Klappir grænar lausnir, sem er skráð á Nasdaq, First North-markaðinn, hélt kynningu fyrir fjárfesta á dögunum þar sem kynnt var árshlutauppgjör félagsins og framtíðarsýn félagsins til næstu ára. Hugbúnaðarlausnir Klappir gera fyrirtækjum kleift að uppfylla kröfur um upplýsingagjöf í sjálfbærni með einföldum og skilvirkum hætti. Með sjálfvirkri gagnasöfnun og greiningu stuðlar hugbúnaðarlausn Klappa að skilvirkari vinnslu á upplýsingum um frammistöðu í sjálfbærni og gagnaskilum til hagaðila. Klappir dreifa hugbúnaðinum í gegnum net samstarfsaðila sem nær til um 25 landa.
Heildartekjur Klappa námu 297,4 milljónum króna á fyrri helmingi ársins 2024. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam 58 milljónum króna, samanborið við 43,6 milljónir á sama tíma árið áður. Rekstrarhagnaður var 31,6 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 6,1 milljónir á sama tíma í fyrra að því er fram kom á kynningunni.
„Fyrri hluti ársins var mjög sterkur hjá félaginu og við höfum styrkt stöðu okkar enn frekar á mörkuðum bæði heima og erlendis. Áskriftartekjur jukust um 21,8%. Þessi aukning er að hluta til vegna grunnáskrifta sem vænst er til að skili sér inn í auknum tekjum á komandi mánuðum,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa.
„Vöxtur okkar erlendis skýrist að stórum hluta af því að fyrirtæki sem hingað til hafa gert kolefnisbókhald í eigin Excel tólum eru að flytja sig yfir í stafræna tækni Klappa. Fyrirtækin vilja mæta flóknu sjálfbærniregluverki með öflugri tækni sem dregur úr áhættu, bætir skilvirkni og lækkar kostnað,“segir Jón Ágúst.
„Með Ísland sem fyrirmynd, þá erum við að byggja upp samskonar gagnainnviði fyrir sjálfbærnigögn í öðrum löndum. Sem dæmi má nefna, að við ásamt öðrum, erum að gera gagnainnviði fyrir yfir tvö hundruð sjálfstæðar hitaveitur í Danmörku. Annað verkefni, sem við erum einnig mjög stolt af, er að við erum að aðlaga upplýsingagjöf um úrgangsmeðhöndlun með sama hætti og við unnum með fyrirtækjunum hér heima. Þetta eru bara tvö dæmi af þeim fjölmörgu verkefnum sem við erum að vinna erlendis. Velvilji íslenskra fyrirtækja á undanförnum tíu árum og stuðningur hins opinbera hefur gert okkur kleift að þróa hugbúnaðarlausn sem á sér enga líka í heiminum í dag.“
Jón Ágúst segist reikna með að markaður fyrir hugbúnaðarlausn Klappa stækki umtalsvert á komandi árum því verið sé að innleiða ný lög og reglugerðir varðandi upplýsingagjöf í sjálfbærni í fjölmörgum löndum. ,,Við höfum því lagt mikla áherslu á að undirbúa okkur fyrir hraðan vöxt á komandi árum. Við höfum m.a. verið að aðlaga áskriftarleiðirnar og sjálfvirknivæða ferla sem snúa að markaðssetningu, sölu, þjónustu, vöruþróun og dreifingu.“
„Þó svo að íslensk fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir verði alltaf í fyrirrúmi, þá viljum við styrkja okkur enn frekar erlendis í gegnum Klappir Nordic, dótturfélag okkar í Danmörku. Við erum meðal annars að skoða tvíhliða skráningu í einu af Norðurlöndunum en það myndi staðsetja okkur betur í Evrópu og hjálpa okkur við að nálgast markaði utan Evrópu. Slík skráning er einnig hugsuð fyrir fjárfesta, þar sem hlutabréf Klappa væru á stærri markaði.“