fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Eyjan
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024 12:24

Davíð Þór Björgvinsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðreisn er eina stjórnmálaaflið sem heldur á lofti umræðu um aðild Íslands að ESB með því að hafa á meðal stefnumála sinna áherslu á að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort viðræður skuli hafnar að nýju. Þetta er hófleg nálgun af pólitískum og stjórnskipulegum ástæðum. Hvort sá tímapunktur er kominn að slík þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin eða hvort það verður tímabært á kjörtímabilinu sem í hönd fer er svo annað mál.

Nú er það svo frá stjórnskipulegu sjónarmiði að ríkisstjórn, sem hefur á bak við sig þingmeirihluta, getur tekið upp þráðinn í slíkum viðræðum án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæði um hvort svo skuli gert, rétt eins og þeim var slitið (eða frestað) síðast með einföldu bréfi ráðherra. Hvort það væri skynsamlegt frá pólitísku sjónarmiði er ekki augljóst. Ég læt það mat eftir fólki sem er reyndara en ég í pólitík.

Í öllum umræðum um aðild að ESB hefur einatt verið gengið út frá því að aðild væri stjórnskipulega ekki möguleg að óbreyttri stjórnarskrá þar sem hún fæli í sér að löggjafarvaldi, dómsvaldi og framkvæmdarvaldi yrði deilt með stofnunum ESB í ríkara mæli en heimilt er samkvæmt stjórnarskrá. Þótt þetta hafi í raun aldrei verið rannsakað sérstaklega ofan í kjölinn hér á landi svo mér sé kunnugt er ekki að sjá að um þetta sé ágreiningur. Við skulum því hafa það fyrir satt að ekki sé hægt að ganga í ESB að óbreyttri stjórnarskrá.

Af þessu leiðir að enginn einn flokkur eða ríkisstjórn, þótt við traustan meirihluta styðjist í þinginu, getur í raun klárað aðildarferlið á einu og sama kjörtímabilinu. Þetta leiðir af 79. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskránni, megi bera upp á Alþingi. Þá segir að nái tillagan samþykki skuli rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki nýtt Alþingi ályktunina óbreytta, skuli hún staðfest af forseta og sé hún þá gild stjórnskipunarlög.

Samkvæmt þessu getur engin ríkisstjórn klárað aðildarferlið nema a.m.k. einar kosningar til Alþingis eigi sér stað á þeirri leið frá því að ferlið hefst og þar til því lýkur. Skiptir þá engu máli hversu margar þjóðaratkvæðagreiðslur eru haldnar í aðdraganda viðræðna, meðan á þeim stendur eða um samning þegar hann liggur fyrir. Þjóðaratkvæðagreiðslur geta aldrei komið í staðinn fyrir þann feril sem stjórnarskráin mælir fyrir um og ekki hægt að breyta stjórnarskrá með öðrum hætti en 79. gr. stjórnarskrárinnar segir til um. Aðeins eftir að stjórnarskránni hefur verið breytt á stjórnskipulega réttan hátt á tveimur þingum er aðild að ESB möguleg.

Vegna þessara reglna á Íslandi um breytingu á stjórnarskrá er erfitt, ef ekki ómögulegt, að klára inngönguferli í ESB án þess að um málefnið ríki nokkuð breið pólitísk sátt sem teygi sig yfir á tvö kjörtímabil hið minnsta. Þetta er að sjálfsögðu ekki ómögulegt, en gæti orðið býsna torsótt í hinum íslenska pólitíska veruleika.

Skoða þarf áherslur Viðreisnar um að afla eins konar umboðs í þjóðaratkvæðagreiðslu til að taka upp viðræður við ESB í þessu ljósi. Ef í ljós kæmi í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu að mikill og sterkur vilji væri til þess meðal meirihluta kjósenda gæti það verið upptaktur að því að freista þess að ná pólitískri sátt um að ganga til viðræðna, enda ekki fráleitt að gera sér von um að stjórnmálaflokkar myndu almennt telja sér skylt að lúta því sem ætla má að sér skýr vilji þjóðarinnar um að viðræður fari fram og eftir atvikum eiga samvinnu um að leiða slíkt aðildarferli til lykta ef ljóst er að það er í samræmi við það sem meirihluti þjóðarinnar skýrlega vill. Það skal viðurkennt að þetta er kannski ekkert sérstaklega líklegt í samhengi íslenskra stjórnmála. Þó skal því haldið til haga að þetta væri samt í anda lýðræðislegra stjórnarhátta og ætti það vissulega að hafa vægi fyrir stjórnmálamenn. Aðdragandi slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu gæfi einnig tækifæri til að ræða ítarlega kosti og galla slíkrar aðildar og þannig stuðla að málefnalegri og upplýstri umræðu um málið frá öllum hliðum. Það eitt og sér yrði aldrei nema til bóta, myndi ég ætla.

Eðlilegt er að umræðum um kosti og galla þess fyrir Ísland að eiga aðild að ESB sé haldið lifandi, enda eru samskipti Íslands og ESB á mörgum sviðum afar víðtæk. Má raunar með nokkrum rétti orða það svo að Ísland sé þegar í ESB að hluta til þótt ekki sé svo formlega. Þetta gerðist með EES-samningnum þar sem Ísland varð hluti af sameiginlegum innri markaði ESB um frjáls vöruviðskipti, þjónustustarfsemi, fjármagnsflutninga og frjálsa för launþega, en þetta var og er enn einn mikilvægasti hluti samstarfs ríkja innan ESB. Til tryggja virkni markaðarins og hamla samkeppnishindrunum gilda einnig sameiginlegar reglur um samkeppni og ríkisaðstoð á þessum markaði. Íslendingar þurftu ekki aðeins að taka yfir reglurnar á þessum sviðum eins og þær voru þegar EES-samningurinn var gerður heldur skuldbundu sig líka til að innleiða nýjar og breyttar reglur sambandsins á þessum sviðum jafnóðum og þær taka gildi innan ESB. Þessar skuldbindingar fela einnig í sér skyldu til þess að tryggja reglunum sömu stöðu að landsrétti og þær hafa í aðildarríkjunum ESB. Íslendingar eiga til viðbótar margþætt samstarf við ESB, svo sem á vettvangi Schengen, utanríkismála, á sviði vísinda og fræða og mörgum öðrum sviðum. Þó eru aðrir þættir sem standa að mestu utan samstarfs Íslands og ESB, en mikilvægast er þar myntbandalagið (evran), sjávarútvegsstefna sambandsins, sem og landbúnaðarstefna.

Þegar allt þetta er skoðað og metið eru samskipti og tengslin við ESB ein meginstoðin í utanríkisstefnu Íslendinga án þess að við höfum nokkurt vægi við ákvörðunartöku um það hver stefna ESB er á hverjum tíma í þeim málaflokkum sem óhjákvæmilega snerta íslenska hagsmuni í ríkum mæli, hvort heldur okkur líkar betur eða verr. Í ljósi þessa er einkennilegt að málefni sem varða framtíðartengsl Íslands við ESB, og mögulega aðild ef út í það er farið, skuli ekki vera meira áberandi í stjórnmálaumræðu á Íslandi en raun ber vitni. Virðist þar jafnvel vera um eins konar tabú að ræða hjá mörgum, sem best sé að ræða bara alls ekki verði hjá því komist. Úr þessu þarf að bæta og eins og málum er háttað sýnist Viðreisn vera eina stjórnmálaaflið sem hefur vilja og ásetning til að halda málinu á dagskrá.

Höfundur er prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans á Akureyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?