fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024 14:30

Grindavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmaður Flokks fólksins spyr hvort það sé á eigin ábyrgð einstakings lendi hann í hörmulegu áfalli og segir fund með Grindvíkingum hafa verið sláandi, á heimleið af fundinum horfði þingmaðurinn síðan á nýjasta gosið við rætur Grindavíkur. Þingmaðurinn segir margt skrýtið í vinnubrögðum málefna íbúa bæjarins og spyr hver ber ábyrgð á þessu bulli.

„Í gær sat ég með Grindvíkingum í fjóra tíma og heyrði frásagnir sem ég hef aldrei heyrt áður, þó ég hafi mætt á marga fundi með fulltrúum þeirra, af ýmsum ástæðum á síðastliðnu ári. Þetta var sláandi fundur,“

segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi. Með henni á fundinum, sem fór fram á veitingastaðnum Brúnni í Grindavík í gær frá klukkan 12-16, voru Sigurður Helgi Pálmason, safnvörður og þáttastjórnandi, sem skipar annað sæti listans í Suðurkjördæmi og Elín Íris Fanndal Jónasdóttir, félagsliði, sem skipar það þriðja.

„Þarna heyrðum við beint um erfiðleikana sem þau [Grindvíkingar] hafa glímt við á þessu ári t.d. vegna húsnæðis, andlega erfiðleika vegna álags en kannski fyrst og fremst óvissu, hvernig börnunum þeirra hefur liðið, hvernig það er að missa afkomuna, sumir á efri árum við það að hætta að vinna og fara að njóta ávaxtanna af mikilli vinnu til áratuga. Allt er þetta farið og minni fyrirtækjaeigendur verða að fara að fá svör um uppkaup, en spurningin sem við, öll hin á Íslandi þurfum að svara er:

„Hvernig þjóðfélag viljum við vera? Er það bara „tough luck“ og „þitt“ vandamál ef þú býrð í blómlegum bæ, með fullu samþykki yfirvalda, borgar þína skatta og skyldur til þjóðfélagsins, en lendir svo í svona skelfingar atburðum? Erum við þannig þjóðfélag? Ég segi NEI!“

Spyr hver beri ábyrgð á ákvörðun Fasteignafélagsins Þórkötlu

Ásthildur víkur næst máli sínu að Fasteignafélaginu Þórkötlu. Félagið var stofnað 27. febrúar 2024 og er tilgangur þess að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis innan þéttbýlisins í Grindavík, sem keyptar verða í samræmi við lög um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík nr. 16/2024.

„Núna í vor heimtaði Þórkatla „flutningsskil“ á þeim húsum sem hún keypti. Húsin skyldu þrifin (í lagi) og tæmd, eins og inn í það flytti ný fjölskylda „á morgun“. Grindvíkingar, sem þá bjuggu margir enn í bráðabirgðahúsnæði eða jafnvel inni á öðrum, og (sennilega) allir í mun minna plássi en áður,  áttu ekki annarra kosta völ en að henda búslóðinni sinni. Húsgögnum og heimilistækjum fyrir hundruðir milljóna, var hent. Einhverjum varð það víst á að skilja eftir kassa og fékk að sögn tugþúsunda sekt frá Þórkötlu.“

Ásthildur bendir á að í vikunni bauð fasteignafélagið síðan Grindvíkingum upp á hollvinasamninga. 

Sjá einnig: Grindvíkingar eiga nú kost á takmörkuðum afnotum af húsum sínum í bænum

„Þar er þeim boðið upp á að greiða Þórkötlu 30.000 + rafmagn og hita, fyrir að fá að hugsa um (tóma) húsið sitt, dytta að því, athuga með lagnir, sturta niður úr klósettum, og fleira sem hlýtur að koma öllum hagaðilum vel. Þau mega samt ekki sofa þar en þau mega, haldið ykkur, GEYMA DÓT og/eða BÚSLÓÐIR. Hvernig gengur svona bull upp? Hver ber ábyrgð á þessu?  Þetta er bara nokkuð af þeim raunveruleika sem blasir við þeim sem hafa misst samfélagið sitt. Þeim sem við segjumst standa með.

Svo hófst gos. Það snerti mig öðruvísi en áður eftir að hafa setið með fólkinu fyrr um daginn, þar af nokkrum sem búa í bænum og eru í hópnum sem „rýmdi“ í gærkvöldi.

Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim, því Grindvíkingar eru svo sannarlega ekki að sækjast eftir samúð, en hann er það samt.“

Segist Ásthildur hafa verið að ganga inn heima hjá sér um klukkan 23.12 að tala við Sigurð Helga í símanum, sem þá var að keyra Suðurstrandarveginn heim.

„Hvað er ég lengi ef ég fer Suðurstrandaveginn til Hveragerðis?“ Og svarið henni var, „Það tekur þig svona … það er að byrja gos,“ segir Ásthildur sem segir Sigurð Pálma hafa horft á gosið byrjað og sjálf hafi hún horft á gosið út um gluggann heima hjá sér.

„Grindavík er mér skiljanlega ofarlega í huga,“ 

segir Ásthildur sem átti annasaman dag í gær eins og fleiri frambjóðendur og byrjaði daginn í pallborði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja ásamt öðrum frambjóðendum Suðurkjördæmis og endaði hann á að horfa á myndina Árnar þagna í Þingborg í Flóahreppi og setu í pallborði á eftir ásamt frambjóðendum. Ásthildur átti einnig afmæli í gær og varð 58 ára.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK