fbpx
Fimmtudagur 09.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Eyjan
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu efndu til áhugaverðs fundar á dögunum til þess að ræða það sem oft er kallað Íslandsálag.

Sérfræðingar bankanna sýndu þar fram á að vegna sérstakra skatta og álaga, sem leggjast á íslenska banka, séu vextir um 0,96 til 1,15 prósentustigum hærri en vera þyrfti. Af 50 milljóna króna láni væri viðbótarvaxtakostnaður 480 til 575 þúsund krónur á ári.

Fulltrúar stjórnmálaflokka voru viðstaddir fundinn. Ákall bankamannanna til þeirra var einfalt: Afnemið allt sem heitir Íslandsálag á banka og sjá: Vextir munu lækka og afkoma almennings og fyrirtækja batna.

Íslandsálagið

Bankamennirnir hafa rétt fyrir sér ef bara er horft á málið frá þeirra sjónarhorni.

Samkeppni þarf þó að vera næg eigi ávinningurinn af lægri álögum að fari í vasa skuldara en ekki bara hluthafa.

Svo þarf sá kostnaður ríkissjóðs og Seðlabanka, sem bankarnir borga með Íslandsálaginu, að vera ímyndun en ekki raunveruleiki þannig að ekki þurfi að flytja byrðarnar yfir á herðar annarra. Engir vita betur en einmitt bankamenn að kostnaður hverfur ekki með því einu að hætta að borga hann.

Það er of einfalt að kalla á þingmenn og segja: Léttið þessum byrðum af okkur og finnið einhverja aðra til að borga brúsann.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar var ein um það af fulltrúum stjórnmálaflokkanna að draga þessa umræðu inn í stærra efnahagslegt samhengi og þann sér íslenska vanda sem þjóðfélagið allt stendur andspænis.

Íslandsálagið á heimilin

Veruleikinn er sá að krónan uppfyllir ekki þau almennu skilyrði sem gerð eru til gjaldmiðla. Það veldur aftur verulegum samfélagslegum kostnaði, sem aðrar þjóðir, sem nota samkeppnishæfa gjaldmiðla, bera ekki.

Íbúðakaupendur finna þetta á eigin skinni. Skuldug heimili borga þrisvar sinnum hærri vexti en í grannlöndunum. Þau kalla eftir því alveg eins og bankarnir að aðrir skattborgarar beri hluta Íslandsálagsins með þeim.

Ríkið hefur komið til móts við þær kröfur með millifærslum. Fráfarandi ríkisstjórn fjármagnaði þau útgjöld með lánum. Á endanum þarf svo að finna skattgreiðendur, sem borga millifærslurnar.

Íslandsálag Seðlabanka og ríkissjóðs

En það eru fleiri en bara viðskiptabankar og heimili sem bera Íslandsálagið.

Seðlabankinn sjálfur er einn þeirra. Hann ræður ekki við að borga fjármagnskostnað af gjaldeyrisvarasjóðnum. Þetta er alveg sér íslenskt fyrirbæri, sem aðrar þjóðir þekkja ekki.

Seðlabankinn hefur velt hluta af þessum sér íslenska kostnaði yfir á viðskiptabankana, sem aftur hafa velt honum að hluta yfir á viðskiptavini sína.

Ríkissjóður borgar þrefalt hærra hlutfall í vexti en þekkist í öðrum löndum þrátt fyrir hóflegar skuldir. Þetta er sér íslenskur kostnaður. Bankarnir borga hluta hans með sér íslenskum sköttum, Íslandsálagi. Afgangurinn er falinn með því að láta skattborgarana greiða hann með almennum sköttum.

Yndi stjórnlyndra flokka

Vandinn liggur í þessum sér íslenska kostnaði. Hann hverfur ekki með því að flytja hann af einum hópi skattgreiðenda yfir á annan. En þess konar millifærslur eru yndi stjórnlyndra flokka.

Það læknast enginn af rauðum hundum með því að velta sér upp úr hveiti sagði Pétur Benediktsson Landsbankastjóri á sinni tíð.

Þó að vextir séu að lækka verða þeir alltaf tvöfalt hærri hér en í grannlöndunum. Raunvextir verða um fyrirsjáanlega framtíð allt að þrefalt hærri en annars staðar þrátt fyrir nafnvaxtalækkun.

Á undanförnum árum hafa bankarnir náð niður kostnaði. Bankastjórarnir vissu að það gerðist ekki af sjálfu sér. Til þess þurfti miklar kerfis- og tæknibreytingar. Og í þær var farið.

Nákvæmlega það sama á við um þann samfélagslega sér íslenska kostnað sem hlýst af ófullburða gjaldmiðli. Hann hverfur ekki án kerfisbreytinga.

Slaufum millifærslupólitíkinni

Alltént var ánægjulegt að fulltrúi eins stjórnmálaflokks skyldi ræða spurningu bankanna af dýpt og alvöru. Kannski er ekki tilviljun að flokkur hennar nýtur vaxandi fylgis.

Eftir kosningar ætti pólitíkin að kalla fulltrúa bankanna á fund og spyrja hvort þeir séu tilbúnir að ræða kerfisbreytingu til þess að losa samfélagið allt við Íslandsálagið og slaufa millifærslupólitíkinni sem því fylgir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
24.11.2024

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður