Rithöfundurinn Jón Kalman Stefánsson var til viðtals í nýjasta þætti Kiljunnar á RÚV þar sem hann ræddi nýja sögulega skáldsögu sína sem fjallar meðal annars um Spánarvígin alræmdu. Sagði Jón að á þeim tíma hefði ríkt útlendingaandúð á Íslandi sem enn grasseri í dag og sló RÚV því upp í frétt um viðtalið.
Egill Helgason, umsjónarmaður Kiljunnar, deildi fréttinni á Facebook-síðu sinni sem féll ekki í kramið hjá Eyjólfi Ármannssyni, oddvita Flokks Fólksins í Norðvesturkjördæmi, sem fullyrti að íslensk menntaelíta væri búin að stimpla sig út úr samfélagsumræðunni með slíkum vangaveltum.
„Það grasserar ekki meiri útlendingandúð á Íslandi í dag frekar en verið hefur í sögunni. Slíkt tal er notað til að þagga niður í samfélagsumræðu um samfélagslega mikilvægt mál. Er ekki kominn tími á að hætta þessu endalausa tali um útlendingaandúð, útlendingahatur og rasisma o.s.frv? Og koma með þó ekki nema smá snefil af rökum fyrir því af hverju Ísland eigi að taka hlutfallslega á móti svo miklu miklu fleiri hælisleitendum en hin Norðurlöndin og Evrópa,“ skrifaði Eyjólfur og bætti við.
„Með tilheyrandi tugmilljarða kostnaði árlega og álagi á innviði 400.000 íbúa samfélags sem ráða engan veginn við fjöldann. Samanburður við Spánarvígin er galinn. Íslensk menntaelíta virðist að hluta búin að stimpla sig útúr íslenskri samfélagsumræðu með svona málflutningi. Skiptir ekki máli hvort bullið sé í skemmtiþàttum RÚV, bókmenntaþáttum eða annars staðar, þar sem málinu er endalaust grautað saman við 500 milljóna vinnumarkaði EES sem Ísland er hluti af.“
Agli féllust greinilega hendur yfir þessu óvænta innleggi Eyjólfs og svaraði því einfaldlega á þessa leið. „Jæja góði“. Reikna má með því að hann hafi dæst í leiðinni.