Viðreisn, sem hefur verið á talsverðu flugi í skoðanakönnunum síðustu vikur, er orðinn stærsti flokkur landsins og mælist fylgi hans nú 22,0%. Samfylkingin hefur verið efst mánuðum saman en nú virðist fylgi flokksins vera að dala og í könnun Prósents mælist það 18,3%.
Þá eru bæði Flokkur fólksins og Miðflokkurinn með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Miðflokkurinn er með 13,5%, Flokkur fólksins 12,5% og Sjálfstæðisflokkur 11,5%.
Framsóknarflokkurinn er að detta út af þingi og mælist fylgi hans nú 4,4%. Sömu sögu er að segja af VG en fylgi flokksins er 3,0%. Samanlagt fylgi þeirra þriggja flokka sem mynduðu síðustu ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG, er aðeins 18,9%.
Píratar virðast vera að sækja í sig veðrið miðað við þessa könnun og er fylgi flokksins nú 6,7%. Sósíalistaflokkurinn bætir einnig við sig frá síðustu könnun Prósents og mælist fylgi flokksins nú 6,4%. Lýðræðisflokkurinn rekur svo lestina í könnuninni með 1,0%.