Sjálfstæðisflokknum verður refsað harkalega í komandi kosningum vegna samstarfsins við Vinstri græn í vinstristjórn þeirra síðustu sjö árin. Örlög Vinstri grænna virðast ætla að verða enn verri því að flest bendir til þess að flokkurinn þurrkist út af Alþingi um næstu helgi. Faðmlag þessara ólíku flokka í vinstristjórn, fyrst Katrínar Jakobsdóttur og svo Bjarna Benediktssonar, gæti orðið Vinstri grænum banvænt. Sjálfstæðisflokkurinn varaðist ekki vinstri slysin þegar hann bauð Vinstri grænum upp í dans fyrir sjö árum. Nú geldur flokkurinn fyrir það.
Orðið á götunni er að ýmsir af ábyrgðarmönnum vinstri stjórnarinnar sem studdu hana á Alþingi eigi erfitt með að horfast í augu við þessar dapurlegu staðreyndir og reyni nú að slá ryki í augu kjósenda og blekkja sjálfa sig í leiðinni. Óli Björn Kárason er einn þessara ábyrgðarmanna og er að hætta þingmennsku. Hann gerði sér ljóst að flokkurinn er búinn að fyrirgera trausti sínu og fylgi með þeim hætti að Óli Björn hefði aldrei getað náð endurkjöri og valdi því skynsömu leiðina að hætta sjálfur en láta ekki reka sig á dyr. Hann kom fram í útvarpsþætti á Bylgjunni í dag og notaði tíma sinn þar til að vara kjósendur við vinstristjórnum. Ekki skrítið því að reynsla hans og félaga í Sjálfstæðisflokknum af slíku samstarfi er dapurleg eins og allar skoðanakannanir sýna um þessar mundir.
Margt bendir nú til þess að miðjuflokkarnir Viðreisn og Samfylkingin myndi næstu ríkisstjórn og fái til liðs við sig einn stjórnmálaflokk til viðbótar. Miðjustjórn verður þá til og leysir af hólmi vinstristjórnina sem Óli Björn og fleiri bera ábyrgð á. Í útvarpsþættinum varaði hann við vinstristjórnum, enda með sjö ára reynslu af slíku samstarfi: Óli Björn sagði: „Ég lít á þessar kosningar í rauninni sem kosningar um það hvort að Íslendingar vilja að hér komist til valda vinstristjórn og þá er það niðurstaðan eða hvort menn vilja að hér verði ríkjandi borgaraleg stjórn.“
Nú eru góðar horfur á því að til valda komist miðjustjórn sem leysir þá misheppnaða vinstristjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins af hólmi. Þegar sú ógæfustjórn var mynduð í lok árs 2017 með Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem forsætisráðherra og Steingrím J. Sigfússon sem forseta Alþingis, svelgdist mörgum borgaralega sinnuðum Íslendingum á. Varla þó Óla Birni Kárasyni sem studdi gjörninginn án fyrirvara!
Orðið á götunni er að hann og aðrir, sem vitanlega eru nú sárir og sjá eftir ákvörðunum sínum, geti ekki komið og reynt að snúa öllu á haus með því að reyna að klína vinstri stimpli á yfirlýsta miðjuflokka. Slysinu verður ekki afstýrt hjá Sjálfstæðisflokknum úr þessu. Skaðinn er skeður og maður tryggir ekki eftir á.
Það verður enginn vinstristimpill á ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og til dæmis miðjuflokksins Framsóknar eða hægri flokksins Miðflokksins.
Orðið á götunni er að fallnir og yfirgefnir fráfarandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins verði nú að reyna að horfast í augu við staðreyndir og viðurkenna mistök sín. Þetta verða þeir að reyna Óli Björn, Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Teitur Björn Einarsson, Brynjar Níelsson, Birgir Ármannsson og jafnvel fleiri sem bera ábyrgð á þeirri vinstristjórn sem hverfur nú í djúp gleymskunnar.