti kannast við eigin verk,“ skrifar Guðlaugur og rekur að Ísland hafi tekið þátt í samstarfi um loftlagsmál á vegum Sameinuðu þjóðanna frá upphafi árið 1992 þegar fyrsti samningurinn var gerður. Straumhvörf hafi svo orðið með Parísarsamkomulaginu árið 2015, þar sem 167 ríki heims samþykktu metnaðarfullt samkomulag á sviði loftlagsmála. Á þeim tíma hafi Ísland aldrei áður verið jafn áberandi á vettvangi loftlagsmála. Þá var Sigmundur Davíð forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Þeir voru báðir mættir á fundinn í París ásamt öðrum ráðherrum Framsóknarflokksins og 70 manna sendinefnd.
„En forsætisráðherra mætti ekki eingöngu til fundarins til þess að fylgjast með heldur hélt hann „eldræðu“ til að koma skýrum skilaboðum frá Íslandi til heimsbyggðarinnar. „Það er mín von að hér í París munum við ná samkomulagi sem mun koma í veg fyrir hamfarahlýnun; samkomulag vonar – sameini mannkyn í að takast á við þessa miklu sameiginlegu ógn.“
Hann fór sömuleiðis yfir þann mikla árangur sem Ísland hefur náð í orkuskiptum og bætti við: „En við verðum að gera meira. Ríkisstjórnin mín hefur ákveðið að fara í aðgerðir til að ná orkuskiptum í samgöngum, fiskveiðum og landbúnaði í samstarfi við atvinnulífið sem er nauðsynlegt til að ná árangri.“ Sömuleiðis lofaði hann fjárframlögum í Græna loftslagssjóðinn. Í lokin lýsti hann yfir von um að við værum einungis nokkra daga frá því að ná sögulegu samkomulagi. „Loftslagssamningi sem mun ná til yfir stærsta hluta losunar í heiminum og aðstoða aðlögun og græna framtíð fyrir þróunarríki.““
Ekki nóg með það að Ísland hafi þar skrifað undir Parísarsamkomulagið heldur var eins skrifað undir viðbótar samkomulag, metnaðarbandalag um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráðu. Nú tali Miðflokksmenn um að ekki hafi verið tekið tillit til íslenskra staðhátta í Kyoto-samkomulaginu sem var undanfari Parísarsamkomulagsins. Það sé þó rangt enda var sérákvæði að finna í samkomulaginu varðandi íslenska stóriðju. Á seinna tímabili samkomulagsins var ákveðið að fara aðra leið og sú ákvörðun var tekin í forsætisráðherratíð Sigmundar.
Guðlaugur rakti líka að árið 2016 hafi þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, fundað með Sigmundi og þar ákveðið að setja af stað vinnu við að kanna mögulega raforkutengingu milli landanna í gegnum sæstreng til Bretlands. Þetta telur Guðlaugur að hafi verið fráleit umræða enda þurfi Íslendingar á allri sinni orku að halda fyrir sín eigin orkuviðskipti.
Nú gagnrýni Miðflokkurinn kostnað við loftlagsaðgerðir en Guðlaugur bendir á að dregið hafi úr þessum kostnaði. Framlög hafi lækkað um 6 milljarða milli áranna 2023 og 2024 og auk þess voru seldar losunarheimildir fyrir um 16 milljarða sem runnu í ríkiskassann.
„Það er erfitt að átta sig á því hvað Miðflokkurinn vill og að hverju hann stefnir. Það er ekki af mörgu að taka þegar kemur að þingmálum Miðflokksins. En þeir hafa þó á hverju þingi lagt fram þingsályktun um: stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu. Samkvæmt henni á að „stórauka“ stuðning við landbúnað og auka fjárframlög til greinarinnar. Þar er m.a. tilgreind loðdýrarækt og hrossarækt sem hingað til hefur ekki verið gert. En það vekur athygli að stuðningur er að mjög stórum hluta nokkuð sem hægt er að skilgreina sem loftslagsaðgerðir. Styðja á lífræna framleiðslu, hringrásarhagkerfið, innlenda orkugjafa til framleiðslu, nýta orkuauðlindirnar, innlent eldsneyti, skógrækt á að stórauka, o.s.frv. Með öðrum orðum eru þeir að leggja til hækkun á framlögum til loftslagsmála!“