Óslökkvandi þorsti ríkissjóðs í lánsfé heldur uppi vaxtastigi í landinu vegna þess að krónuhagkerfið stendur vart undir viðvarandi hallarekstri ríkisins. Staðan væri önnur ef við byggjum við stærri og stöðugri gjaldmiðil. Seðlabankinn er enn að herða tökin vegna þess að vaxtalækkanir hans halda ekki í við lækkandi verðbólgu.
Stýrivextir Seðlabankans lækkuðu um 0,5 prósent í vikunni og eru 8,5 prósent. Margir lýstu miklum fögnuði vegna þessa, ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem hefur farið með ríkisfjármálin síðasta áratuginn og ber þar af leiðandi öðrum fremur ábyrgð á þeirri óðaverðbólgu sem ríkt hefur og vaxtastiginu í landinu. Nú auglýsa Sjálfstæðismenn að allt sé á réttri leið, vextir og verðbólga að lækka.
Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir að Seðlabankinn sé nú, raunar vonum seinna, farinn að lækka meginvexti sína eru raunvextir enn að hækka. Þeir hækkuðu þegar bankinn lækkaði vexti síðast vegna þess að verðbólgan lækkaði meira en sem nam vaxtalækkuninni. Vaxtalækkunin nú rétt mætir þeirri lækkun verðbólgunnar sem varð í síðasta mánuði. Greiningardeildir búast hins vegar við því að vísitala neysluverðs lækki í þessum mánuði þannig að ársverðbólgan fari úr 5,1 prósent niður í 4,5 prósent. Af þessu leiðir að raunvextirnir hækka enn og Seðlabankinn er enn fastur í baksýnisspeglinu í stað þess að horfa fram á við.
Í byrjun þessa árs voru raunvextir Seðlabankans 2,13 prósent samkvæmt upplýsingum í Peningamálum sem bankinn gaf út í vikunni. Í september voru þeir komnir upp í 3,02 prósent og í árslok er reiknað með að raunvextirnir verði komnir í 3,12 prósent. Seðlabankinn er því markvisst að hækka raunvexti í landinu þrátt fyrir að einhver nafnvaxtalækkun eigi sér stað.
Stýrivextir Seðlabankans segja hins vegar ekki alla söguna vegna þess að þeir vextir sem fyrirtækin og heimilin búa við eru þeir vextir sem standa til boða hjá bönkum og fjármálastofnunum.
Í byrjun þessa árs voru raunvextir óverðtryggðra húsnæðislána 3,63 prósent. Í september voru þeir orðnir 4,57 prósent og Seðlabankinn reiknar með því að þeir verði komnir í 5,12 prósent um áramót.
Ef horft er til vaxta á verðtryggðum húsnæðislánum þá voru vextirnir 3,74 prósent í byrjun þessa árs. Fóru upp í 4,04 prósent í september og Seðlabankinn telur að þeir verði 4,39 prósent í árslok.
Það er því beinlínis rangt að halda því fram að Seðlabankinn sé farinn að lækka vextir vegna þess að hann er enn að herða sultaról íslenskra heimila og fyrirtækja, annarra en þeirra 250 útflutningsfyrirtækja, sem farin eru út úr krónuhagkerfinu og stunda sín viðskipti og fjármögnun að mestu í evrum en sum í dollurum. Þessi fyrirtæki bera höfuð og herðar yfir önnur íslensk fyrirtæki enda fjármagna þau sig á miklu hagstæðari kjörum en almenningur og smærri fyrirtæki, eins og glögglega má sjá t.d. af því að eigendur stærstu útgerðanna eru að sölsa undir sig aðrar greinar íslensks atvinnulífs.
En hvernig stendur í raun og veru á því að vextir eru svona óheyrilega háir hér á landi?
Helsta ástæðan er tvíþætt. Annars vegar sú að íslenska ríkið er óseðjandi lántakandi á íslenska fjármálamarkaðnum og sogar upp lánsfé eins og enginn sé morgundagurinn. Skýringin á því er vitaskuld sú að ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla samfellt í sjö ár og samkvæmt fjárlögum næsta árs heldur hallareksturinn áfram. Í gær voru t.d. boðnir út ríkisvíxlar og tilboðum tekið í rúmlega 20 milljarða þriggja mánaða víxla á 8,73 prósentvöxtum og í tæplega 19 milljarða af sex mánaða víxlum á 8,62 prósent vöxtum.
Þegar ríkið þarf að borga svona vexti þurfa allir aðrir að greiða hærri vexti. Enginn getur tekið lán á lægri vöxtum en ríkið. Það er framúrkeyrsla ríkisins sem gerir áð að verkum að fjármagnseigendur geta heimtað þessa háu vexti nú næstu mánuði þegar verðbólgan er að líkindum á leiðinni miklu neðar. Þetta er kennslubókardæmi um það þegar lausatök í ríkisrekstri keyra upp vextina í einu hagkerfi.
Hin ástæðan fyrir því að vextirnir eru jafn háir og raun ber vitni hér á landi er sú að myntkerfið okkar er svo smátt að þegar ríkið gerist frekt til fjárins hefur það bein og mikil áhrif á ávöxtunarkröfu fjárfesta vegna þess að ríkið þurrkar upp markaðinn. Afleiðingin er ofurhátt vaxtastig. Hinn kosturinn er gengisfall og ofsaverðbólga.
Væri Ísland hluti af stærra gjaldmiðilssvæði hefðu umsvif íslenska ríkisins á innlendum lánamarkaði ekki sömu áhrif og þau hafa nú á örmyntarmarkaðnum Íslandi.