fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Eyjan
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024 20:00

Sigurður Ingi Jóhannsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framsóknarflokkurinn birtir á bæði Facebook-síðu sinni og síðu sinni á Instagram brot úr um 40 mínútna löngu myndbandi, sem er í heild sinni á Youtube-síðu flokksins. Myndbandið ber titilinn Eldhússpjall með Sigurði Inga. Í brotinu sem flokkurinn gerir á þennan hátt sérstaklega hátt undir höfði gagnrýnir Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins harðlega framgöngu Sjálfstæðisflokksins í stjórnarsamstarfinu á þessu kjörtímabili. Hann segir Sjálfstæðisflokkinn hafa verið í raun stjórnlausan og því mjög erfiðan í samstarfi og þá í mun meiri mæli en nokkurn tímann í sögu flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið helsta vandamálið í ríkisstjórninni á þessu kjörtímabili og að eftir á að hyggja hefði verið best að slíta stjórnarsamstarfinu strax á síðasta ári.

Eins og kunnugt er mynduðu Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn ásamt Vinstri-grænum eftir alþingiskosningar 2017 sem síðan var endurnýjuð eftir kosningarnar 2021. Sigurður Ingi segir samstarfið hafa gengið sérstaklega illa á þessu síðara kjörtímabili:

„Staðreyndin er hins vegar sú að á þessu seinna kjörtímabili þá hefur samstarfið niðri á þingi milli stjórnarflokkanna verið mjög lélegt, afleitt. Mjög fljótlega kom í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn var ósáttur við að vera í þessari ríkisstjórn og einstakir þingmenn hans fóru bara beinlínis í stjórnarandstöðu. Í ljós kom smátt og smátt og hefur kannski bara verið að raungerast í rúmt eitt og hálft ár að það var mjög erfitt að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Því hann var á einhvern hátt stjórnlaus. Menn gerðu bara það sem þeim datt í hug og komust upp með það. Þannig hefur það aldrei verið í sögu Sjálfstæðisflokksins, ekki núna seinni áratugina.“

Hinn orðvari

Andrés Jónsson almannatengill og stjórnmálaskýrandi vekur athygli á því á Facebook að Framsóknarflokkurinn hafi kosið að gera þessu broti úr myndbandinu sérstaklega hátt undir höfði.

„Hinn orðvari formaður Framsóknarflokksins loksins að segja það sem mér fannst alltaf augljóst: að Sjálfstæðisflokkurinn var óstýrláti flokkurinn í þessari ríkisstjórn, en ekki Vinstri græn.“

Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður og stjórnmálaskýrandi segir á X að þessi orð Sigurðar Inga séu stórmerkileg:

„Sjálfstæðisflokkurinn stjórnlaus?! Þetta eru alveg stórmerkileg og hápólitísk skilaboð frá formanni Framsóknarflokksins á lokadögum kosningabaráttunnar. Ætlar framsókn að reyna að bjarga sér með vinstri snúningi?“

Um Vinstri græna segir Sigurður Ingi í heildarútgáfu myndbandsins á Youtube-síðu Framsóknarflokksins að þingmenn þeirra hafi ekki verið eins öflugir á þessu seinna kjörtímabili stjórnarsamstarfsins. Ólíkir skoðanir flokkanna hafi kallað á lausnamiðaða nálgun í stjórnarsamstarfinu sem hafi gengið mun verr hjá Vinstri grænum en á fyrra kjörtímabilinu. Aðalvandamálið í stjórnarsamtarfinu hafi hins vegar verið Sjálfstæðisflokkurinn sem hafi ekki verið samstarfsfús:

„Hann vann aldrei að lausnum. Í mjög langan tíma ekki bara síðustu mánuðina. Bara í mjög langan tíma.“

Slíta fyrr

Sigurður Ingi segir að litlu hafi munað að hann hefði lagt til við þingflokk Framsóknarflokksins í janúar á þessu ári að slíta stjórnarsamstarfinu en þá hafi stjórnarflokkunum tekist að ná saman um útlendingamál. Hann segir að eftir á að hyggja hefði verið heppilegra að slíta stjórnarsamtarfinu enn þá fyrr:

„Eftir á að hyggja hefði verið réttast að átta sig á því að þegar Sjálfstæðisflokkurinn gat ekki klárað ein einustu þingmál ríkisstjórnarinnar vorið ’23 að þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“