Sérfræðingar telja að nærri fjórðungur kjósenda taki ákvörðun um val á flokkum daginn fyrir kosningar eða jafnvel á kjördag. Hvort þetta er rétt mat eða ekki skal ósagt látið. En víst er að mjög margir taka ákvörðun í blálokin.
Orðið á götunni er að Sjálfstæðisflokkurinn standi nú fyrir meiri herferð úthringinga en áður hefur sést í Íslandssögunni þar sem fólkið sem svarar símtölum þarf að hlusta á varnaðarorð um að varast vinstri slysin – sem flokkurinn lenti reyndar í fyrir sjö árum og endurnýjaði fyrir þremur árum og hefur síðan verið burðarás í vinstristjórn, lengst af undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur, sósíalistaleiðtoga. Einhvern veginn virðast sjálfstæðismenn vera í fullkominni afneitun, enda er veruleikinn þeim erfiður. Horft er fram hjá því að miðjustjórn yrði fráleitt vinstra dæmi, ólíkt þeirri fráfarandi ríkisstjórn.
Orðið á götunni er að lausafylgið, sá stóri kjósendahópur, mun trúlega vega og meta þrennt meira en annað:
* Áróður Sjálfstæðisflokksins síðustu dagana er gríðarlegur og gengur út á skrítin slagorð eins og „varist vinstri slysin“. Þetta segir flokkur sem hefur borið uppi vinstristjórn Katrínar Jakobsdóttur í nær sjö ár. Þá er varað við „Reykjavíkurmódelinu“ þar sem Sjálfstæðisflokkurinn engist um í margklofnum minnihluta og hefur gert um árabil. Í Reykjavík stefnir þó í rekstrarafgang sem er annað en hallarekstur ríkissjóðs fráfarandi ríkisstjórnar sem hefur tvöfaldað skuldir ríkissjóð í valdatíð sinni. Sjálfstæðisfólk hefur í raun ekkert við stjórnun borgarinnar að athuga nema það eitt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki ráðið þar för í 30 ár!
* Kjósendur munu standa frammi fyrir því að nota rétt sinn til að losna við fráfarandi ríkisstjórn og þar með fráfarandi ríkisstjórnarflokka, einkum Vinstri græna og Sjálfstæðisflokkinn, sem hafa ráðið mestu um framgöngu þessarar vonlausu og misheppnuðu ríkisstjórnar – þeirrar óvinsælustu í sögunni.
* Kjósendur munu hugsa um þá von sem nýtt upphaf getur borið með sér. Þeir hljóta þá að horfa til þeirra flokka sem koma nú galvaskir til kosninganna úr stjórnarandstöðu: Athyglin beinist að Viðreisn og Samfylkingunni. Enginn skyldi þó gera lítið úr Flokki fólksins þar sem Inga Sæland er formaður og einráð. Hún talar inn í vissa hópa þó að hún eigi það til að fara hættulega fram úr sjálfri sér, eins og til dæmis með hugmynd sinni um að ráðast á lífeyrissjóði landsmanna og þar með kjósenda.
Orðið á götunni er að stjórnmálaflokkur sem byggir kosningabaráttu sína á hræðsluáróðri, sem engin innistæða er fyrir, og segist standa fyrir stefnu sem flokkurinn hefur snúið baki við í sjö ára ríkisstjórnarsamstarfi hafi góða ástæðu til að óttast dóm kjósenda.
Orðið á götunni er að lausafylgið í aðdraganda kosninga vilji að endingu alltaf vera í liði hinna líklegu sigurvegara. Þar blasa Viðreisn og Samfylkingin við.