fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Eyjan

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 23. nóvember 2024 12:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hitafundur fór fram í Ölfusi á fimmtudag en þar freistaði sveitarstjórnin þess að upplýsa íbúa Þorlákshafnar um fyrirhugaða mölunarverksmiðju Heidelberg í nágrenni landeldisstöðva, en atkvæðisgreiðsla um skipulagsbreytingu við höfnina í Þorlákshöfn vegna verksmiðjunnar mun hefjast eftir helgi.

Upp úr sauð á fundinum eftir að Ása Berglind Hjálmarsdóttir, bæjarfulltrúi, fór hörðum orðum um verkefnið sem varð til þess að Ólafur Hannesson, framkvæmdastjóri Hafnarness Vers hf. missti algjörlega stjórn á skapi sínu.

Þú skalt bara þegja og hlusta

Ólafur steig í pontu og sagði ótrúlegt að hlusta á bæjarfulltrúa koma upp í pontu og saka mann og annan um annarlegar hvatir í málinu. „Hún er að reyna að byggja upp einhverja sögu í hausnum á sér að þau séu örugglega að ganga þvert gegn sinni sannfæringu og farin að ljúga að fólki hérna. Það liggur við að þetta sé það sem hún segir. Þetta er bara fólk.

Ása skaut þá inn að Ólafur væri þar að leggja henni orð í munn, en Ólafur kunni henni litlar þakkir fyrir frammíkallið.

„Já þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér. Það er bara óþolandi, ég verð bara að segja, hvernig þú hefur hagað þér í þessu máli, þannig þú skalt bara haga þér. Nú er ég með orðið og þú skalt bara þegja og hlusta. Veistu það ég er bara kominn með alveg nóg af því hvernig þú ert búin að haga þér i þessu máli. Sakandi mann og annan um að vera spilltur og svo koma hér sérfræðingar fram og þú ert að reyna að draga úr trúverðugleika þeirra af því að þú ert ekki ánægð með svörin sem þeir komu með. Þú ættir bara að hugsa þinn gang með þetta.“

Misreiknað umferðina

Á fundinum hafði íbúum verið tilkynnt að vörubílar með efni frá fyrirhugaðri verksmiðju myndu fara ferðir á um 14 mínútna fresti. Einn fundargestur, ungur maður, steig þó fram að sagði að þessi útreikningur stæðist ekki skoðun. Miðað við gögn þá væri líklega um ferðir á um fjögurra mínútna fresti að ræða. Bað hann um skýrari svör hvað það varðaði.

Sérfræðingur sveitarfélagsins viðurkenndi þá að hafa misreiknað sig. Rétt væri að um ferð á um 4,3 mínútna fresti væri um að ræða en það ætti við ferðir í báðar áttir, heildarferðir væru um 112 ferðir á dag samanlagt, fram og til baka og því væri bíll að aka í sömu áttina á um 8,6 mínútna fresti.

Aftur steig ungi maðurinn fram og benti á að samkvæmt umhverfismatsskýrslum væri reiknað með um 220 ferðum á dag miðað við að hver vörubíll tæki 15 rúmmetra af efni. Aftur steig sérfræðingurinn fram og tók þá fram að reiknað væri með vörubílum með eftirvagni sem þýddi að hann gæti flutt tvöfalt meira, þó sá væri þó ekki klár á því hver flutningsgeta vörubíla með eftirvagn væri.

Margir fundargestir voru óánægðir með þessi mistök. Meðal annars Ása Berglins sem sagðist hugsi yfir þessum vinnubrögðum og taldi málið í heild vera bæjarstjórn til skammar. Bað hún fólk að hafa í huga að nærri fyrirhugaðri verksmiðju sé nú þegar í gangi 100 milljarða fjárfesting í formi landeldis, landeldi sem var hafið af góðri trú um að þetta væri vettvangur umhverfisvæns matvælaiðnaðar.

Íbúar óánægðir með upplýsingagjöf

Elliði Vignisson, bæjarstjóri, steig eins fram og sagði að hann hafi vel áttað sig á því að þetta yrði umdeilt mál. Það hafi þó verið erfitt að stíga niður fæti í því, vantraust væri mikið gagnvart verkefninu og of mikið um að fólk hjóli í manninn frekar en málið.

„Af því það get ég svarið upp á allt sem mér er heilagt að hvorki ég né aðrir sem að þessu máli hafa komið höfum gert neitt annað en að gæta hagsmuna bæjarbúa í málinu. Öðrum ásökunum vísa ég til föðurhúsanna.“

Sumir tóku þó undir með Ásu og gagnrýndu upplýsingarnar sem fram komu á fundinum, fyrir að hafa verið ónákvæmar og jafnvel rangar. Til að mynda steig maður einn í pontu og tók þar sérstaklega fram að hann væri hvorki bæjarfulltrúi né sammála Ásu Berglindi í pólitík. Hann væri þó sammála því að litlu hafi verið svarað á fundinum sem gæti dregið úr áhyggjum íbúa Þorlákshafnar. Sá gagnrýndi sérstaklega kynningarefni Heidelberg en þar hafi aðeins verið talað um litla 5% aukningu á umferð og íbúum sent kynningarefni þar sem aukin umferð var táknuð myndrænt með litlum fólksbílum, en ekki stórum vörubílum. Þetta mætti kalla áróður.

Eins hefði Heidelberg sent kynningarefni þar sem sýnt var tvöfalt hringtorg sem ekki er til, síðan hafi verið tekið fram að hringtorgið yrði að veruleika ef fyrirtækið fengi að hefja starfsemi. Vildi íbúinn því vita hvort skipulagsvaldið væri komið til Heidelberg og hvort sveitarstjórn væri það sama um umferðaröryggi Þorlákshafnar að það þyrfti eitthvað svona til að ráðast í að reisa hringtorg.

Eins og áður segir hefst íbúakosning eftir helgi en upphaflegri íbúakosningu var frestað á síðustu stundu eftir að athugasemdir bárust frá fiskeldisfyrirtækinu First Water sem er með starfsemi í grennd við fyrirhugaða verksmiðju. Meirihlutinn gaf Heidelberg kost á að svara þessum athugasemdum og skilaði fyrirtækið inn gögnum sem voru svo kynnt íbúum á fundinum á fimmtudaginn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?