fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Eyjan
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson blandar sér af fullum krafti í kosningabaráttuna og birtir þessa dagana færslur á Facebook þar sem hann heldur mjög á lofti fána Samfylkingarinnar, auk þess að beina spjótum sínum gegn þeim sem hann telur vera í samkeppni um atkvæði við Samfylkinguna. Þessar færslur bera það með sér að gamli pólitíski stríðshesturinn hefur í engu glatað eldmóði sínum og flokkssannfæringu og nú hefur önnur pólitísk sleggja stigið fram og setur ofan í við Össur.

Síðdegis í gær birti Össur færslu á fésbókinni undir yfirskriftinni: Þorgerður hallar sér til hægri

Þar heldur Össur því fram fullum fetum að Þorgerður Katrín, Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hafi kúvent stefnu flokksins í Evrópumálum í Spursmálsþætti Morgunblaðsins í vikunni. Hún sé að bakka frá þeirri stefnu að þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna við ESB væri á oddinum hjá Viðreisn. Össur heldur því fram að með þessu sé Þorgerður að halla sér til hægri og sjái nú fram á að geta orðið forsætisráðherra í ríkisstjórn Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks. Atkvæði greitt Viðreisn sé því ávísun á hægri stjórn undir hennar forystu. Hún muni gera Bjarna Ben kleift að halda áfram að selja bankana og leiði Klausturgengið að ríkisstjórnarborðinu.

Þeir sem eru eldri en tvævetur í pólitík sjá strax hvers eðlis þessi færsla Össurar er. Hann reynir að slá ryki í augu kjósenda og hræða þá frá því að kjósa Viðreisn en skoðanakannanir undanfarnar vikur hafa sýnt að fylgið streymir frá Samfylkingu til Viðreisnar.

Ýmsir tjá sig um þessa færslu Össurar á síðunni. Sumir taka undir aðvaranir hans en aðrir þykjast sjá í gegnum hræðsluáróðurinn.

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar:

Svo að því sé haldið til haga: Hér er ekki um „greiningu“ að ræða.

Þetta er hluti af kosningabaráttu Samfylkingarinnar í því augnamiði að lokka kjósendur til Samfylkingar á heimatilbúnum forsendum og hræðsluáróðri Össurar.

Utan „veiðitímabilsins“ getur Össur verið hinn beittasti og skemmtilegasti greinandi. Þetta er ekki í þeim anda.

Hvað allir athugi. 🙂“

Reynir Ingibjartsson skrifar:

Er mark takandi á Spursmálum? Þessi flokkur – Viðreisn var stofnaður til að halda opinni leið til Evrópu. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Það blasir við að Bandaríkin eru stórt spurningarmerki og tími kominn að taka alvöru skref til Evrópu. Viðreisn hefur þetta tækifæri og þá kemur Samfylking með Það er fram undan einstakt tækifæri að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu. En er það ekki vaninn í pólitíkinni að hafa opið í alla enda?

Meðal annarra sem tjá sig um færslu Össurar og lýsa sig ósammála fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar eru Skúli Thoroddsen og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Í morgun birtist svo athugasemd frá Þorsteini Pálssyni, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins og guðföður Viðreisnar. Hann gerir góðlátlegt grín að áhyggjum Össurar:

Minn gamli góði vinur Össur er þekktur fyrir pólitíska skarpskyggni og yfirvegun umfram aðra samferðamenn. En þegar ég las þessa röksemdafærslu fyrst núna í morgunsárið brá svo við að hún minnti mig á flug valsins þegar við köllum hann fálka.

Svo heldur hann áfram og bendir á að þegar að er gáð er það reyndar Samfylkingin en ekki Viðreisn, sem hefur hallað sér upp að Sjálfstæðisflokknum:

Að hygginna kvenna hætti hafa þær báðar, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, gert grein fyrir því að þær setji hugsanlegum viðsemjendum um ríkisstjórn ekki úrslitakosti fyrir fram. Önnur hefur þó lagt Evrópumálin á hilluna en hin leggur höfuð áherslu á þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald þeirra aðildarviðræðna sem vinur minn hóf. Hvor hefur opnað faðminn betur í átt til fálkans?

Vitaskuld er það flokkurinn sem hefur sett Evrópumálin til hliðar sem líklegri er til að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki en eini flokkurinn sem leggur áherslu á að þjóðin fái sem fyrst að kjósa um framhald aðildarviðræðna við ESB.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“